Hvernig ætla fjölmiðlar og stjórnarandstaðan að nálgast meintan leka úr ráðuneyti Katrínar Jakobsdóttur?

Ólafur Haukur Johnson, skólastjóri Menntaskólans Hraðbrautar, hefur nú kært Katrínu Jakobsdóttur, fyrrverandi menntamálaráðherra til ríkissaksóknara fyrir leka á trúnaðargögnum úr ráðuneyti menntamála í hennar ráðherratíð (http://www.mbl.is/media/29/8129.pdf) .  Mat Ólafs er að lekinn hafi verið markviss og meintur til þess að skaða orðspor skólans og mannorð hans sjálfs.  Grunur Ólafs er að fyrir lekanum hafi staðið annaðhvort Katrín sjálf eða Elías Jón Guðjónsson aðstoðarmaður hennar.  Ávirðingar þessar eru alvarlegar og mikilvægt á þeim verði tekið í samræmi við...

...þau fordæmi sem nærtæk eru.

Lekinn

Þegar umfjöllun um Hraðbraut voru hvað háværastar duldist fáum að DV hafði upplýsingar beint innan úr ráðuneytinu sem ekki voru opinberar.  DV hafði ekki einu sinni fyrir því að fela að gögnin sem þau höfðu undir höndum hafði verið lekið úr ráðuneyti Katrínar Jakobsdóttur. Þannig segir í DV þann 14. Júni 2010: ,,Menntamálaráðuneytið gerði athugasemdir við arðgreiðslur og lánveitingar út úr eignarhaldsfélagi Menntaskólans Hraðbrautar í viðaukasamningi við skólann sem skrifað var undir í lok júní síðastliðinn, samkvæmt heimildum DV innan úr menntamálaráðuneytinu.“  (Sjá: http://www.dv.is/frettir/2010/7/15/raduneyti-setti-ut-greidslu-ardi-og-lanum/).  DV var á þessum tíma ekki mjög upptekið af lekamálum því neðar í sömu grein segir: „Heimildir DV innan úr menntamálaráðuneytinu herma að viðaukasamningurinn hafi fyrst og fremst verið gerður við samstarfsamninginn til að eyða óvissu þeirra nemenda skólans sem luku fyrra ári sínu í skólanum nú í sumar.“  Í þetta skipti var áherslan ekki á lekann heldur á það að upplýsa lesendur um þær upplýsingar sem blaðið bjó yfir.

Viðbrögðin

Því var svo öðruvísi farið síðar þegar upplýsingar bárust um nafngreinda hælisleitendur úr ráðuneyti Hönnu Birnu Kristjánsdóttur varaformanns Sjálfstæðisflokksins.  Þá sendi DV upplýsingar á lögmann viðkomandi hælisleitanda en beið með umfjöllun um málið í 4 daga.  Þingmenn VG og formenn kröfðust á þeim tíma ekki afsagnar vegna lekans.  Þeir lögðu hinsvegar áherslu á að stöðva sem fyrst rekstur einkarekins menntaskóla.  Harmakvein heyrðust ekki frá þingmönnum Samfylkingar vegna lekans.  Hin pólitíska rétttrúnaðarkirkja lét það vera að fyllast meintum heilaleiga yfir leka trúnaðarmála og lét sér fátt um finnast þó trúnaðargögnum væri lekið þannig að mannorð nafngreindra aðila biði af hnekk.  Tilgangurinn helgaði meðalið. 

Viðvarandi leki VG

Fáir virðast velta sér upp úr þeirri staðreynd að Elías Jón Guðjónsson aðstoðarmaður  Katrínar Jakobsdóttur hafði einmitt þá þegar verið viðriðinn leka úr ráðuneyti VG.  Þó er mörgum í fersku minni að Elías lak upplýsingum í blaðamann Viðskiptablaðsins um Magma samninginn í þeim tilgangi að hafa  stjórn á fjölmiðlaumræðunni.  Fyrir mistök fóru þær upplýsingar hinsvegar einnig á blaðamann Grapevine og í það skiptið komst málið því upp (http://grapevine.is/news/2010/07/27/government-spin-fail/) .  Umfjöllunin um það var fyrst og fremst tengd orðavali Elíasar en hann taldi eins og frægt er að sá leki væri „tussufín“  hugmynd.   Steingrímur J. Sigfússon ráðherra þess ráðuneytis sagði ekki af sér enda var eðlilega ekki þörf á því.

Hver verða viðbrögð þingmanna stjórnarandstöðunnar?

Það verður athyglisvert að sjá hvernig þingmenn stjórnarandstöðunnar nálgast þessa framkomnu kæru á Katrínu í umræðum á alþingi og fjölmiðlum.

