Aðför - Stuðningsyfirlýsing við Hönnu Birnu
Aðförin að Hönnu Birnu Kristjánsdóttur vegna meints leka hefur verið áberandi í umræðunni. Málið sem í raun er einfalt og almennt hefur verið blásið upp og í veðri látið vaka að um einsdæmi sé að ræða að fjölmiðlar fái aðgang að viðfangsefnum ráðuneyta eða undirstofnana. Eins og allir þekkja snýst málið í grunnin um að upplýsingum um nafngreindan hælisleitanda (Tony Omos) hafi verið komið til fjölmiðla.
Málið sjálft
Upplýsingar sem fóru til fjölmiðla snérust ma. um að...
...hælisleitandinn Tony Omos væri bendlaður við mansalsmál og hefði beitt konu þrýstingi og hótunum til að láta hana halda því fram að hann væri faðir barns hennar í þeim tilgangi að styrkja stöðu sína sem hælisleitanda.
Hafa þarf hugfast að upplýsingar sem þessar geta í raun átt fullt erindi við landsmenn enda hafði þá þegar verið boðað til mótmæla við ráðuneyti innflytjendamála og almennir íbúar þessa lands hvattir til að styðja við bakið á hælisleitandanum. Sjálfum þykir mér fullkomlega eðlilegt að þegar ég tek afstöðu til þess hvort ég lýsi yfir stuðningi við hælisleitanda á opinberan máta eins og þar var hvatt til hafi ég upplýsingar um það td. hvort að viðkomandi sé grunaður um aðild af viðbjóðslegum glæpum eins og mansali.
Komið hefur fram að sú kona sem Omos sagðist eiga von á barni með er ein af níu nígerískum konum sem hingað komu fyrir um tveimur árum. Nokkrar þeirra voru þá barnshafandi og 7 þeirra dvöldust í Kristínarhúsi, athvarfi fyrir fórnarlömb mansals og fæddust þar þrjú börn.
Jafnframt hefur komið fram að Omos sat um tíma í gæsluvarðhaldi vegna gruns um að vera einn skipuleggjenda mansalsins. Konan sem hann fullyrðir að hann eigi nú barn með hefur þegar fengið hæli hér á landi af mannúðarástæðum, meðal annars á grundvelli þess að hún sé fórnarlamb mansals.
Allt þetta skiptir mig máli þegar ég reyni að átta mig á heildarmyndinni en gott og vel. Aftur yfir að aðförinni gegn Hönnu Birnu.
Aðförin gegn Hönnu Birnu
Engum blöðum er um það að fletta að upplýsingar um málið fóru til fjölmiðla. Engum blöðum er heldur um það að fletta að á sama tíma fóru þessar sömu upplýsingar víðar. Þannig hafði til dæmis Mörður Árnason fengið aðgengi að þessum upplýsingum á þeim tíma sem þær fóru fyrst til fjölmiðla (sjá td. hér). Ekki er heldur neinn vafi á því að upplýsingar sem þessar rata oft einmitt þær leiðir sem þær fóru í þessu tilviki. Til fjölmiðla, til stjórnmálamanna, til þrýstihópa og þar fram eftir götunum.
Í fjölmiðlum hefur þetta tiltekna mál verið kallað „lekamálið“. Athyglisvert er hversu greiðan aðgang fjölmiðlar hafa átt að upplýsingum um framgang þessa máls. Fjallað hefur verið um innihald einkasamtala, hvað fram fer á starfsmannafundum, áætlanir embættismanna og margt fl. Lekinn í kringum lekamálið hefur hinsvegar lítt verið skoðaður af þessum fjölmiðlum. Ekki er heldur vitað til þess að umboðsmaður alþingis né ríkissaksóknari hyggist taka málið upp. Lekamatsmennirnir virðast því hafa sértækan áhuga á lekamálum.
Framganga embættismanna í þessu máli hefur reyndar vakið furðu mína. Langi hef ég vitað að embættismenn stjórni Íslandi. Það er í raun hafið yfir vafa í mínum huga. Kjörnir fulltrúar eru í besta falli til hliðar við ákvarðanir líkt og gert var víðfrægt í þáttunum „Yes minister“. Eftir sem áður vekur það furðu mína að fylgjast með framgöngu sumra þeirra í þessu máli. Ef til vill eru þeir að styrkja valdastöðu sína gagnvart stjórnmálamönnum. Ef til vill eru þeir að þóknast einhverjum meintum almannarómi. Ef til vill er þeim bara svona mislagðar hendur í þessu. Ég veit það ekki.
