Lítil mynd, en stór tíðindi

Það kann að vera að myndin hér til hliðar virki lítilfjörleg.  Í henni er engu að síður fólgið fyrsta skrefið að næsta áfanga í því að bæta samgöngur við Vestmannaeyjar.  Hún sýnir fyrstu stálplötuna í nýja Vestmannaeyjaferju vera skorna niður í skipasmíðastöðinni Crist í Póllandi og reiknað er með að skrokkurinn verði settur saman í haust.  Gangi allt eftir verður ný Vestmannaeyjaferja afhent í Póllandi 20. Júní á næsta ári og hefur siglingar fyrir þjóðhátíð á næsta ári. 

Ný kynnslóð af ferju

Sú ferja er í öllum megin dráttum sambærileg og núverandi Herjólfur í stærð en ber þó umtalsvert meira bæði af bílum og farþegum.  Að sjálfsögðu verður hún með fullt haffæri til siglinga um öll heimsins höf, þar með talið til Þorlákshafnar.  Mestu skiptir samt að henni er ætlað að sigla við allt annað öryggi í Landeyjahöfn og ráða við amk. 3,5 ölduhæð.  Hin nýja ferja er algerlega ný kynslóð af ferjum, búin „azipull“ skrúfum, tvinntækni og fl. sem ekki hefur verið í farþegaskipum við Ísland áður.

Allt gengur vel

Undirbúningur hefur gengið vel.  Unnið hefur verið að því að fá þann raf- og vélbúnað sem til þarf en talsverður afgreiðslufrestur vill oft verða á slíku.  Þá hefur einnig verið unnið í smávægilegri útfærslum og lokahönnun á til dæmis loftræstibúnaði auk þes sem líkanið var prófað til að reyna skrúfurnar, ganga frá loka útfærslu á þeim og finna út viðnám skrokks og fleira.  Öfugt við það sem sögurnar hafa sagt hér í Eyjum þá gekk það allt saman vel.

Breyta þarf höfninni

Fyrirliggja fyrirheit samgönguyfirvalda um að smíðatíminn verði nýttur til að gera nauðsynlegar breytingar á höfninni sjálfri og ber þar hæst breyting á innrigörðum (austan við viðlegukanntinn) sem og ný aðferð til dýpkunar sem tryggja á nægt dýpi í innsiglingunni.

Nóg komð af kyrrstöðu

Það er nóg komið af kyrrstöðu.  Samfélagið hér í Eyjum þarf á því að halda að samgöngur verði færðar til betri vegar.  

Previous
Previous

Framtíðin - Opinn fundur um samgöngur á sjó (seinnihálfleikur)

Next
Next

Landsbyggðirnar þurfa á ferðaþjónustu að halda