Ætli Brynhildur S. Björnsdóttir (BF) segi aftur þessi orð: „Það er nefnilega ekki bara í lagi heldur nauðsynlegt að leiðtogar okkar geti viðurkennt vanmátt sinn þegar svona alvarleg mál koma upp, tekið ábyrgð og stigið til hliðar þegar störf þeirra og náinna samstarfsmanna þeirra eru til rannsóknar.“ (http://www.althingi.is/altext/raeda/144/rad20140915T160438.html).  

Ætli Róbert Marshall kalli eftir óháðri rannsókn og segi á ný þessi orð:  „Það mál sem hér er til umræðu er auðvitað alvarlegt og það felur í sér mjög alvarlegar ávirðingar á hendur innanríkisráðuneytinu. Ég verð að taka undir með þeim þingmönnum sem tekið hafa til máls að það hlýtur að vera hagsmunamál Stjórnarráðsins og samfélagsins alls að málið sé rannsakað. Þá er auðvitað ekki nógu langt gengið þegar fram fer einhvers konar innanhússkönnun sem leiðir og bendir til þess að umræddar upplýsingar hafi ekki verið sendar úr ráðuneytinu, eins og hæstv. ráðherra komst að orði.“ (http://www.althingi.is/altext/raeda/143/rad20140127T155654.html)

Ætli Katrín Jakobsdóttir hafi ennþá þá skoðun að ábyrgðin sé algerlega hjá ráðherra.  Hún gæti þá sagt þessi orð aftur: „Ráðherra ber pólitíska og stjórnskipunarlega ábyrgð á aðstoðarmanni, þannig að það er ljóst hvar ábyrgðin liggur í þessu máli.“ (http://www.ruv.is/frett/hefdi-att-ad-vikja-alfarid-ur-embaetti).

Valgerður Bjarnadóttir hlýtur að kalla eftir svörum við spurningum um lekann. (http://www.althingi.is/altext/raeda/143/rad20140226T150327.html).

Helgi Hrafn pírati gæti aftur farið með þessa ræðu og kallað eftir tafarlausri rannsókn: „Það á að fara fram rannsókn á þessu, sérstaklega vegna þess að málið er hápólitískt, óhjákvæmilega. Þegar upp kemur gagnrýni á störf hjá innanríkisráðuneytinu og það sem hefði kannski verið heppilegur leki en reynist ekki svo heppilegur þegar allt kemur til alls og þetta eru persónugögn þá þarf að gera ítarlegri rannsókn.“

Lilja Rafney stígur náttúrulega á ný í ræðustól og krefst aðkomu stjórnskipunar og eftirlitsnefndar.  Þar vísar hún væntanlega til þessarar ræðu sinnar: „Umræðan er þörf og fram hafa komið ásakanir um að misfarið hafi verið með persónuupplýsingar. Ég vil ekki taka afstöðu til þess máls að svo stöddu. Mér finnst rétt að það verði rannsakað áfram og spurning hvort það eigi ekki best heima í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd.

Fjölmiðlar

Enn sem komið er hafa fjölmiðlar lítið fjallað um það meinta lekamál sem Katrín Jakobsdóttir hefur nú verið tengd við.  Enn vantar 62 greinar inn á RUV.is til jafna metin.  Ef orðin „leki“ „Hanna Birna“ og „DV“ eru gúggluð koma 52 þúsund niðurstöður.  Ekki er það þó allt umfjöllun DV um málið en ljóst er að áhugi DV á lekamáli Hönnu Birnu er annar en áhugi þeirra á lekamáli Katrínar. 

Staða Katrínar Jaboks.

Sjálfur tel ég ekki að kæra Ólafs eigi að hafa nein áhrif á stöðu Katrínar að svo stöddu.  Hún er þingmaður og fyrrverandi ráðherra.  Kæra á hennar hendur þarf einfaldlega að hljóta eðlilega málsmeðferð.  Á meðan þarf Katrín að fá frið til að sinna þeim störfum sem hún var kjörin til að sinna.  Ef rannsókn leiðir í ljós að Katrín var viðriðin leka sem olli Ólafi skaða og eða miska þá er staðan hinsvegar önnur.  Hið sama á við um Hönnu Birnu og aðra sem því máli tengjast.

(Að gefnu tilefni er rétt að taka skýrt fram að flest þau orð stjórnarandstöðunnar sem vísað er í hér í greininni féllu í tilefni af leka úr ráðuneyti Hönnu Birnu en tengjast ekki meintum afskiptum hennar af lögreglurannsókn.  Sú umræða kom síðar).

Previous
Previous

Sjálfstæðisflokkurinn er eins og syrgjandi ekkja

Next
Next

Bjarni Ben þarf rauðan penna og prentara