Af lygum, missögnum og sér mannlegri getu.

Lygi, missögn

Getan til að ljúga er sér mannleg. Fjöldi samheita og tengdra orða er til marks um hversu mikilvægi lygi er.

Á Íslensku má alltaf finna svar, og orða stórt og smátt sem er og var“, sagði Þórarinn Eldjárn í ljóði sínu sem flestir þekkja undir lagi Atla Heimis Sveinssonar.  Svar Heimildarinnar við því að blaðamaður þeirra fór ekki rétt með í umræðu um áreitni og athugasemdir af kynferðislegum undirtoga var að kalla lygina „misssögn“.  Um þetta hefur verið margt rætt og ritað og ég er einn af þeim sem er hugsi yfir þessu.  Enn meira hugsi er ég um það af hverju við mannkynið búum yfir getunni til að ljúga.

 

Af hverju ljúgum við

Út frá sálfræðilegu sjónarhorni er lygi gjarnan séð sem flókið hegðunarmynstur sem mótast af ýmsum hugrænum og félagslegum þáttum. Ein ríkasta ástæða þess að fólk lýgur er að það upplifir sig í aðstæðum þar sem það þarf að vernda sig eða aðra fyrir einhverskonar skaða eða neikvæðum afleiðingum sem sannleikurinn myndi hafa. Til dæmis, ef einhver hefur gert eitthvað rangt, getur hann valið lygina sem leið til að forðast refsingu.  Önnur algeng ástæða fyrir því að fólk lýgur er til að viðhalda eða öðlast ákveðna félagslega stöðu. Þá lýgur fólk meðvitað til að vekja hrifningu annarra, forðast átök eða til að falla inn í ákveðinn hóp. Í sumum tilfellum kann fólk að ljúga einfaldlega vegna þess að það er orðið að venju eða leið til að takast á við streitu eða kvíða.  Lygin er því allt í kringum okkur, þéttur vefur sem við spinnum af ótrúlegri næmni og vissu.

 

Það er nánast vonlaust að ætla að segja satt.

Í gamla lífinu mínu, að afloknu masternámi í klínískri sálfræði, kenndi ég við Framhaldsskólann í Vestmannaeyjum.  Í umfjöllun um lygi í félagssálfræðiáfanga lagði ég stundum fyrir nemendur mína einfalt verkefni, gjarnan á föstududögum. Það var svona: „Þar til við hittumst næst mátt þú bara segja satt.  Allt form af lygi er bannað“.  Ég kenndi í 10 ár.  Engum nemenda tókst að fara í gegnum helgi án þess að ljúga. Þau lugu oftast til að þóknast eða koma í veg fyrir að særa.  „Nei þú ert ekki feit í þessum gallabuxum“, „Rosalega flottar gardínur amma“, „ofsalega var þetta flottur kollhnís hjá þér“.  Stundum til að ganga í augun á samferðafólki, stundum til að forðast refsingu, stundum til að auðvelda sér lífið, stundum sér og öðrum til skemmtunar.  Lygin var fjölbreytt, stöðug og almenn.

 

Karlar ljúga meira en konur.

Nýlegar rannsóknir hafa bent til þess að við ljúgum í allt að 20% samskipta sem vara í 10 mínútur eða meira. Í dag er sterk hreintrúnaðarbylgja sem boðar það að engin munur sé á kynjum bæði kynin -jafnvel öll kynin- séu eins.  Eftir sem áður kemur í ljós að karlar ljúga meira enn konur og sérstaklega þegar þeir tala hver við annan.  Þannig ljúga þeir sjálfmiðuðum frásögnum átta sinnum oftar en þeir ljúga einhverju tengdu öðrum.  Oftast í þeim tilgangi að ganga í augun á öðrum.  Konur ljúga hinsvegar oftar í þeim tilgangi að vernda tilfinningar annarra. Það hefur sjálfsagt verið með þetta í huga sem Ibsen sagði „Ef þér takið lífslygina frá miðlungsmanni sviptið þér hann hamingjunni“.

 

Mikilvæg félagsleg geta

Hæfileikinn til að ljúga er því hreinlega mikilvæg fyrir okkur félagslega.  Hún byggir á getu okkar til að skilja og virða að annað fólk hefur persónubundna eiginleika og orð okkar og gjörðir hafa ólík áhrif á þau. Til að halda hópinn er því mikilvægt að geta aðlagað veruleikann að þeim sem við eigum í samskipti við á hverri stundu.  Svo er hún stundum hreinlega bara svo helvíti skemmtileg.

 

Þegar lyginn verður að nýjum veruleika

Þegar börnin mín voru lítil las ég stundum fyrir þau söguna um Línu Langsokk.  Hún var sannarlega sterk stúlka sem fór frjálslega með sannleikann.  Hún laug, eða missagði, svo notað sé orðalag samtímans.  Hún fór ekki alltaf varlega í lygunum og hennar lygi var að hennar eigin veruleika:

Þegar ég var háttuð hér um kvöldið spann ég upp langa sögu um kálf sem kunni að knippla blúndur og klifra í trjám, og hugsaðu þér, ég trúði hverju einasta orði! Þetta kalla ég að ljúga af list.
— Astrid Lindgren

Hjá Línu var þetta lítil yfirsjón og skemmtileg. Almennt held ég að þar þurfi að draga línuna.  Þegar lygin verður að nýjum veruleika þess sem lýgur, þá er voðinn vís.

 

Fylgt úr hlaði

Á heildina litið er lygi sem slík ekki skaðleg, heldur mikilvæg færni sem við reiðum okkur á í flóknum heimi mannlegra samskipta.  Eins og önnur tól getur hún þó haft skaðlegar afleiðingar, þessa mikilvægu getu þarf því að fara varleg með. Hún getur valdið óbærilegum skaða og sé henni beitt í viðkvæmum málum eins og í umræðu um ofbeldi, þá skaðast allir.

Previous
Previous

Kjaftasögur og slúður  

Next
Next

Réttlætir árásir öfga vinstrimanna á þinghús á Íslandi en fordæmir árásir öfga hægrimanna á þinghús í Washington