Kjaftasögur og slúður  

Kjaftasögur og slúður geta valdið óbærilegum skaða

Kjaftasögur og slúður  

Ég las um helgina átakanleg áminningarorð Samúels Ívars Árnasonar (Samma) [(3) Facebook], skrifuð eftir sjálfsvíg bróður hans, Stefáns Arnars (Adda).  Rétt er að taka það fram að ég þekkti nokkuð vel til Adda og fjölskyldu hans. Hún stendur mér nærri og er mér kær. Það sem leitað hefur á mig eftir lestur skrifa Samma eru sérstaklega þessi orð: „Umtal/sögur um hann hafa borist okkur til eyrna, illkvittinn orðrómur og atburðarrás sem standast ekki nánari skoðun.“  

Mannorðsmorð og afleiðingar 

Í gamla lífinu mínu hafði ég oft tækifæri til að kafa ofan í sálfræðileg mál.  Um tíma var ég með námskeið og fyrirlestra um kjaftasögur, eðli þeirra og orsakir. Áhuginn ef til vill sprottinn af því að ósjaldan hef ég verið þungamiðja slíkra sagna, stundum að sekju og stundum að ósekju. Námskeiðin voru vel sótt (uppselt á sum þeirra) enda þekkja margir til þess hversu skaðlegt óábyrgt blaður getur verið. Jafnvel svo mjög að fólk sem hefur ekkert sér til saka unnið verði fyrir mannorðsmorði, og jafnvel brotnar saman og gefst upp á lífinu. Sammi telur sannarlega að kjaftasögur hafi átt þátt í þeim harmleik sem kostaði bróður hans lífið og færir fyrir því sennileg, yfirveguð og málefnaleg rök. Þá fjallaði DV um skaðleg áhrif slúðurs og kjaftsögur í ágætis viðtali við Hafdísi Björg, einkaþjálfara (Hafdís Björg um áreitið, kjaftasögurnar og áhrifin á heilsuna - „Sögusagnir verða alltaf eins og hvísluleikur“ - DV). Margir aðrir hafa orðið illa fyrir barðinu fyrir þessum hættulega leik svo sem Hjörvar Hafliða (Kastaðist í kekki á Spot í gær - „Engar áhyggjur, Við Mike erum enn bestu vinir“ - DV), Hanna Rún (Hanna rún og kjaftasögurnar: sögð eiga í ástarsambandi við föður sinn (hringbraut.is)), Klara í Nylon (Klara heyrir sjaldan kjaftasögurnar - (nutiminn.is)), Birgitta Jónsdóttir, Pírati (Birgitta segist í áfalli yfir ásökunum - RÚV.is (ruv.is)), Bubbi Marthens (Dagblaðið Vísir - DV - 102. tölublað (02.06.2006) - Tímarit.is (timarit.is)) og svo margir fleiri.  Auðvitað ber fólk sig misvel en kjaftasögur og slúður skaðar alltaf. 

Allir geta orðið fyrir slúðri, en sumir eru í stöðum sem gefa sögunum aukið líf 

Fórnarlömb slúðurs geta verið hver sem er. Allir geta orðið fórnarlömb slúðurs. Eftir sem áður þá er það svo að fólk í ábyrgðastöðum sem höndla á einhvern hátt með ákvarðanir eða eru áberandi eru líklegri til þess að sögurnar fái vængi. Slíkt er til dæmis alþekkt í stjórnmálum, innan íþróttahreyfingarinnar, innan viðskiptalífsins og víðar. Upptalningin um umfjöllun fjölmiðla um kjaftasögur hér að ofan eru til marks um það. Þá er gjarnan brugðið á óvönduð ráð og slúður notað markvisst til að grafa undan trúverðugleika og valda markvissum skaða.   

Helstu ástæður slúðurs eru oft taldar: 

*Að valda markvissum skaða eða ná að stjórna 

Sögur eru oft sagðar til að „taka niður“ fólk í ábyrgðarstöðum. Þannig er möguleiki til að hafa áhrif á ákvarðanir eða draga úr valdi og/eða trúverðugleika þeirra.  Jafnvel að stjórna þeim, eða skipta þeim þá út sé sagan nægilega áhrifarík. Sannleikurinn víkur því miður fyrir tilganginum. 

