Blýhjúpur kerfisins tefur Títan – regluverkið hannað til að hindra verðmætasköpun.
Ölfus hefur nú stofnað Orkufélagið Títan. Það er gert til að bregðast við yfirvofandi orkuskorti á svæðinu. Næsta skref er að þoka málum í átt að nýtingu en reglukerfi landsins er hannað til að verjast þeirri verðmætasköpun sem fylgir nýtingu. Þessi blýhjúpur báknsins er þykkur eins og meðfylgjandi mynd sem sýnir leyfisveitingaferilinn sýnir.
Af hverju Títan?
Mat okkar er að við hér í Ölfusi höfum of lengi verið áhorfendur í orkumálum sem orðið hefur til þess að megninu af orkunni sem er unnin hér í Ölfusi er stjórnað af sveitarstjórnarfólki á höfuðborgarsvæðinu sem stjórna Orkuveitu Reykjavíkur, eiganda Hellisheiðarvirkjunar, eiganda ON og eiganda Veitna. Orkan hér er því -eðli málsins samkvæmt- að mestu nýtt á höfuðborgarsvæðinu.
Rökrétt framhald
Stofnun Títan er rökrétt framhald af þeirri stefnu sem hér hefur verið tekin. Þannig höfum við sótt fast fram á forsendum framleiðslu á umhverfisvænum matvælum og fl. og berum því ábyrgð á því að innviðir eins og aðgengi að orku verði tryggðir.
Sveitarfélagið ekki á leið í áhætturekstur
Hlutverk félagsins verður fyrst og fremst að koma fram í þessum málum fyrir hönd Sveitarfélagsins Ölfus og þá eftir atvikum í samstarfi við orkufyrirtæki með aðgengi að þekkingu, tækjum og fjármagni. Þannig er það ekki séð sem hlutverk félagsins að standa í áhætturekstri heldur að leita samstarfs sem tryggir íbúum verðmætasköpun og velferð.
Orkan hjúpuð blýhjúp kerfisins
Kálið er þó sem fyrr segir ekki sopið þó í ausuna sé komið. Þvert gegn orðum þeirra sem fjalla um orkunýtingu hér á landi þá er aðgengi okkar Íslendinga að orku rammað inn í regluverk sem myndar blýhjúps kerfisins. Þannig hindrar kerfið þá verðmætasköpun sem nýting á orku fylgir. Var einhver að tala um báknið?