Þjónustukönnun Gallup 2017 - Fræðslumál
Fyrr í dag var haldinn fundur í fræðsluráði Vestmannaeyjabæjar en það ráð fer meðal annars með málefni allra skóla, daggæslu og fl. Til umfjöllunar var niðurstaða þjónustukönnunar Gallup sem gerð er árlega til að kanna ánægju með þjónustu stærstu sveitarfélaga landsins og gera samanburð þar á, ásamt því að skoða breytingar frá fyrri mælingum. Sú könnun sem nú var til umfjöllunar fór fram frá 3. nóvember til 17. desember. Ánægjulegt er að segja frá því að allir þættir sem undir ráðið falla eru yfir landsmeðaltali og ánægja eykst á milli ára.
(Hægt er að nálgast myndband með sömu svipuðum upplýsingum með því að smella hér: Ánægja með fræðslumál í Vestmannaeyjum)
92% þeirra sem afstöðu tóku voru ánægðir með Grunnskóla Vestmannaeyja
Grunnskóli Vestmannaeyja er í senn einn stærsti vinnustaður Eyjanna með um 520 nemendur og 133 starfsmenn og einn mikilvægasti þjónustuþáttur Vestmannaeyjabæjar.
Þegar spurt var hversu ánægðir íbúar voru með þjónustu grunnskóla sveitarfélagsins kom í ljós að af þeim sem tóku afstöðu (88%) voru 91% ánægð en einungis 9% óánægð og eykst ánægjan mikið á milli ára og er yfir landsmeðaltali.
88% þeirra sem afstöðu tóku sögðust ánægðir með þjónustu leikskóla.
Þegar spurt var hversu ánægðir íbúar væru með þjónustu leikskóla sveitarfélagsins kom í ljós að af þeim sem tóku afstöðu (87%) sögðust 88% ánægð og 12% óánægð og eykst ánægjan nokkuð á milli ára og er yfir landsmeðaltali.
Mikil ánægja með þjónustu við barnafjölskyldur í Vestmannaeyjum
Þá vekur það sérstaka ánægju að þegar spurt var hversu ánægðir íbúar væru með þjónustu við barnafjölskyldur í sveitarfélaginu kom í ljós að af þeim sem tóku afstöðu (85%) sögðust 83% ánægð en 17% óánægð og eykst ánægjan milli ára og er yfir landsmeðaltali.
Enn er unnið að því að gera gott betra
Ástæða er til að fagna þessum niðurstöðum, og þá ekki síst í ljósi þess að starfsmenn eru hér að uppskera árangur erfiðs síns enda mikil áhersla verið lögð á að efla og styrkja fræðslukerfið og þjónustu við börn almennt á seinustu árum. Eftir sem áður, vitum við öll að enn er hægt að gera gott betra. Í því samhengi má til að mynda benda á að þegar hefur til að mynda verið samþykkt að byggja nýja deild við leikskólann Kirkjugerði auk þess sem byggja á nýjan samkomusal við skólann, stækka starfmannaaðstöðu, bæta eldhúsaðstöðu og ýmislegt fl. Allir þessir liðir munu vafalaust bæta þjónustu þeirrar góðu stofnunar til muna. Þá hefur einnig verið samþykkt að byggja við Barnaskólann, stórbæta skólalóðir bæði Hamars- og Barnaskóla og ýmislegt fleira.
Gjaldskrár leikskóla hafa lækkað um 20% og framlög með dagvistun í heimahúsum um 50%
Á sama hátt er stöðugt unnið að því að lækka álögur á þjónustunotendur og vísast hvað það varðar til að mynda til nýlegrar lækkunar á leikskólagjöldum um 20% auk þess sem að upphæð niðurgreiðslu vegna dagvistunar í heimahúsum var aukin um 50% frá og með 1. Janúar sl. Áfram þarf að halda hvað það varðar.
Að lokum óska ég starfsmönnum á fræðslusviði til hamingju með þennan árangur og efast ekki um að á bak við hann er mikil vinna og einurð í starfi. Það eru forréttindi að starfa sem bæjarstóri í hópi jafn öflugra starfsmanna.