Nú er þörf á að virkja þennan vilja

Á Íslandi er deilt um laun.  Útlit er fyrir hörðustu kjaradeilur í langan tíma.  Tjónið fyrir íslenskan efnahag getur orðið umtalsvert, bæði hvað varðar beint tap vegna vinnustöðvunar og síðan það ríka tjón sem orðið getur ef verðbólgudraugnum verður hleypt úr hans grunnu gröf.  

Ég tók mig til og rýndi aðeins í útgjöld Vestmannaeyjabæjar vegna launagreiðslna frá 2008.  Sá sannleikur sem þar birtist er...

...ekki algildur en veitir þó ákveðna yfirsýn.  Hjá Vestmannaeyjabæ eru enda gefnir út launaseðlar á yfir 500 manns á hverju ári.  Unnið er eftir 22 kjarasamningum í 18 stofnunum.

Launagreiðslur hækka en skattarnir enn meira

Staðreyndin er sú að launagreiðslur hjá Vestmannaeyjabæjar hafa hækkað um 24,4% frá 2008.  Það segir þó ekki alla söguna.  Staðgreiðsla skatta hefur nefnilega hækkað mikið meira eða um 34,2% á þessum sama tíma og tryggingagjald um 25,9%. Hið opinbera er sem sagt að taka til sín stærra og stærra hlutfall af launagreiðslum Vestmannaeyjabæjar um hver mánaðarmót.

Báknið

Það kann að vera að í því umhverfi sem nú ríkir í kjaraviðræðum þurfi ríkisstjórn að líta til þessa þáttar. Það kann að vera að hluti af kröfu launafólks sé að ríkið slaki á heljargripi skattheimtunnar.  Það þarf ekki mikla ígrundun til að átta sig á því að eftir því sem ríkið tekur meira til sín þá verður minna eftir hjá launþegum.  Eftir því sem báknið þenst meira út þarf ríkið meiri tekjur.

Mikil aukning í ríkisrekstri

Rekstrarkostnaður ríkisins (utan gjaldfærðra lífeyrisskuldbindinga) hækkaði að raunvirði um tæplega 113 þúsund milljónir (113.000.000.000) króna frá árinu 2000 til 2013 eða um 58%. Hækkunin jafngildir tæplega 98% af tekjuskatti sem ríkissjóður lagði á einstaklinga árið 2013.  Þar við bætist að sértekjur stofnana ríkisins, sem líka falla á launafólk, voru rúmlega 11 þúsund milljónum (11.000.000.000) hærri árið 2013 en 2000.

Lækkun skatta

Það kann því að vera að með því að forgangsraða í ríkisrekstrinum megi lækka skatta og rétta þar með hlut launafólks.  Hækkun á skattleysismörkum, lækkun tolla á barnaföt, lækkun skatta á leiguhúsnæði, lækkun tryggingagjalds og fl. gæti auðveldað kjaraviðræður.

Með lækkun skatta má ná fram kjarabótum

Í landinu núna er ríkisstjórn sem segist vera hægra megin við miðju.  Í stefnuyfirlýsingu þeirrar ríkistjórnar segir orðrétt:

„Með lækkun skatta á tekjur, vörur og þjónustu má ná fram mikilvægum kjarabótum sem útfærðar verða nánar í samráði við aðila vinnumarkaðarins …“

Nú er þörf á því að virkja þennan vilja sem þarna kemur fram.

Previous
Previous

Slík þingkona er Birgitta Jónsdóttir

Next
Next

Stétt með stétt