Sjálfstæðisflokkurinn er eins og syrgjandi ekkja
Sjálfstæðisflokkurinn er stærsta og vinsælasta stjórnmálaafl á Íslandi. Við þessa fullyrðingu er hægt að standa, nánast sama hvaða aðgerðarbinding er notuð. Í seinustu alþingiskosningum hlaut flokkurinn 26,7%. Næststærsti flokkurinn (Framsókn) hlaut 24,4%. Á sveitarstjórnarstiginu er munurinn jafnvel enn meiri. Í kosningum í vor hlutu D-listar Sjálfstæðisflokksins 49.111 atkvæði eða 32,7%. Næststærsti flokkurinn á sveitarstjórnarstiginu er Samfylkingin sem hlaut 29.975 atkvæði eða 20%. Sjálfstæðisflokkurinn á sér glæsta sögu. Hann hefur til að mynda setið í 22 af þeirri 31 ríkisstjórn sem mynduð hefur verið frá stofnun hans og veitt 15 þeirra forystu. Undir hans forystu flutti þjóðin úr moldarkofum í glæsihýsi. Þrátt fyrir þetta er sjálfstraust hans í molum. Hann er eins og...
...syrgjandi ekkja.
Hún þarf að sýna að hún syrgir
Vinkona mín missti mann sinn fyrir nokkru. Hjónaband hennar hafði alla tíð verið farælt og þau hjónin verið burðarás í félagslífi. Saman áttu þau sterkt fyrirtæki og börn þeirra voru til fyrirmyndar. Hvar sem þau komu var eftir þeim tekið fyrir myndugleika og sterka nærveru. Eftir fráfall eiginmannsins breyttist þetta. Vinkona mín hélt sannarlega áfram að reka fyrirtækið vel en krafturinn til þess var minni. Börnin sem nú voru að verða fullorðin voru áfram til fyrirmyndar þrátt fyrir að sorgin markaði fyrstu vikurnar. Heimilið var enn notalegt heim að sækja og því vel við haldið en fjörið þar minna. Félagslífið var einnig nánast horfið og framkoma ekkjunnar einkenndist fyrst og fremst af því að henni fannst ekki við hæfi að gleðjast. Hún hafði jú misst og henni fannst hún ef til vill þurfa að sýna að hún væri syrgjandi ekkja.
„Já, sorrý – hrunið er mér að kenna“
Stundum finnst mér eins og í dag telji Sjálfstæðismenn sér best sæma að haga sér eins og syrgjandi ekkju eftir farsælt hjónaband. Eftir hina alþjóðlegu fjármálakrísu og fáheyrða framkomu fjármálamarkaðarins, fjölmiðla og fleiri sem ollu hruni hér á landi taldi Sjálfstæðisflokknum á Íslandi sæma sér best að sýna ábyrgð sína með því að axla einn ábyrgð á hruninu. Ég sem Sjálfstæðismaður átti allt í einu að vera ábyrgur fyrir milljarða afskriftum, hrundum bönkum, gull rísottói og söng Tom Jones í fermingum. Ég, sem á meðan kenndi í lengst af í Framhaldsskóla, fór í ferðir með eldriborgara í nafni Sjálfstæðisflokksins, hreinsaði Hlíðarbrekkurnar á hreinsunardegi og mætti á landsfundi til að minna á gildi flokksins og gleðjast með skoðunarsystkinum skyldi nú ganga fram fyrir skjöldu og segja: „já, sorrý, hrunið er mér að kenna“. Enn í dag 6 árum eftir hrun er ætlast til að svo sé. Vafalaust er sömu sögu að segja um aðra Sjálfstæðismenn. Þeir eiga að haga sér eins og syrgjandi ekkja.
Mistök voru gerð
Frá mínum sjónarhóli er engum blöðum um það að fletta að stjórnmálaflækkar hér á landi gerðu mistök í aðdraganda hrunsins, rétt eins og víðast hvar þar sem hrun varð. Það á við um alla flokka. Allt tal um að það hafi gerst á vakt eins umfram annan er þvaður. Kjörnir fulltrúar eru alltaf allir á vakt. Ef þeir hafa ekki orku í það þá eiga þeir að finna sér annað að gera. Ríkið gekkst í ábyrgð fyrir skuldum einkaaðila, eftirlit með fjármálastofnunum var veikt, fjölmiðlaumhverfið réði ekki við aðhald vegna eignarhaldsins, og það sem mestu skiptir er að upp voru byggðir vefir fyrirtækja sem fengu lánað gegn litlum eða haldlitlum veðum og með svo lítið eigið fé að það hefði vart dugað fyrir diet coke nema hún væri drukkin á staðnum. Margt má fleira til tína en ekkert af þessu réttlætir þá kröfu að Sjálfstæðismenn séu eins og syrgjandi ekkjur.
Stoltir hægrimenn
Hin syrgjandi ekkja Sjálfstæðisflokksins er nú komin á endastöð. Hinn almenni flokksmaður vill ekki lengur að forystumenn séu eins og mýs undir fjalaketti. Við skömmumst okkar ekki fyrir stefnuna. Ég er stoltur af því ef fjárlög eru kennd við frjálshyggju. Það er ekki skammaryrði heldur sú stefna að setja beri ríkisvaldi þröng takmörk, en treysta þess í stað aðallega á frjáls viðskipti og sjálfsprottnar venjur. Ég skammast mín ekki fyrir að vera hægrimaður og er stoltur af því. Við viljum sýna í verki að við erum stolt af sögu okkar og árangri. Hinni syrgjandi ekkju standa nú allir vegir færir. Fyrirtækið er sterkt, heimilið hlýlegt og börnin vel gerð. Vonbiðlarnir eru margir og með þeim eða án þeirra er framtíðin björt. Fyrirtækið gengur enn vel en það þarf meiri kraft og áræðni við stjórnun þess til að það nái fyrri styrk.
Hann hét því.
Stefna Sjálfstæðisflokksins er það sem tryggt hefur bæði árangur flokksins og þjóðarinnar. Það er hlutverk Sjálstæðisflokksins „að vinna í innanlandsmálum að víðsýnni og þjóðlegri umbótastefnu á grundvelli einstaklingsfrelsis og atvinnufrelsis með hagsmuni allra stétta fyrir augum.“ Sjálfstæðisflokkurinn þarf að standa undir því trausti sem honum hefur verið falið með forystu í íslensku samfélagi. Hann hét því að áherslan yrði á grunngildin og forgangsröðun í ríkisrekstri. Hann hét því að takast á við ríkisreksturinn en ekki bara að skera niður í framkvæmdum. Hann hét því að leiða land og þjóð úr kreppu. Þetta getur hann ekki nema hann hætti að haga sér eins og syrgjandi ekkja.