Stórkostleg gjöf

Gamalt og gott orðatiltæki segir:“Hver er sínum gjöfum líkastur“.  Ekki er að efast um sannleik þessara orða en um nýliðna helgi fengum við Eyjamenn að sannreyna þessi orð þegar Ágúst Einarsson og kona hans Kolbrún Ingólfsdóttir færðu Bókasafni Vestmannaeyja að gjöf eitt stærsta fágætisbókasafn hér á landi.  Sá hlýhugur sem í þessu er fólginn og velviljinn í garð heimabyggðarinnar er í það minnsta jafn stór og gjöfin sjálf.

Stöð 2 gerði þessu ágætis skil í kvöldfréttum í gær: Sjá "hér"

Það eru forréttindi að fá tímabundið að gegna þeirri stóru stöðu sem mín litla persóna gerir núna um þessar mundir.  Að vera bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, sem svo margir elska, veitir manni endalaust innsýn í hlýhug og fórnfýsi íbúa og velunnara.  Fátt er gleðilegra en að taka á móti hlýjum hug og velgjörðum honum tengdum.  Að finna þennan einbeitta velvilja til Vestmannaeyja.  

Ekki var alltaf fyrir að fara viljanum til að drekka í sig góðgætið

Sem ungur maður hér í Eyjum var ég svo heppinn að læra um gildi bókmennta af kennurum mínum í Framhaldsskólanum.  Þar vorum við sannarlega kynnt fyrir helstu hornsteinum bókmenntasögu okkar þjóðar.  Margar þeirra bóka sem þar voru nefndar eru einmitt hluti af þeirri miklu gjöf sem okkur voru færðar núna um helgina.  Ekki var nú alltaf fyrir að fara viljanum til að drekka í sig góðgæti það sem kennarar af þolinmæði lögðu á borð fyrir okkur.  Á háskólaárum mínum lagði hún Bertha konan mín fyrir sig bókmenntafræði og þá varð ekki hjá því komist að smitast að einhverju leyti af bókabakteríunni.  

Merkustu mannanna verk

Ég man sérstaklega umræðu sem við áttum eitt sinn ásamt skólafélögum Berthu þar sem við ræddum hvað væri merkasta mannanna verk á Íslandi, ef ég man rétt var málhefjandi Andri Snær Magnason sem síðar átti eftir að geta sér gott orð sem rithöfundur og nú nýlega sem forsetaframbjóðandi.

Bækur eru merkastar mannanna verka

Eftir að hafa vegið málið og metið –vitandi það að engar eigum við hátimbraðar kirkjurnar og fátt af merkilegu gulli eða gersemum komumst við nánast einróma að þeirri niðurstöðu að hér á landi væru ákveðnar bækur merkastar mannanna verka. Nefndar voru bækur eins biblíur Guðbrands og Þorláks, Crymogæa Arngríms lærða og Kristnisaga og Íslendingabók Ara fróða auk af sjálfsögðu Konungsbóka Eddukvæða og fl. fornrita.

Merkustu mannanna verk á merkasta stað landsins

Á dauða mínum átti ég frekar von en að innan nokkurra ára myndi ég taka við gjöf sem innhéldi margar þessara bóka.  Frá og með þessum degi eru sem sagt mörg af merkustu mannanna verk á Íslandi staðsett hér í Eyjum, sem í mínum huga er sannarlega merkastur og bestur allra staða.

Safnið verður ekki það sama

Bókasafn Vestmannaeyja sem var stofnað fyrir 165 árum verður  ekki sama bókasafnið eftir 7. febrúar 2017, svo mikið er víst. Ég segi fyrir mig, ég var til að mynda að sjá Guðbrandsbiblíu og Steinsbiblíu í fyrsta skipti á lífsleiðinni og ég er viss um að það átti við um fleiri sem sóttu safnið heim um helgina.   

Vandi fylgir vegsemd hverri

Ég sem bæjarstjóri geri mér fulla grein fyrir að það fylgir ábyrgð að veita viðtöku gjöf af þessari stærðargráðu, en það er ábyrgð sem við munum vaxa við.   Nú þegar hefur Vestmannaeyjabær óskað eftir náinni samvinnu við þá Kára Bjarnason, Arnar Sigurmundsson og Helga Bernóduss (sem eru trúnaðarmenn gefanda) og í sameiningu munum við vinna að einlægni að því að  finna bestu mögulegu leið til að bókagjöfinni sé sá sómi sýndur sem henni ber.  

Umgjörð sem sæmir

Ef ég tala út frá minni sýn þá finnst mér mest um vert að bækurnar fái umgjörð sem sæma menningarsögulegu verðmæti þeirra.  Sálfsagt er að reglulega verði þær sýnilegar eins og kostur er og að bæjarbúar og aðrir gestir fái notið þeirra með vönduðum sýningum og öðrum lifandi hætti. 

Um leið og ég ítreka mínar dýpstu þakkir, fyrir hönd Vestmannaeyjabæjar og bæjarbúa allra, fyrir þessa stórkostlegu gjöf þá óska ég bæjarbúum til hamingju með þessa miklu eign.  

Previous
Previous

Staðan í Landeyjahöfn

Next
Next

Erlendir ríkisborgarar í Eyjum