Fyrirtæki frá Vestmannaeyjum á lista yfir framúrskarandi fyrirtæki. Með betri samgöngum fjölgar þeim

Það er hverju samfélagi mikilvægt að atvinnulífið sé þar sterkt.  Flest önnur starfsemi stendur og fellur með þeim árangri.  Sterk fyrirtæki veita að öllu öðru jöfnu betur launuð störf, skapa ný tækifæri í kringum sig og styðja samfélagið með gjörðum og orðum.  Hér í Vestmannaeyjum erum við svo heppin að vera með mörg öflug fyrirtæki af ýmsum stærðum og gerðum.

Creditinfo hefur nú tekið saman lista yfir framúrskarandi fyrirtæki.  Til að standast styrkleikamat þurfa þau að fylla ákveðinar gæðakröfur svo sem að hafa skilað ársreikningum, vera með minna en 0,5% líkur á vanskilum, vera með jákvæðan rekstrarhafna (EBIT) þrjú ár í röð, eignir yfir 80 milljónir og fl. í þeim dúr.  Ég notaði hádegið í að glugga í Viðskiptablaðið sem er með fína úttekt á þessum lista Creditinfo.

Það vakti mér gleði að sjá að á listanum núna eru 12 fyrirtæki sem eru með lungað úr sinni starfsemi hér í Eyjum.  Þetta eru fyrirtækin:

Ísfélag Vestmannaeyja

Vinnslustöð Vestmananeyja

Skipalyftan ehf.

Frár ehf.

Vélaverkstaðið Þór ehf.

Krissakot ehf

Kvika ehf.útgerð

Ufsaberg ehf.

Steini og Olli – byggingaverktakar ehf.

Fiskmarkaður Vestmannaeyja hf.

Lending ehf.

Huginn ehf.

Ég vil óska þessum fyrirtækjum, starfsmönnum þeirra og eigendum hjartanlega til hamingju með þennnan árangur.  Við vitum öll að á bak við þessa velgengni er þrotlaus vinna allra þeirra sem að þessum fyrirtækjum koma.  Það verður ekkert til úr engu.

Hlutverk okkar sem störfum fyrir hið opinbera, og þá sérstaklega á vettvangi stjórnmála er að leggja þessum fyrirtækjum og öllum hinum til jarðveg til að dafna enn betur.  Fyrir fyrirtækin í Vestmannaeyjum skiptir mestu að ríkiðsvaldið bæti tafarlaust úr samgönguvanda okkar.  Verði það gert er ekki efa korn í mínum huga um að fyrirtækjum frá Vestmannaeyjum á þessum lista á eftir að fjölga.

Previous
Previous

Það er barátta framundan

Next
Next

Göngugöng undir Löngu - Við eigum öll Vestmannaeyjar