Störf sjómanna eru grundvöllur að öllu sem gerist í Vestmannaeyjum
Öflug byggð fær ekki þrifist í Vestmannaeyjum nema í skjóli sjávarútvegs.
Í gegnum tíðina hefur íbúafjöldi ráðist af því hvernig gengið hefur að veiða, vinna og selja fisk. Störf sjómanna eru þannig grundvöllur að velmegun Vestmannaeyja. Þannig var það, þannig er það og þannig verður það.
Allar breytingar á umhverfi sjávarútvegs eru því dæmdar til að hafa áhrif á byggð í Vestmannaeyjum. Stundum hefur það verið til góðs en stundum til hins verra.
Vöxtur sjávarútvegs var forsenda samtímans
Til marks um þetta er sú gríðarmikla íbúafjölgun sem varð í Vestmannaeyjum upp úr þar síðustu aldamótum þegar vélbátaútgerð hófst. Árið 1890 var íbúafjöldi í Vestmannaeyjum 565 og var hagur þeirra flestra bágborinn. 1920 var íbúafjöldinn kominn í 2.426 og 1930 í 3.573. Hagur hvers íbúa vænkaði að sama skapi. Það var því þessi hraði vöxtur sjávarútvegsins sem bjó til það samfélag sem við síðan höfum átt hér í Eyjum
Erfitt skeið í kjölfar frjálsa framsalsins
Um gos bjuggu 5300 íbúar í Vestmannaeyjum. Það er í raun ótrúlegt hversu margir þeirra skiluðu sér aftur strax að gosi loknu. Íbúum fjölgaði síðan nánast stöðugt til ársins 1991 þegar þeir voru rétt tæplega 5000 en þá tók við afar erfiður tími hvað íbúaþróun varðar. Í kjölfar hins frjálsa framsals með aflaheimildir fækkaði íbúum um 20% til ársins 2006.
Ríkið fleytir rjómann
Hið frjálsa framsal aflaheimilda var með öllu nauðsynleg aðgerð. Á forsendum hennar var ráðist í löngu tímabærar hagræðingaaðgerðir og eftir hana átti þjóðin orðið arðbæra atvinnugrein. Hin hliðin á þessum tilfærslum er hinsvegar að herkostnaður hennar var eingöngu greiddur af íbúum sjávarbygða. Vissulega styrktust fyrirtækin, margir efnuðust á sölu aflaheimilda þegar þeir hættu í útgerð, aðrir sköpuðu velmegun inn í framtíðina og eins og ætíð fleyttii ríkið að mestu rjómann og sem fyrr nýttist hann að ráðandi leyti til vaxtar á höfuðborgarsvæðinu.
Eftir sátu flestar sjávarbyggðir í sárum.
Jafnvel hér í Vestmannaeyjum þar sem heildarkvótastaða styrktist verulega við kaup á aflaheimildum þurfti einn af hverjum fimm íbúum að flytja vegna þess að störfum fækkaði. Víða annarsstaðar var þessi staða mikið erfiðari og þá sérstaklega þegar litlir staðir töpuðu aflaheimildum. Ósennilegt er að mörg þessara atvinnusvæða eigi nokkru sinni eftir að bera sitt barr.
Blóðmjólkun
Þegar Eyjamenn og fyrirtæki í Vestmannaeyjum voru byrjuð að rétta úr kútnum eftir erfiðleikana sem fylgdu frjálsa framsalinu og komin með mikil tækifæri til vaxtar atvinnusvæðinu til framdráttar hófst næsti skellur. Enn á ný var fundin leið til að blóðmjólka atvinnugrein landsbyggðarinnar og nú með háum sértækum skatti á hana. Hér í Vestmannaeyjum eru áhrif þessa löngu farin að koma fram. Þannig hefur störfum fyrir sjómenn fækkað um 124 á skömmum tíma. Enn er útlit fyrir að þeim störfum eigi eftir að fækka enn frekar.
Störf sjómanna standa undir stórum hluta samfélgsins.
Hið háa þjónustustig sem er í Vestmannaeyjum hefur ekki orðið til úr engu. Á bak við þjónustuna eru starfsmenn fyrirtækja sem leggja til hluta launa sinna til að tryggja hana. Sjómenn leggja á sig mikla vinnu við erfitt og krefjandi umhverfi. Fyrir það eiga þeir að hafa hærri laun en gengur og gerist. Það eru störf sjómanna sem liggja að stóru leyti til grundvallar öllu sem gerist í sjávarútvegi og þar með öllu sem gerist í Vestmannaeyjum Um þau þarf að standa vörð og krefjast þarf skilnings á sérstöðu þeirra starfa.
Sjómenn – hafið þakkir fyrir störf ykkar og til hamingju með daginn.