Staða samgangna á sjó - Herjóflur og Landeyjahöfn
Í dag ræddi bæjarstjórn samgöngur á sjó við Vestmannaeyjar. Í upphafi
umræðunnar lagði ég fram minnisblað þar sem dregnar voru saman upplýsingar og leitast við að svara þeim spurningum sem bæjarfulltrúar beindu til mín. Hér fyrir neðan má finna umfjöllunina í heild. Ástæða er þó til að taka fram að tíminn sem gafst til undirbúnings þessara svara var takmarkaður og aðgengi að upplýsingum skert vegna....
... sumarleyfa.
Sumarið
Sumarið hefur gengið vel. Ekki liggja fyrir upplýsingar um farþegatölur en líklegt má telja að flutningar á bílum og farþegum sé vel umfram það sem var í fyrra. Reyndar svo mjög að oft horfir til vandræða þar sem skipið ræður hvergi nærri við þá flutninga sem því er ætlað að anna. Ljóst er að bæta þarf ferðum inn í áætlun. Áhyggjum veldur hversu ítrekað það gerist að langur biðlisti myndast þótt síðar komi í ljósi að nægt pláss er á bíladekkinu þegar til kastanna kemur. Jafnvel svo mjög að pláss er ekki notað þótt þá þegar hafi tugir orðið frá að hverfa.
Slipptaka Herjófls
Stefnt er að því að HERJÓLFUR sigli fulla áætlun sunnudaginn 7. sept. en fari síðan á miðnætti þess dags til viðhalds og breytinga hjá Öresundsvarvet AB í Landskrona í Svíþjóð, lægstbjóðanda í sameiginlegu útboði Vegagerðarinnar og Eimskipa á viðhaldi og breytingum á Herjólfi. Gert er ráð fyrir að skipið fari í slipp í Landskrona að morgni 11. sept. og skv. tilboði verktaka tekur verkið 12 almanaksdaga, þ.e. fram til 23. sept. Í kjölfar þess er reiknað með einum degi í hallaprófun og heimsiglingu að morgni 24. sept. og að HERJÓLFUR hefji áætlanasiglingar frá Vestmannaeyjum að morgni laugardagsins 27. sept.
Vegagerðin hefur þegar aflað undanþáguheimilda innanríkisráðuneytisins fyrir siglingar Baldurs frá Vestmannaeyjum í ofangreindri fjarveru Herjólfs í haust. Þess utan hefur Vegagerðin gengið frá samningum við Sæferðir ehf um leigu Baldurs til afleysingasiglinga fyrir Herjólf á umræddu tímabili. Baldur mun því hefja áætlanasiglingar frá Vestmannaeyjum að morgni 8. sept. og halda sömu áætlun og gilt hefði ella fyrir Herjólf á umræddum tíma.
Ofangreint er þó háð fyrirvörum um að boðnir verktímar í viðgerðum Herjólfs haldi og einnig að sjólag sé innan takmarkana þeirra sem getið er í fyrrnefndu undanþágubréfi innanríkisráðuneytisins. Samningar Vegagerðarinnar og Sæferða ehf. um Baldur heimila Vegagerðinni lengri leigu á Baldri, ef til seinkana kemur á viðgerðum Herjólfs eða af öðrum ástæðum.
Helstu breytingar á Herjólfi í viðgerðahléinu frá áætlanasiglingum verða
i) að stefni skipsins verður rúnnað, þar sem nú er flatjárn;
ii) aftari veltikilir skipsins verða verulega lengdir og
iii) sett verður upp opnanlegt vatnsþétt þverskips “flóðhlið” (floodgate) á bandi 31 á bíladekki skipsins.
Tvær fyrrnefndar breytingar eru ætlaðar til að auka stefnufestu skipsins, en sú síðastnefnda er forsenda fyrir frekari óbreyttum siglingum Herjólfs frá Vestmannaeyjum eftir 1. okt., 2015, þ.e. til að skipið standist hertar lekastöðugleikakröfur sem þá taka gildi skv. Evrópureglum og svo nefndri Stokkhólmssamþykkt. Þar að auki verða framkvæmd fjöldi viðhalds- og viðgerðaverkefni á skipinu og búnaði þess.
Skv. upplýsingum frá Vegagerðinni munu ofangreindar breytingar, þ.e. flóðhlið að öllu öðru óbreyttu, rýra/þrengja amk. 5 einkabílarými á ekjudekki skipsins. Ýmsir hafa þó talið að skipið kunni að bera 7 til 10 bílum færra eftir breytingu en áður. Umræddu þili þarf ekki að beita fyrr en eftir 1 okt., 2015 og fram til þess tíma eru framangreindar skerðingar eina rýrnunin á núverandi farþega-, farm- og bílaflutningagetu Herjólfs. Vegagerðin hefur þegar farið í gegnum þessi atriði með rekstraraðila skipsins.