*Félagsleg trúnaðargjöf 

Maðurinn er félagsvera. Með því að slúðra getur slúðrarinn verið að gera tilraun til að öðlast sess í viðkomandi félagsgrúbbu.  Þannig reynir viðkomandi að mynda tengsl með því að færa hinum í hópnum krassandi sögu sem er nokkurs konar félagsleg trúnaðargjöf.  Þessar sögur eru þá gjarnan þess eðlis að þær eru sjokkerandi eða hreinlega skemmtilegar. Það hvort sagan sé sönn eða login er léttvægt í mati á gæði gjörningsins.  Tilgangurinn er enda að skemmta eða leggja eitthvað til félagshópsins.   

*Af vanmáttkennd/upphefja sjálfan sig 

Slúðrarinn notar stundum slúðrið til að upphefja sjálfan sig. Með því að slúðra gerir viðkomandi sjálfa sig að miðdepli athyglinnar.  Hann reynir að skreyta sig með einhverri meintri dyggð.  Sendir hrein skilaboð um að hann/hún myndi nú aldrei leggjast svona lágt. Satt eða logið skiptir þá ekki máli 

Slúðrið getur bitnað á slúðraranum 

Ástæða er til að hafa í huga að margt bendir til þess að slúðrið sé tvíeggja sverð því rannsóknir benda til þess að innihald slúðursins hverfist að umtalsverðu leyti yfir á slúðrarann sjálfan.  Frægt er að mikill meirihluti taldi á sínum tíma að Kenneth Star (sá sem gekk hvað lengst í því að fá Clinton sakfelldan fyrir lygar) væri sjálfur lyginn.  Mörg önnur dæmi eru um það hversu hætt er við því að eigindir slúðursins smyrjist á slúðrarann sjálfan. Öll þekkjum við hversu illa við treystum þeim sem slúðra. Það kann að eiga rót í þessu.  

Skaðinn getur verið óbærilegur 

Eitt er að skilja hina sálfræðilegu rót að slúðri og kjaftasögum. Annað er að átta sig á hvaða afleiðingar það að bera út slúður og kjaftsögur getur haft. Sannast sagna grunar mig að slúðurberarnir átti sig sjaldnast á þeim hroðalegu afleiðingum sem slúður getur haft.  

Sammi, segir í skrifum sínum: 

„Í dag virðist ekki skipta miklu máli hvort þú ert sekur eða saklaus þegar orðrómurinn fer af stað... Það elska líka allir að heyra eitthvað krassandi um náungann, smjatta vel á því og segja öðrum hvað einhver á að hafa gert, eða hvað? Frásögnin breytist svo hægt og rólega í eitthvað sem hann eða hún gerði. Snjóboltinn fer að rúlla og sögurnar hlaða á sig fleiri krúsídúllum eftir því sem fleiri bera hana á milli sín og hver og einn segir hana oftar. Áður en þú veist af er allt orðið staðfest því þú ert búinn að heyra það svo oft og jafnvel „frá einhverjum sem þekkir vel til málsins“. Fram á sviðið stíga sjálfskipaðir sérfræðingar sem reyna að upphefja sjálfan sig... með því að vera með upplýsingar „úr innsta hring“ að eigin sögn.“  

Þetta eru áhrifarík orð sem lýsa því vel hvernig slúður og kjaftasögur eignast eigið líf og fjarvera sannleikans því miður oft sjálf ástæða lífvænleika sögunnar.  

Fylgt úr hlaði 

Hugsaðu nú sjálfur/sjálf, hvenær heyrðir þú seinast kjaftasögu og hvernig brástu við? Leitar þú sannleikans eða léstu hann þér í léttu rúmi liggja? Barstu söguna áfram? Getur verið að þú sért -ómeðvitað- að valda einhverjum ómældum skaða? Getur verið að sagan sé ósönn? Getur verið að sagan eigi hreint ekkert erindi í almenna umræðu?  Ættir þú ef til vill frekar að berjast gegn þeirri andstyggð sem kjaftasögur eru, frekar en að taka þátt í þeim? 

Ég votta aðstandendum Adda einlægrar samúðar og þakka Samma hjartanlega fyrir að minna okkur á aðgát skal höfð í nærveru sálar. 

Previous
Previous

Orlofstíminn er mikilvægur

Next
Next

Af lygum, missögnum og sér mannlegri getu.