Það er barátta framundan

Ísland siglir nú hraðbyri inn í nýtt góðæri, munurinn nú og áður er sá að nú erum við meðvituð um það. Við vitum hverjar hætturnar eru og höfum reynslu af því að takast á við ástandið.  Eins og í seinasta góðæri þá eru fólksflutningar með mikilli fólsksfjölgun á höfuðborgarsvæðinu ein af fyrstu vísbendingum um breytt ástand, því fylgir fækkun íbúa víða annarstaðar.  Þensla á húsnæðismarkaði og vöxtur í innflutningi á neysluvörum fylgja með rétt eins og sala á nýjum bílum.  Gengið styrkist, fjármálageirinn vex, bankarnir stofna viðburðadeildir og áfram má telja. VIð þekkjum þetta.  Áhrifin eru margþætt.

Fjölgun á höfuðborgarsvæðinu

Þegar gögn hagstofunnar eru skoðuð kemur í ljós að umtalsverð fjölgun er nú að eiga sér stað á höfuðborgarsvæðinu (frá Reykjanesbæ, út í Árborg og upp á Akranes).  Í Fréttablaðinu í dag bendir Þóroddur Bjarnson, prófessor við HA á að byggðalög í allt að 50 km. fjarlægð frá Reykjavík eru nú að vaxa með eindæmum hratt, jafnvel tvöfalt hraðar en í borginni sjálfri.  Þar ræður margt.  Auðvitað eru þetta gæðasamfélög og líklegt að margir vilji með því að flytja þangað sameina kosti borgarsamfélagsins (svo sem fjölbreyttari atvinnutækifæri) og smærri samfélaga (svo sem aukin öryggistilfinning, nánd og fl.).

Fækkun í landsbyggðum

Eins og gefur að skilja hefur vöxtur á einu svæði umfram heildarfjölgun þjóðarinnar áhirf á öðru svæði. Eins og í fyrra góðæri byrja þessi áhrif fjærst borginni.  Þannig varð á seinasta ári fækkun bæði á Austurlandi sem og á Vestfjörðum.

Enn fjölgar lítillega í Eyjum

Í Vestmannaeyjum hefur íbúum fjölgað á seinustu árum.  1.des. 2013 voru íbúar 4248.  Ári seinna, 1. des. 2014 voru íbúar 4276.  Á seinasta ári varð einnig fjölgun því 1. des.  2015 voru búsettir Eyjamenn orðnir 4286.  Sem sagt fjölgun um 38 á 2 árum.  Flestir uðru íbúar í Vestmannaeyjum um mitt seinasta ár þegar þeir urðu 4308 og er það í takt við hrynjanda seinustu áratuga.  Það fjölgar á fyrrihluta árs en fækkar á seinnihluta þess.

Varnarbarátta

Í mínum huga er ljóst að það er mikil varnarbarátta framundan í landsbyggðunum.  Þar sem ekki tekst að bregðast við sogkrafti höfuðborgarsvæðisins þar mun íbúum fækka.  Fyrir þessum veruleika fundum við Eyjamenn glögglega síðast.  Fyrsta skrefið í þessu verkefni er því að átta sig á stöðunni, skilja hana og viðurkenna.  Næsta skref er að falla ekki í innribaráttu í samfélaginu (það fundum við Eyjamenn einnig síðast) heldur snúa vörn í sókn.

Sóknarbarátta

Hér í Eyjum er öllum ljóst hvað til þarf.  Það þarf að bæta samgöngur og heilbrigðisþjónustu (ég ætla að skrifa meira um það á næstu dögum).  Í viðbót við það þá verður Vestmannaeyjabær að vera meira en samkeppnishæfur hvað varðar þjónustu við íbúa.  Hér í Eyjum getum við ekki boðið upp á jafn fjölbreytt atvinnulíf og á höfuðborgarsvæðinu, við höfum ekki framboð bíóhúsa, leikhúsa, leizertag og keilu.  Við verðum aldrei samkeppnishæf hvað það varðar.  Við getum því bara keppt í því að veita þjónustu sem er með því sem best gerist á landinu.  Við erum með góða þjónustu en til að hún verði með því sem best gerist þá þarf að ráðast í aðgerðir og þá sérstaklega í því sem snýr að barnafjölskyldum. 

Atvinnu- og menntatækifæri

Hér í Vestmannaeyjum er enn frekar einhæf atvinnu- og menntatækifæri þótt vaxandi ferðaþjónusta hafi fjölgað eggjunum í körfunni.  Það er okkur því mikilvægt að vel takist til með stofnun háskóladeildar þeirrar sem nú er unnið að.  Ekki eingöngu fjölgar þar menntatækifærum í Eyjum heldur getur námið orðið uppeldisstöð fyrir frumkvöðla, lífafl framþróunar.  Efling iðnmenntunar í Vestmannaeyjum er einnig sóknarfæri sem þarf að nýta betur.  Hér eins og víða um land er vaxandi þörf fyrir iðnmenntað fólk.  Að þessu þarf að hyggja.  Þá eru fyrirtækin í Vestmannaeyjum mörg hver mjög sterk.  Þegar samkeppnin frá höfuðborgarsvæðinu eykst þá þurfum við á því að halda að þau hugi að nærumhverfi sínu og geri jafnvel enn betur en nú er.

Þar grær sem girt er um

Það þarf marg til ef við ætlum að halda sjó í þeim brimskafli sem er framundan.  Ef við förum eins að nú og áður með innri átökum og niðurrifi þó fer illa.  Ef við stöndum saman, vinnum okkar heimavinnu og krefjumst nauðsynlegra aðgerða hjá ríkinu þá óttast ég ekki þessa stöðu.

Þetta byggi ég á þeirri einföldu speki sem öllum sem átt hafa kálgarð er ljóst og felst í þessum orðum: „Þar grær sem girt er um“.

Previous
Previous

Ríkið þarf að axla ábyrgð á heibrigðismálum aldraðra og stórbæta þjónustu við verðandi mæður

Next
Next

Fyrirtæki frá Vestmannaeyjum á lista yfir framúrskarandi fyrirtæki. Með betri samgöngum fjölgar þeim