Mikið álag á kennurum

Á skömmum tíma hefur skólastarf þróast hratt.  Hraðinn í samfélaginu hefur vaxið og kröfur til skólastarfs samhliða.  Litróf nemenda hefur einnig orðið enn fjölbreyttara til að mynda með aukinni áherslu á þjónustu við nemendur sem eru af erlendu bergi brotnir, auknum kröfum hvað lestur varðar og áherslu á greiningu og markvissa vinnu með þá sem þurfa sér stuðning við nám sitt.

Við gerð kjarasamninganna árið 2014 voru gerðar breytingar á starfsumhverfi kennara og vinnumat innleitt í grunnskólum. Þessar breytingar þóttu ekki skila árangri og því var ákveðið að fela hverju sveitarfélagi að fara betur yfir málin og greina hvernig mætti gera betur

Almennt mikið álag á kennurum

Niðurstaða þeirrar vinnu hér í Vestmannaeyjum var nokkuð samhljóma því sem sama vinna skilaði í öðrum sveitarfélögum. Í ljós kom að kennarar telja að almennt sé mikið álag á kennurum í starfi sem komi niður á tíma til kennslu og undirbúnings hennar.

Styrkja þarf stoðkerfi skólans

Þá benti skýrsla sem unnin var af fyrirtækinu „Ráðrík“ fyrir Vestmannaeyja á mikilvægi þess að stoðkerfi skólans verði styrkt og ákveðnar úrbætur gerðar hvað starfsaðstæður varðar.

Úrbætur

Skýrslur eru þó til lítils ef þær leiða ekki til úrbóta.  Í framhaldi af tilgreindum skýrslum lögðust stjórnendur í rýnivinnu með það að markmiði að finna leiðir til úrbóta þannig að tryggt verði að kennsla og undirbúningur hennar séu forgangsverkefni í skólastarfi Grunnskólans.

Óskir kennara og annars starfsfólks

Þá var einnig ákveðið að taka inn í rýnivinnuna þær óskir sem kennarar og annað skólafólk hafa verið með hvað verklegar framkvæmdir við skólahúsnæði varðar sem og almennar starfsaðstæður og stoðkerfi.

Á 297. fundi fræðsluráðs var samþykkt að ráðast tafarlaust í eftirfarandi aðgerðir til að bæta starfsumhverfi kennara:

1. Bætt við stöðu sérkennsluráðgjafa

Bætt verði við a.m.k. hálft stöðugildi kennslu- og sérkennsluráðgjafa á skólaskrifstofu sem starfi innan GRV og aðstoðar stjórnendur og kennara með skipulag og framkvæmd sérkennslu. 

2. Aukið við stöðu sérkennslustjóra

Staða sérkennslustjóra sem er inni á leikskólum færist undir skólaskrifstofu og starfshlutfall verði hækkað úr 75% í 90%. 

3.  Kennslustundir umfram reiknireglu

Úthlutaðar kennslustundir til GRV verði samtals 1220 kennslustundir á viku og því 29 umfram þá reiknireglu sem almennt er miðað við. Umfram úthlutunin nemur rúmlega stöðugildi kennara sem hugmyndin er að nýtt sé til annarra starfa en bekkjarkennslu. Þannig verði miðað við 29 bekkjardeildir eins og á núverandi skólaári. Skiptingin verði eftirfarandi: 

Almennar kennslustundir 1043,3 

Sérkennsla 127,7 kennslustundir 

Nýbúafræðsla 23 kennslustundir 

Tónlistarkennsla frá Tónlistarskólanum 20 kennslustundir (innifalið í almennum kennslustundum) 

Viðbótarúthlutun sem skólastjóri ráðstafar alls 26 kennslust. 

4. Sérfræðistuðningur styrktur

Tafarlaust verði ráðið í stöðu sálfræðings. Fáist ekki sálfræðingur til starfa verður leitað eftir öðrum ráðgjafa í hlutastarf (c.a. 70%) á skólaskrifstofu. Til viðbótar verður greiningarvinna og önnur stoðþjónusta einnig áfram í verktöku hjá löggiltum sálfræðingi. 

5. Húsnæði lagfært

Tafarlaust verði ráðist í lagfæringar á skólahúsnæði Hamarsskóla og Barnaskólans og bætt þar með aðstöðu til kennslu og starfsmannaaðstöðu (nánar um það í nýrri færslu á morgun).

Kostnaður

Áætlaður kostnaður vegna þessa eru rúmar 60 milljónir.

Fylgt úr hlaði

Á seinustu árum hefur mikil áhersla verið lögð á að treysta faglegar undirstöður skólanna með það að leiðarljósi að efla menntun barnanna og vellíðan þeirra. Kennarar og annað starfsfólk hefur stigið fast fram og árangur þegar farinn að sjást. 

Til að feta áfram þá slóð þarf aðstaða barnanna til náms að vera fullnægjandi og faglegt starf í hávegum haft. Á sama hátt er mikilvægt að starfsumhverfi og aðstaða kennara og annarra starfsmanna sé í samræmi við mikilvægi starfa þeirra.  

Það sem að ofan greinir er ekki endanleg niðurstaða heldur fyrstu skref.  Þar er höfuð áhersla lögð á að mæta tafarlaust þeim ábendingum sem kennarar hafa lagt fram með það að leiðarljósi að bæta starfsumhverfi og byggja enn frekar upp stoðkerfi í fræðslumálum. 

Þessi mál verða því áfram til skoðunar og fleiri skrefa að vænta til að byggja upp fyrirmynda skólastarf í Vestmannaeyjum.

Previous
Previous

Skólahúsnæði í raun aldrei fullbyggt

Next
Next

Fæðingaþjónusta er óviðunandi í landsbyggðunum