Sú hugsun læðist þó að mér að sennilega hafi lögreglan getað lokið rannsókn á þessu máli langtum fyrr en raun bar vitni. Ég hef líka staðið mig að því að velta vöngum yfir því hvort að ríkissaksóknari sé enn við sama heygarðshornið og hún var í þátttöku sinni í aðför að Geir H. Haarde. Aðför sem endaði með því að Geir var fundin sekur um einn ákærulið af fjórum (að halda ekki nógu marga ríkisstjórnarfundi) en ekki gerð refsing. Ef til vill var sú niðurstaða til þess að friðþægja ofsóknarfólkið. Þá er afstaða og þrákelkni Umboðsmanns alþingis athyglisverð og vera kann að umboðsmaðurinn hafi hlaupið útundan sér í þessu máli eftir að DV hafði reimað á hann rauðleita skóna.
Allt eru þetta bara vangaveltur en svo mikið er víst að fjölmiðlar hafa spilað á nótnaborð embættismanna eins og að um væri að ræða hávært Hammond orgel. Verst bara hve tónverkið hefur virkað falskt í flutningi.
Að lokum vil ég svo minnast aðeins á fjölmiðla. Hér á landi eru þeir margir og ólíkir. Það væri ósanngjarnt að halda því fram að þeir hafi allir tekið jafn mikinn þátt í aðförinni að Hönnu Birnu. Þar hefur DV farið fremst og ekkert óeðlilegt við það. DV er miðill sem heggur fast, en mis fast þó. Ritstjórinn hefur haldið því fram að miðilinn „taki fólk niður“ með því að „pönkast á því út í það óendanlega“. (Sjá td. hér). Blaðamenn DV hafa skoðanir og blessunarlega hafa þeir fundið starf á miðli sem heimilar þeim að skrifa í takt við skoðanir sínar. Þannig sagði sá blaðamaður sem hvað mest hefur látið að sér kveða í umfjöllun um „lekamálið“ að hann myndi „fyrirlíta Sjálfstæðisflokkinn“, (Sjá td. hér) og kollegi hans á blaðinu sem einnig skrifar mikið um þessi mál er virkur meðlimur í alþjóðlegum samtökunum „No Borders“ sem berjast gegn reglum sem settar hafa verið um útlendingamál í hinum vestræna heimi (sjá hér). Sá hinn sami hefur reyndar verið dæmdur í hæstarétti fyrir ærumeiðandi aðdróttanir (sjá hér) .
Það er ekki mitt að hafa neina sérstaka skoðun á ritstjórnarstefnu fjölmiðla né heldur blaðamennina sem þar starfa. Þeir eru í fullum rétti með að halda á lofti skoðunum sínum og haga skrifum sínum með þeim hætti sem þeir telja heillavænlegt fyrir þá málstaði sem þeir berjast fyrir. Mér finnst hinsvegar mikilvægt að þegar fólk vegur og metur það sem skrifað er sé rétt að halda þessu öllu til haga.
Að lokum þetta
Ég lýsi yfir fullum stuðningi við ákvarðanir Hönnu Birnu Kristjánsdóttur í þessu máli og við hana persónulega.
Ekkert hefur hingað til komið fram sem bendir til þess að hún hafi brotið lög eða brugðist embættisskyldum sínum.
Engin grunur er um að Hanna Birna hafi sjálf lekið gögnum og það er fáránlegt að ætlast til þess að ráðherra segi af sér ef grunur leikur á um að einhver starfsmaður hafi gerst brotlegur.
Allt tal um að ráðherra hafi beitt lögreglustjóra þrýstingi hefur verið borið til baka af lögreglustjóranum sjálfum.
Lögregla hefur lokið rannsókn og sent það til ríkissaksóknara. Velji hún að sitja áfram í stóli ráðherra þrátt fyrir aðförina þá treysti ég henni til þess.
Eins óheppilegt og þetta mál allt og umbúðir þess eru þá hef ég aldrei séð neitt fram komið sem fær mig til að efast um heilindi Hönnu Birnu Kristjánsdóttur. Ég minni líka á að ráðherra gegnir skyldum gagnvart kjósendum og umbjóðendum í fjölmörgum málum. Þeir eiga heimtingu á því að ráðherrar fylgi sínum málum eftir en láti ekki bugast þótt sótt sé að þeim.