Þjónusta aukin við börn og barnafjölskyldur
Málefni barna og velferð fjölskyldna eru meðal mikilvægustu þátta í rekstri hvers bæjarfélags. Þjónusta við þau, eins og alla aðra veltur á því að reksturinn sé nægilega traustur til að tryggja þá velferð.
Á seinustu árum hafa bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokks lagt þunga áherslu á skynsamlegan rekstur og varfærna áætlanagerð. Með það að leiðarljósi hafa lán og skuldbindingar verið greiddar upp auk þess sem hagrætt hefur verið í rekstri og þar með reynt að skapa svigrúm til að auka þjónustu án þess að leggja frekari álögur á bæjarbúa.
Með hliðsjón af þeirri rekstrarlegu stöðu sem nú liggur fyrir teljum við að svigrúm sé til að nota hagræðingaraðgerðir og rekstrarárangur seinustu ára til að bæta enn frekar þjónustustigið í sveitarfélaginu, nú með áherslu á þjónustu við börn og barnafjölskyldur.
Við bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins teljum enn brýnna en oft áður að treysta búsetu skilyrði í Vestmannaeyjum enn frekar. Ytri aðstæður, þá sérstaklega samgöngur og fæðingarþjónusta eru á engan máta boðlegar Vestmannaeyingum. Vestmannaeyjar eru drífandi og kraftmikið sveitarfélag sem er borið uppi af dugmiklu íbúum sem kjósa sér að eiga hér búsetu. Það eru því hagsmunir sveitarfélagsins að skapa aðlaðandi og ákjósanlegar aðstæður m.a. fyrir fjölskyldufólk í Vestmannaeyjum með því að veita öfluga þjónustu í þeim þáttum sem við höfum boðvald yfir. Eftir því ríkið stendur sig verr verða bæjaryfirvöld að gera betur.
Þess vegna samþykkti bæjarstjórn undir forystu okkar nú fyrr í kvöld svohljóðandi:
Tillaga:
Bæjarstjórn samþykkir að fela bæjarstjóra að undirbúa viðauka við fjárhagsáætlun þar sem gerð verður ráð fyrir eftirfarandi þjónustuaukningu:
• Þjónusta dagforeldra verði niðurgreidd frá 9 mánaða aldri
Þar sem íslenska ríkið hefur ekki staðið við boðuð loforð um lengingu fæðingarorlofs í 12 mánuði eða ráðist í aðgerðir til að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóladvalar hyggst bæjarstjórn hefja niðurgreiðslu þjónustu dagforeldra við 9 mánaða aldur frá og með 1. maí nk.
• Teknar verði upp heimagreiðslur til foreldra sem nýta sér ekki þjónustu dagforeldra frá því að börn þeirra verða 9 mánaða og þar til þeim stendur til boða leikskólapláss.
Það er mat okkar að það eigi að vera val foreldra hvort þeir velja heldur að þiggja heimagreiðslur og dvelja lengur heima hjá börnum sínum eða nota niðurgreidda þjónustu dagmæðra. Þess vegna mun sveitarfélagið frá og með 1. maí nk. taka upp heimagreiðslur frá 9 mánaða aldri og til þess tíma þar sem barnið hefur leikskólagöngu.
• Tafarlaust verði 15 til 20 plássum bætt við á leikskóla bæjarfélagsins.
Vestmannaeyjabær hefur þegar lokið samningum við Hjallastefnuna um að taka allt að 15 börn til viðbótar inn á leikskólann Sóla og ætti inntaka að geta hafist á næstu dögum. Þar að auki verði leikskólanum Kirkjugerði tryggt fjármagn til að mæta kostnaði við þau auknu dvalargildi sem ef til vill er hægt að nýta þar. Með því móti ættu elstu börnum sem í dag nýta þjónustu dagforeldra að verða boðin leikskólapláss og því skapast svigrúm hjá dagforeldrum að taka á móti nýjum börnum.
• Opnun nýrrar leikskóladeildar
Stefna Vestmannaeyjabæjar er að öllum börnum 18 mánaða og eldri standi til boða leikskólapláss frá og með 1. september ár hvert. Sú ákvörðun að bæta tafarlaust við 15 til 20 leikskólaplássum tryggir að lengra verði gengið. Eftir sem áður liggur fyrir að það úrræði dugar ekki nema fram að næstu áramótum, þá fer á ný að safnast upp biðlisti ef ekkert verður að gert. Með það í huga samþykkir bæjarstjórn að opna nýja leikskóladeild um næstu áramót. Með rekstri hennar vill bæjarstjórn stefna að því að inntaka barna á leikskóla verði oftar en nú er.
• Grunnskóla Vestmannaeyja verði tryggt viðbótarframlag vegna framtíðarsýnar í menntamálum
Á undanförnum misserum hefur GRV verið að innleiða framtíðarsýn í menntamálum með áherslu á bættan árangur nemenda í lestri og stærðfræði. Með það að leiðarljósi samþykkir bæjarstjórn að gera ráð fyrir sérstöku 2 milljóna króna viðbótarframlagi vegna þessa á næsta skólaári.
• Þjónusta frístundaheimilis verði veitt fram á sumar.
Frístundaheimili er starfrækt af Vestmannaeyjabæ og á seinustu árum hefur það verið rekið í í Þórsheimilinu. Hingað til hefur þessi þjónusta einungis verið veitt á veturna og skapar það oft röskun á högum barnsins og foreldrum þeirra þegar frístundaheimilið lokar. Til að auka þjónustu við þennan aldurshóp samþykkir bæjarstjórn að gera ráð fyrir að þjónusta frístundaheimilis verði einnig veitt fram á sumar.
• Niðurgreiðsla á íþrótta- og tómstundaiðkun barna á aldrinum 6 til 16 ára
Við afgreiðslu fjárhagsáætlunar hefur minnihluti bæjarstjórnar vakið máls á þörfinni fyrir svokölluð frístundakort þar sem börnum á aldrinum 6 til 16 ára er lagður til styrkur til að mæta kostnaði við íþrótta- og tómstundaiðkun. Eins og komið hefur fram telja bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokks að rekstrarárangur hafi nú skilað svigrúmi til að ráðast í aukna þjónustu og þá eðlilegt og sanngjarnt að frístundastyrkir séu þar hluti af. Þess vegna samþykkir bæjarstjórn að gera ráð fyrir því að 1. janúar 2017 verði slíkir styrkir að upphæð 25.000 krónur fyrir hvert barn teknir upp.
Með ofangreindum aðgerðum teljum við að Vestmannaeyjabær skipi sér fastar í raðir þeirra sveitarfélaga sem eru í forystu hvað varðar þjónustu við íbúa.
Það skal þó tekið skýrt fram að hér er um hreina viðbót að ræða sem greiðist af þegar orðnum hagræðingaaðgerðum og hagnaði af þeim rekstrarákvörðunum sem teknar hafa verið. Þessi viðbót mun því ekki breyta ákvörðunum um að fjölga íbúðum fyrir fatlaða, byggja við Hraunbúðir eða raska á nokkurn hátt því háa þjónustustigi sem fyrir er í sveitarfélaginu.