Vegagerðin leitar að skipi erlendis - Eimskip og Sæferðir beðnar um að kanna hvort þau geti lagt fram skip með minni djúpristu

Eins komið hefur fram þá var haldin fundur í Samráðshópi um málefni siglinga til Vestmannaeyja á föstudaginn var. Þar var m.a. óskað eftir að Vegagerðin láti kanna möguleika á því að fá skip sem gæti leyst Herjólf af við siglingar í Landeyjahöfn, a.m.k. að vetri til.

Í gær sendi Vegagerðin svo erindi á þá aðila sem eru í ferjurekstri á Íslandi þar sem....

leitað var svara við eftirfarandi spurningum:

- Er fyrirtækið tilbúið til að leggja fram skip með mun minni djúpristu en Herjólfur og getur þjónað siglingum í Landeyjahöfn í vetur (fái leyfi til siglinga á þeirri leið og anni eftirspurn)?

- Hvenær getur framangreint skip hafið siglingar í Landeyjahöfn?

- Er kostnaður því samfara að gera skip sem til greina kemur hæft til siglinganna?

- Ef breytinga er þörf á viðkomandi skipi hvernig telur fyrirtækið best að ná inn kostnaðinum? Kostnaður innifalinn í leigugjaldi með samningi við ríki eða viðbótarkostnaður greiddur beint af ríkinu?

- Miða skal við að viðkomandi skip sinni þessu verkefni í 3 ár ef reynslan verður talin viðunandi, en litið verður á veturinn 2011/2012 sem tilraunatíma og að unnt verði að segja upp samningi að honum loknum ef nýting hafnarinnar verður ófullnægjandi.

- Hver væri áætlaður kostnaður við rekstur skipsins?

Við undirbúning þessa máls var sérstaklega litið til reynslunnar af siglingum Baldurs undanfarnar vikur og á fundinum var m.a. rætt við fulltrúa Sæferða ehf. um möguleika þess að Baldur yrði fenginn í þessar siglingar og hvaða breytingar þyrfti að gera á skipinu til að það fengi heimild til að sigla á þessari leið í vetur.

Rætt var um að Vegagerðin myndi snúa sér til Sæferða með ósk um að þetta yrði skoðað nú á næstu vikum, auk þess að kanna hug heimamanna á sunnanverðum Vestfjörðum til þess að önnur og minni ferja yrði fengin til siglinga á Breiðafirði að vetri til. 

Við framhaldsumræður á fundinum kom fram að eðlilegra væri að leita til fleiri aðila um að kanna möguleika á að fá skip í stað Herjólfs, þar sem forsendan væri ferja sem væri sambærileg Baldri að stærð og djúpristu, en ekki að binda sig eingöngu við Baldur. Þar eð samningur er við Eimskip hf. um ferjusiglingar til Vestmannaeyjar er talið eðlilegt að óska eftir því að fyrirtækið fái einnig tækifæri til að kanna hvort það getur boðið fram skip sem er sambærilegt Baldri. Þá mun Vegagerðin sjálf láta kanna möguleika á svipuðu skipi erlendis frá.

Óskað er eftir viðbrögðum við erindi þessu innan 2ja vikna. 

"Guð lát á gott vita"

Previous
Previous

Hver er staðan í samgöngum og hver er krafa okkar heimamanna?

Next
Next

Afhverju er ekki hægt að nota þessar ferjur sem svo margir hafa bent á?