Ríkið á ekki að vera á smásölumarkaði

Ísland er lítið land og smásölumarkaður er þar erfiður.  Almennt má segja að hið opinbera hafi ekki erindi inn á þennan litla smásölumarkað.  Að fara í slíka samkeppni á forsendum sjálftekins markaðsforskots í formi tollaívilnana og skattleysis er fráleitt.  Að íslenska ríkið reki a.m.k. sex verslanir í Leifstöð þar sem keppt er við innlenda smásala um til að mynda ilmvötn og sælgæti er tímaskekkja.

38% samkeppnisforskot

Samkeppnisforskotið er slíkt að enginn innlendur aðili getur keppt við ríkið.  Fríðindin sem ríkið skammtar sjálfum sér hvað varðar virðisaukaskatt, tolla og vörugjöld gera það að verkum að allt að 38% munur getur verið á vöruverði hjá Fríhöfninni og öðrum smásölum í landinu.  Það hlýtur að vekja upp spurningu hvort ekki sé nær að lækka þessi gjöld almennt á smásala innanlands, neytendum öllum til hagsbóta.

Markaðshlutdeild í sælgæti upp á 35%

Þessi ríkisverslun á Leifsstöð er langt frá því að vera léttvæg á okkar litla innlenda markaði.  Árið 2013 (er því miður ekki með nýrri tölur) voru keyptar snyrtivörur fyrir 1420 milljónir í ríkisversluninni sem nýtir tolla- og skattfríðinda til að laða til sín viðskipti.  Ríkið seldi þar sælgæti fyrir 1.270 milljónir, fatnað fyrir 370 milljónir, leikföng fyrir 350 milljónir og áfengi og tóbak fyrir 4.170 milljónir.  Heildar markaðs-hlutdeild ríkisins í sælgætisölu er 35% og 32% í snytivörum.  Þetta skekkir samkeppnisstöðu og dregur úr veltuhraða og framlegð á innanlandsmarkaði.  Þar með hækkar verð á innlenda neytendur.

Íslenska ríkið bætir í á meðan aðrir draga úr

Mjög víða í heiminum er fríhafnarverslun á undanhaldi og á það sérstaklega við um komuverslun.  Á Íslandi er slíkt að aukast.  Ekki eingöngu gefst nú tækifæri á netverslun og fleira heldur notaði ríkið seinustu daga þingsins til að auka það magn af bjór sem bera má tollfrjálst inn í landið.  Ástæða þess að víðast hvar er verið að draga úr komuverslun er sú að staðreynd að slík verslun er almennt talin skaða samkeppnisstöðu innlendrar verslunar, grafa undan skattkerfi, skerða stöðu neytenda á innanlandsmarkaði og draga úr jafnræði á milli þeirra.

Þessi mynd sýnir hvaða lönd bjóða upp á komuverslun í beinni samkeppni við innlenda smásala:

Einkaðilar sjái um smásölu 

Það er að mínu mati löngu tímabært að afnema samkeppnisrekstur ríkisins í smásölu.  Rekstur verslanamiðstöðvar við alþjóðaflugvölli á ekki að vera meðal verkefna hins opinbera.  Réttast væri því að Fríhöfnin ehf. verði lögð niður og einkaaðilum alfarið eftirlátið að sjá um verslunarþjónustu í Flugstöð Leifs Eiríkssonar.  Þá er einnig rétt að komuverslun í flugstöðinni verði lögð niður enda heyra slíkar verslanir til algerrar undantekningar í heiminum þar sem þær keppa með opinberri meðgjöf um sömu neytendur og innlendir smásalar.

Ósanngjarnt 

Það er hreinlega allt rangt við þessa ríkisverslun.  Ekki hvað síst er það rangt og ósanngjarnt að með fríhöfnum er okkur sem oftar ferðumst og höfum sennilega að jafnaði rýmri fjárráð, gefinn kostur á að versla skattfrjálsan varning á meðan hinir sem sjaldnar ferðast hafa ekki slíkt tækifæri. Neytendur sitja því ekki við sama borð þegar fríhafnarverslun er annars vegar. 

Previous
Previous

Mjókurkúin sveltur - Dregið hefur úr innviðafjárfestingum

Next
Next

Störf sjómanna eru grundvöllur að öllu sem gerist í Vestmannaeyjum