Sinfó til Eyja
Óvíða er menning og mannlíf jafn lifandi og fallegt og hér í Vestmannaeyjum. Í hverri einustu viku standa íbúum og gestum til boða margskonar aðgengi að menningarlífi sem spannar allt frá myndlistasýningum, leikhúsverkum og tónleikum yfir í ljóðalestur og sögugöngur.
Vestmannaeyjabær reynir í samstarfi við fjölmarga aðila að brydda stöðugt upp á nýjungum og gæta þess að sem flestir finna eitthvað við sitt hæfi á því hlaðborði sem menningardagskráin er.
Nú innan skamms verður boðið upp enn einn einstaka viðburðinn í Vestmannaeyskumenningarlífi þegar Sinfóníuhljómsveit Íslands heldur í tónleikaferð hingað til Vestmannaeyja með glæsilega dagskrá í farteskinu. Tónleikarnir verða í Íþróttamiðstöðinni 1. mars kl. 19.30 og síðan verður boðið upp á sérstaka skólatónleika næsta dag kl. 10:30.
Efnisvalið er ekki af verri endanum frekar en flytjendurnir. Einleikari í hinum víðfræga fiðlukonserti Tsjajkovskíjs verður Sigrún Eðvaldsdóttir konsertmeistari SÍ, en hljómsveitarstjóri er Bjarni Frímann Bjarnason. Auk fiðlukonsertsins flytjur hljómsveitin syrpu vinsælla laga eftir Eyjamanninn Oddgeir Kristjánsson, slavneskan dans eftir Antonín Dvoák, og sinfóníu nr. 4 eftir Ludwig van Beethoven.
Í för með Sinfóníuhljómsveitinni verður síðan músin knáa Maxímús Músíkús sem tryggir að gestir af yngirkynslóðinni fái eitthvað fyrir sinn snúð en sívinsælt ævintýrið um Maxa og hljómsveitina verður á dagskrá á skóla- og barnatónleikum Sinfóníunnar kl. 10:30 á fimmtudeginum 2. mars.
Ástæða er til að hvetja Eyjamenn og gesti þeirra til að fjölmenna á þennan vandaða viðburð og er aðgangur að tónleikunum ókeypis og allir velkomnir.
Nánar: http://www.sinfonia.is/tonleikar-og-midasala/landshorna-a-milli-vestmannaeyjar