Svar við skrifum Egils Helgasonar

Egill Helgason starfsmaður RÚV bregst við pistli mínum frá því í gær með þessum skrifum: (sjá hér) 

Mér fannst því ekki úr vegi að bregðast við og fagna því að geta átt samskipti hann.  Báðir eigum við að jú sameiginlegt að vera í þeim hópi sem ann RÚV.

Ég skrifaði honum því svohljóðandi bréf:

Sæll Egill

Í skrifum þínum er oft eins og einföldustu orð vefjist fyrir þér. Ég veit að þetta er stílbragð en eftir sem áður þá kann það að brengla umræðuna þegar látið er eins og að einföld íslensk orð séu tvíræð. Sögnin "hirta" er afar einföld. Þótt ég sé ekki með orðabók við hendina þá held ég að með nokkru sanni megi segja að í henni felist sú merking að siða til - veita ráðningu.

Í nýlegri grein í Morgunblaðinu segir...

...stjórnarformaður RÚV " Guðlaugur telur sig greinilega hafa fengið hirtingu sem undan svíður og krefst nú afsökunar frá Ríkisútvarpinu.“ Sem dyggur hlustandi/áhorfandi RÚV hef ég áhyggjur af þessu viðhorfi sem ef til vill má lesa úr þessum orðum. Hið sama tel ég svo oft koma í ljós í umfjöllun RÚV um ákveðna stjórnmálamenn.

Varastu ekki vondan þræl að hirta

Vera má að ofarlega í huga stjórnarformannsins sé hið fornkveðna "Varastu ekki vondan þræl að hirta". Að RÚV telji það hlutverk sitt að halda stjórnmálamönnum á einhverskonar RÚV mottu. Nú skyldi ekki skoða þessi orð mín sem svo að fjölmiðlar eigi ekki að gagnrýna stjórnmálamenn eins og reyndar aðra kima samfélagsins. Þeir eiga hinsvegar að gera það á sanngjarnan og hlutlausan máta. Án þess að taka afstöðu eða halla máli. Annars er hætt við að þeir verði viðskila við hlustendur. Þar tel ég oft pott brotinn.

Hvað er elíta?

Hvað varðar þá "elítu" skýrskotun sem ég nota í pistli mínum þá er það nú heldur ekki flókið hugtak. Elíta er lítill og frekar afmarkaður hópur sem ræður hlutfallslega miklu í þjóðfélaginu. Það er með forréttindastöðu þegar kemur að valdi eða áhrifum. Oft -en ekki endilega- hefur það yfir að ráða fjármagni. Gúgúl sagði mér að hugtakið hafi fyrst verið skilgreint í bók eftir Charles Wright Mills í bók frá 1956, „The Power Elite“. Þar er þessi hópur sagður samanstanda af fólki í iðnaði, bönkum, hernaði, pólitíkusum, fólki í akademíu og blaðamönnum. Þetta er sem sagt ekki einsleitur hópur. Ekki bara hópur sem fer í Þjóðleikhúsið og á málverksýningar. Ekki endilega hópur sem horfir á enska boltann eða Kiljuna. Ekki hópur sem býr annaðhvort í Vestmannaeyjum eða Suðurnsejum. Þurfa hvorki að vera sálfræðingar né tollverðir. Þetta er fyrst og fremst hópur sem hefur forréttindastöðu þegar kemur að valdi eða áhrifum. Sennilega hópur sem við báðir tilheyrum. Merkilegt nokk, báðir erum við unnendur RÚV og tökum alvarlega því hlutverki sem RÚV er ætlað - að upplýsa, fræða og skemmta.

Vont

Ég óttast að vík sé að verða milli ríkisfjölmiðilsins og almennings í landinu. Að RÚV sé að sjálfhverfast í kingum fólk eins og mig og þig. Í kringum Guðlaug Þór og Ingva Hrafn. Í kringum Guðmund Andra og Guðmund í Brim. Sé að taka afstöðu með og móti. Sé tilbúið til að skella hulu andstæðings á þá sem gagnrýna eða finna að þessari ríkisstofnun. Mér þykir það vont og óttast í raun afleiðingar þess.

 Því ítreka ég það sem áður var sagt:

"Vera kann að ríkisfjölmiðillinn sé á tímamótum. Ef svo þá ætti hann að nota þau til að aðlaga sig að notendum. Reyna að ná stöðu einingar meðal þjóðarinnar. Forðast hlutdrægni í fréttaflutningi, teygja sig út til almennings, sleppa virkri þátttöku í dægurstjórnmálum og reyna heldur að miðla hlutlausum upplýsingum."

Eigðu góðar stundir -og já hafðu þakkir fyrir þjónustu við okkur sem enn notum RÚV mikið-
Elliði Vignisson

Previous
Previous

Jólablað Fylkis

Next
Next

Mér þykir vænt um ríkisfjölmiðilinn, en....