Þurfum að aðstoða bæjarbúa
Í Morgunblaðinu í dag er viðtal við mig um ákvörðun okkar að nota í undantekningatilvikum Lóðs- og björgunarbát Vestmannaeyjahafnar til að hlaupa undir bagga með bæjarbúum sem eru í vanda vegna stöðu mála í samgöngum.
Greinin er svohljóðandi:
Aðstoð við bæjarbúa
Þetta sýnir fyrst og fremst í hvaða stöðu við erum, á meðan samgöngurnar eru eins og þær eru. Við búum á lítilli eyju og þurfum að vera lausnamiðuð og gera allt sem við getum til að hjálpa íbúunum við að leysa þau verkefni sem upp á koma. Ég held að....
...þetta sé eitt af þeim verkefnum,“ segir Elliði Vignisson,bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, um notkun á Lóðsinum, hafnsögubát Vestmannaeyja, til fólksflutninga.
Lóðsinn flutti leikmenn meistaraflokks ÍBV á milli Eyja og Landeyjahafnar sl. mánudag svo að þeir kæmust í tæka tíð til leiks gegn Breiðabliki í efstu deild karla í knattspyrnu og aftur heim um kvöldið. Samkvæmt upplýsingum frá Samgöngustofu er flutningur farþega í atvinnuskyni háður leyfi Samgöngustofu og er Lóðsinn ekki með slíkt farþegaleyfi. Báturinn er 24 metra langur hafnsögu- og dráttarbátur.
Kallar eftir upplýsingum
Elliði segist ekki þekkja það hvernig þetta mál kom til eða hvort heimilt sé að nota skipið í þessum tilgangi. Tekur hann fram að ekkert gjald sé tekið og því sé ekki verið að sigla með farþega í atvinnuskyni. Hann veit til þess að bærinn hafi áður hlaupið undir bagga hjá íþróttafélaginu. Hann hafi fengið fyrirspurn um þetta mál frá fólki sem er í atvinnurekstri og muni af því tilefni kalla eftir minnisblaði frá hafnarstjóra um það hvernig að þessu var staðið.
Samkvæmt upplýsingum Samgöngustofu verður útgerðin upplýst um gildandi regluverk. Ákvarðanir um framhaldið verði teknar eftir að svar berst.
Staðreyndin er sú að það er áfellisdómur yfir stöðu samgangna þegar eina leiðin fyrir fólk til að komast til og frá vinnu, til og frá keppni í íþróttum eða til og frá af öðrum ástæðum er Lóðsbátur Vestmannaeyjahafnar. Þetta þarf að laga.