Erlendir ríkisborgarar í Eyjum

Erlendir ríkisborgarar gegna veigamiklu hlutverki í gagnverki hins íslenska samfélags og á það við um Vestmannaeyjar eins og önnur öflug samfélög.  Samkvæmt Hagstofu Íslands er hlutfall erlendra ríkisborgara hér á landi um 9% (seinasti ársfjórðungur 2016).  Hér í Vestmannaeyjum búa 311 einstaklingar með erlent ríkisfang eða 7,2% allra íbúa.  Það merkir að Íslenskir ríkisborgar eru 92,8% fólks sem búsett er í Vestmannaeyjum.  Frá 2009 til 2016 fjölgaði erlendum íbúum jafnt og þétt úr 140 í 311.  Það gerir 121% fjölgun.

Erlendir Eyjamenn koma í dag frá 30 löndum og flestir þeirra frá Póllandi eða 177 einstaklingar (60%).  Næst fjölmennastir eru Portúgalar (22), Rúmenar (19) og Danir (10).  Frá öðrum þjóðum koma 83 íbúar.   Langflestir þessara íbúa eru á vinnualdri (82%) og af þeim er yfirgnæfandi ungt fólk á þrítugs- og fertugsaldri.  16 eru á leikskólaaldri og 31 (10%) á grunnskólaaldri.

Komnir til að vinna og bæta sitt líf

Þessir íbúar eru af sjálfsögðu jafn fjölbreytt flóra og okkar hinna sem fædd erum á Íslandi.  Heilt yfir gildir að þeir eru hingað komnir til að vinna og bæta sín lífsgæði umfram það sem þeir geta í heimalandi sínu.  Flestir þeirra starfa í okkar stærstu atvinnugrein, sjávarútvegi, en margir einnig í ferðaþjónustu, við fræðslu- og íþróttastarf og margt fl.

Leggur skyldur á sveitarfélög og fyrirtæki

Fjölgun íbúa af erlendum uppruna leggur ákveðnar skyldur á sveitarfélög og þau fyrirtæki sem ráða til sín erlent vinnuafl.  Það er sérstaklega mikilvægt að vinna að samþættingu þar sem markvisst er unnið að gagnkvæmri virðingu fyrir menningu og siðum.  Þar undir fellur að koma til móts við þarfir erlendra ríkisborgara til að gera þeim kleift að vera virkir þátttakendur í samfélaginu og margt fl.

Eyjamenn þekkja tækifærin

Það er mín tilfinning að Eyjamenn taki vel á móti erlendum íbúum og af því er ég stoltur.  Hafi eitthvert samfélag mikla og góða reynslu af því hversu mikil tækifæri eru fólgin í því að nýta erlenda hæfileika til styrkingar og eflingar þá erum það við Eyjamenn sem ítrekað höfum séð íþróttaliðin okkar nýta sér þessi tækifæri öllum til heilla.  

Styrkir samfélagið

Líklegt má telja að ef þessum íbúum heldur áfram að fjölga þurfi Vestmannaeyjabær í nánustu framtíð að rýna vel og vandlega í hvernig best og markvissast verður staðið að móttöku þeirra og samþættingu.  Þar ræður bæði sú sjálfsagða mannvirðing sem eðlilegt er að sýna öllum íbúum og þá ekki síður hitt að ekkert samfélag hefur efni á að vannýta hæfileika og þekkingu.  Samþætting og virkni íbúa styrkir samfélagið í heild sinni.  Nýjar hugmyndir koma fram, nýir hæfileikar líta dagsins ljós og leiðum til árangurs fjölgar.  

Ef rétt er að málum staðið skapar staðan tækifæri.

Previous
Previous

Stórkostleg gjöf

Next
Next

Áhyggjur af heimilunum