Kjarasamningur við undirmenn
Það veldur miklum áhyggjum að lítið virðist miða í kjarasamningum undirmanna á Herjólfi milli Eimskips og Sjómannafélags Íslands. Vestmannaeyjabær hefur biðlað til Vegagerðarinnar hvað þetta varðar sem fer með ábyrgð á samgöngum á sjó við Vestmannaeyjar. Vegagerðin hefur lýst áhyggjum og fylgist náið með þróun þess máls, en engin lausn virðist í sjónmáli. Hafa ber í huga að Vegagerðin hefur engar lagalegar forsendur til afskipta af rekstri Eimskip á Herjólfi hvað varðar kjaradeilu útgerðarinnar við starfsmenn hennar, þar sem innbyrðis kjaradeilur teljast skv. stofnuninni ekki falla undir “force majeure” skilgreiningu, sem er eina forsendan fyrir inngripi Vegagerðarinnar að óbreyttu. Að sjálfsögðu reynir Vegagerðin að þrýsta á að deilan verði leyst, en möguleikar hennar á beinni aðkomu að málinu eru sem sagt litlir. Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni munu samningar hinsvegar hafa tekist við yfirmenn á skipinu. Vegagerðin er að skoða hugsanlega bráðabirgðalausn komi til verkfalls.
Framtíð Landeyjahafnar
Vegagerðin telur ljóst undirbúningur og smíði á nýrri ferju sé eitt af lykilatriðum þess að bæta nýtingu Landeyjahafnar. Eftir sem áður hefur töluvert verið unnið í hugmyndum um úrbætur sem snúa að sandburðinum, dýpkun og mögulegum breytingum á enda hafnargarða. Vegagerðin lítur á allar breytingar á höfninni sem langtímalausnir.
Nýsmíði Herjólfs
Að störfum nú er nefnd um "Hönnun og smíði Vestmannaeyjaferju”. Hún hefur þegar komið undirbúningi vel á rekspöl og í gær skrifaði Vegamálastjóri undir samninga við Polarkonsult AS um hönnun nýs skips, og hér að neðan má sjá tímaáætlun um framhaldið.
Verkþáttur: Tími:
Hönnun Júli 2014 - janúar 2015 (endanlegum prófunum verður þó ekki skilað fyrr en í febrúar).
Útboð og samningar um smíði: Febrúar - maí 2015
Smíði - 18 mánuðir: Júní 2015 - nóvember 2016
Siglingar nýs skips: Árslok 2016 (miðað við að allt ferlið gangi vel)
Til þess að geta fullvissað sig um getu hinnar nýju ferju áður en hún verður byggð hefur verið ákveðið að hanna ferjuna sérstaklega óháð smíðasamningnum. Í þessu felst að erfitt er að segja til um hve langan tíma þarf til að fá fullvissu fyrir ágæti hönnunarinnar, til að gera hugsanlegar endurbætur á henni og til endanlegrar ákvarðanatöku um útboð á smíði. Af framangreindum ástæðum lýsir fyrrgreint tímaplan fyrsta mögulega afhendingartíma nýrrar ferju.
Tíminn þar til nýr Herjólfur tekur við og höfnin hefur verið bætt
Ljóst er að enn um sinn koma Eyjamenn og gestir þeirra til með að búa við töluverðar hömlur hvað samgöngur á sjó varðar. Seinustu ár hafa þær hömlur verið langt umfram það sem boðlegt er fyrir íbúa og fyrirtæki. Sérstaklega hefur ferðaþjónusta yfir vetrartímann fundið fyrir þeirri miklu skerðingu sem það veldur þegar siglingar í Landeyjahöfn leggjast af. Illu heilli eru engar patent lausnir mögulegar. Ástæða er þó til að fagna framtaki Vikingtours sem nýtt hefur Landeyjahöfn til farþegaflutninga yfir vetrartímann við aðstæður sem Herjólfur hefur ekki ráðið við.
Ein er sú lausn sem ítrekað hefur verið rædd en ekki enn verið framkvæmd eða fullreynd. Er þar um að ræða þann möguleika að nýta Baldur til siglinga í Landeyjahöfn þegar færi gefst fyrir hann en Herjólf til siglinga í Þorlákshöfn þegar ekki er fært í Landeyjahöfn. Jafnvel má sjá fyrir sér að Herjólfur sigli ætíð fyrstu ferðina í Þorlákshöfn á sama tíma og Vikingtours siglir í Landeyjahöfn en Baldur fari svo síðdegis í Landeyjahöfn ef mögulegt er en annars fari Herjólfur seinni ferðina.
Í þessu samhengi eru margar útfærslur mögulegar en mestu skiptir að allra leiða verði leitað til að koma í veg fyrir, eða a.m.k. takmarka svo mikið sem mögulegt er, þann tíma sem Landeyjahöfn nýtist ekki. Lokun Landeyjahafnar er þjóðhagslegt tjón sem ekki er hægt að búa við lengur.
Elliði Vignisson
bæjarstjóri