Við lifum á grein sem aðrir niðurgreiða
Íslendingar hafa miklar tekjur af sjávarútvegi en nágrannaþjóðir hafa kostnað af honum. Íslendingum hefur tekist að búa til arð úr sjávarútvegi en flestar þjóðir sjá hann sem útgjöld. Íslendingar eru öðrum fyrirmynd þegar kemur að stjórnun fiskveiða en hér heima ríkir samt endalaus ágreiningur um þessa atvinnugrein. Í aðdraganda kosninga fjölgar þeim hratt sem vilja ráðast til atlögu við þann grundvöll sem skapar arðsemina.
Arður í stað útgjalda
Sjávarklasinn hefur metið framlag sjávarútvegs til landsframleiðslu, bæði beint og óbeint, um 25-30%. Það merkir að sjávarútvegurinn komi að framleiðslu á verðmætum sem nema allt að 600 milljörðum á ári. Þessi verðmætasköpun er ekki bara verðmæt fyrir starfsmenn, eigendur og íbúa sjávarbyggða. Þessi verðmætasköpun lendir á einn eða annan máta í vasa allra landsmanna. Beinir skattar bara á sjávarútvegsfyrirtæki námu árið 2014 um 23 milljörðum. Það eru 23 þúsund milljónir sem renna í sameiginlegan sjóð í stað útgjalda. Þar fyrir utan standa svo afleiddu skattarnir sem eru margfalt hærri.
Kerfi ESB myndi kosta okkur um 75 milljarða á ári
Innan Evrópusambandsins er almennt viðurkennt að stjórn þeirra á fiskveiðum sé slæm. Talið er að niðurgreiðslur jafn¬gildi því sem næst 50% af verðmæti landaðs afla innan sambandsins. Aflaverðmæti nam rúmum 151 milljarði króna hér á landi í fyrra og jókst um 15% frá fyrra ári. Ef við Íslendingar byggjum við sama umhverfi í sjávarútvegi og flestar Evrópuþjóðir þá þyrftu skattgreiðendur að leggja með veiðum. Ef við værum með 50% niðurgreiðslu við stjórn fiskveiða eins og Evrópusambandið þá hefðu skattgreiðendur orðið að greiða um 75 þúsund milljónir með veiðum íslenskra fiskiskipa. Árlegur kostnaður við það kerfi væri hærri en heildar byggingakostnaður nýs Landspítala (með tækjum og tólum). Til frekari samanburðar þá nam rekstrarkostnaður Landspítalans fyrir árið 2015 rúmlega 54,6 milljörðum. Sem sagt talsvert ódýrari en væri ef við byggjum við sama niðurgreiðslukerfi í sjávarútvegi og ESB.
Gríðarleg ofveiði
Niðurgreiðslur og aðrir þættir í stjórn fiskveiða í Evrópu hefur valdið því að nú er áætlað að um 47% stofna í Atlantshafi séu ofveiddir, en 95% af stofnum í Miðjarðarhafi. Það kann að vera efnahagslíf þeirra þjóða sem svo hafa gengið um þoli þessa hroðalegu stöðu en þjóð eins og okkar Íslendinga, sem að stóru leyti byggja afkomu sína á sjávarútvegi, gerir það ekki. Hér á landi felur fiskveiðistjórnunarkerfið sem betur fer í sér sjálfbærni.
Enn og aftur verður umræðan afvegaleidd
Núna í aðdraganda alþingiskonsninga er hægt að lofa því að hluti frambjóðenda kemur til með að ganga fram með offorsi gagnvart sjávarútvegi. Þeir munu ekki halda til haga því sem vel er gert heldur leggja þunga áherslu á gildishlaðin hugtök eins og sanngirni og réttlæti. Þeir munu draga upp neiðkvæða mynd af fyrirtækjum í sjávarútvegi og láta að því liggja að eigendur þeirra séu nánast arðræningjar. Þeir munu gera lítið úr sjávarbyggðum með því að ráðast að atvinnulífi þeirra. Þeir munu reyna að skapa öfund og afbrýðisemi.
Getum verið stolt
Í stöðu sem þessari skiptir miklu fyrir okkur íbúa sjávarbyggða að viðurkennt verði að hvað sem tali frambjóðenda líður, þá stendur eftir að við Íslendingar lifum á atvinnugrein sem flestar þjóðir hafa kostnað af. Nær er að vera stolt af því og horfa til enn betri árangur en ráðast að því sem vel er gert.