Afhverju er ekki hægt að nota þessar ferjur sem svo margir hafa bent á?
Margir hafa á seinustu dögum og vikum sent á mig upplýsingar um hinar og þessar ferjur sem verið gætu heppilegri til siglinga en Herjólfur milli lands og Eyja - í Landeyjahöfn.
Þessu fólki kann ég bestu þakkir og gott að finna þann velvilja sem ábendingunum fylgir. Viljan tek ég fyrir verkið en vandinn við nánast allar þessar ferjur er þó sá sami. Þær eru yfirleitt ekki ...
...með heimild til siglinga á því flokkunarsvæði sem siglingaleiðin milli lands og Eyja fellur undir.
Þar lendir fólk einmitt á sama vegg og bæði ég og aðrir sem leitað hafa að notuðum ferjum til siglinga í Landeyjahöfn lenda á. Ferjurnar eru sem sagt yfirleitt ætlaðar fyrir hafsvæði C en ekki B.
Til að útskýra málið þá er staðan núna sú að ferjur sem byggðar eru eftir 2003 verða að uppfylla hönnunarforsendur um ákveðna kenniöldu. Skýringin er sú að þetta ár færði EB Stokkhólmssamþykktina inn í kröfur á A og B siglingaleiðum.
Fyrir ferjusiglingar við Ísland á B-siglingaleiðum þá er kenniölduforsendan 4 m, eða það hæsta kenniöldugildi sem fyrirfinnst í Stokkhólmssamþykktinni. Einu önnur svæðin í Evrópu sem gerðar eru kröfur um svo háa kenniölduviðmiðun, eru skv. Stokkhólmssamþykktinni, vesturströnd Noregs utanskerja, meðfram ströndum Skotlands austan og vestanmegin og síðan Biscayjaflóinn. Þetta þýðir einfaldlega að aðeins ferjur byggðar fyrir umrædd kenniöldusvæði eru gjaldgengnar í Landeyjahafnarsiglingar (og af sjálfsögðu á það sama við um Þorlákshöfn) að kröfum óbreyttum. Markaðurinn er því þröngur eins og staðan er núna.
Hitt er svo annað – þarf nauðsynlega að nota þessa skilgreiningu? Yfir það þarf að fara.