19 umsóknir um starf verkefnastjóra hjá Ölfus Cluster

Fyrir skömmu auglýsti Ölfus Cluster eftir starfsmanni til að gegna stöðu verkefnastjóra Grænna iðngarða sem unnið er að því að móta í nágrenni Þorlákshafnar. 19 umsóknir bárust. Sérstaklega ánægjulegt var að sjá hversu öflugir umsækjendur eru. Menntunarstig er hátt og reynsla víðtæk. Stjórn Ölfus Cluster vinnur nú að ráðningarferli.

 

Mikil uppbygging á næstu árum

Fáum dylst sú mikla uppbygging sem er að eiga sér stað í Ölfusi. Á forsendum umhverfisvænnar matvælaframleiðslu eru fordæmalausar fjárfestingar að eiga sér stað. Til að styðja við sóknina og tryggja sameiginlega hagsmuni íbúa og atvinnulífsins var farin sú leið að stofna Ölfus Cluster, klasasamstarf fyrirtækja í Ölfusi.

 

Einlægur stuðningur

Ánægjulegt er að finna einlægan stuðning víða í samfélaginu hvað þessa uppbyggingu varðar. Til marks um það, skrifaði skrifaði Umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra og Þekkingarsetrið Ölfus Cluster undir samning um þróun grænnar atvinnuuppbyggingar í sveitarfélaginu Ölfusi í júní sl.. Markmið samningsins er að undirbúa græna atvinnuuppbyggingu í sveitarfélaginu Ölfusi í anda nýsköpunar, loftslagsmála og orkuskipta. M.a. verður unnið að því að koma á fót Grænum iðngarði í Ölfusi á um 250 hektara athafna- og iðnaðarsvæði fyrir utan Þorlákshöfn.

 

Forsvarsmenn Ölfus Cluster ásamt Guðlaugi Þór, Umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra við undirskrift samninga um uppbyggingu grænna iðngarða í júní sl.

Fordæmalausar fjárfestingar

Fyrir liggur að Sveitarfélagið Ölfus og Ölfus Cluster hafa unnið einbeitt að styrkingu atvinnulífsins á svæðinu með áherslu á framleiðslu á umhverfisvænum matvælum svo sem landeldi á laxi. Samhliða hefur verið horft til uppbyggingar á annarri umhverfisvænni starfsemi svo sem grænum gagnaverum, framleiðslu á umhverfisvænum íblöndunarefnum til notkunar í byggingariðnaði, áburðarframleiðslu og fl.. Lætur nærri að fyrirhuguð sé atvinnuuppbygging fyrir tvö til þrjú hundruð milljarða á næstu 5 til 7 árum. Nánast má fullyrða að slíkar fjárfestingar séu án fordæma.

First water vinnur nú að verklegri framkvæmd innan græna hagkerfisins í Ölfusi. Þeir luku 12,3 milljarða fjármögnun í júlí sl.

 

Hvati til að vanda til verka

Græni iðngarðurinn er rammi utan um þessar hugmyndir, hugsaður sem hvati til að vanda til verka og auðvelda áhugasömu að koma hugmyndum sínum í farveg. Grænu iðngarðarnir eru hugsaðir sem samstarfsnet fyrirtækja á ákveðnu atvinnusvæði þar sem skipst er á orku og hráefnum; þar sem úrgangur og straumar eins fyrirtækis getur nýst sem auðlind annars. Innviðir græns iðngarðs eru skipulagðir með samvinnu í huga er varðar þjónustu og viðskipti fyrirtækjanna innan garðsins.

 

Nýr starfsmaður gegnir lykilhlutverki

Nýr starfsmaður mun gegna lykilhlutverki í að koma áf fót þessum grænu iðngörðum ásamt því að vinna með þeim fyrirtækjum sem eru þegar innan sveitarfélagsins og starfa með hringrásarhagkerfið og markmið ríkisstjórnar í loftslagsmálum að leiðarljósi.

Vonir standa til að viðtölum og ráðningarferli ljúki á næstu dögum og að hægt verði að kynna nýjan verkefnastjóra eigi síðar en 1 sept.

Previous
Previous

Blýhjúpur kerfisins tefur Títan – regluverkið hannað til að hindra verðmætasköpun.

Next
Next

Nýtt hótel á einstökum stað.