Nýtt hótel á einstökum stað.

Núna í vikunni hófust framkvæmdir við nýtt hótel í Ölfusi. Um er að ræða 72herbergja lágreist hótel við Óseyrartanga, vestan Óseyrarbrúnna og veitingastaðinn Hafið bláa.

Mikið er lagt í hönnun og þess gætt að fella húsið vel inn í hið sérstæða strandumhverfi. Stutt er fyrir gesti að nýta glæsilega veitingaaðstöðu á veitingastaðnum Hafið bláa sem sjá má vinstramegin á neðri myndinni.

 

Mikið lagt í hönnun

Ánægjulegt er að sjá þann ríka metnað sem lagður er í hönnun hússins. Áhersla er á notkun náttúrulegra byggingaefna svo sem lerkisklæðningu á útveggi sem mun grána og fá náttúrulegt útlit sem verður í takt við strandumhverfið sem húsið stendur í. Til að láta húsið falla enn frekar inn í umhverfið verður gras á þakinu.

Hönnunin ber með sér hversu ríkur metnaður er hjá framkvæmdaraðilum.

 

Einstök staðsetning

Þrátt fyrir að hótelið sé afar vel hannað má ljóst vera að staðsetning þess fram í fjörunni er það sem gerir það einstakt. Fuglalíf er þarna ríkt, gönguleiðir fjölbreyttar og fjaran sjálf er óviðjafnanleg. Stutt er í allar áttir, 5-7 mínútur í Þorlákshöfn, 15 mín á Selfoss og innan við 30 mín inn á höfuðborgarsvæðið.

Stutt er í allar áttir og náttúran óviðjafnanleg, þar leikur hafið og fjaran lykilhlutverk.

 

Útsýnið er engu líkt

Í miðju húsinu verður glæsilegt þjónusturými með setustofu nærri anddyri sem er í góðum tengslum við barsvæði og lobby. Útsýni frá hótelinu verður óviðjafnanlegt þar sem meðal annars má sjá Heklu, Eyjafjallajökul, Ingólfsfjall og fleiri perlur. Veitingasalur er svo til austurs með útsýni yfir hafið og ljóst að þar verður mikilfenglegt að sitja, hvort sem er í blíðviðri eða bálviðri.

 

Bætist við líflega flóru í Ölfusi

Þetta nýja hótel bætist við þá líflegu flóru sem fyrir er í Ölfusi þar sem nú þegar er að finna hestaleigur, fjórhjólaleigu, hellaskoðun, jarðhitasafn, veitingastaði, jarðböð, böggíbílaleigu og svo margt annað.

 

Ferðaþjónusta í Ölfusi er vaxa. Þar á sér stað verðmætasköpun sem nýtist okkur hinum til velferðar.

 

 

 

 

Previous
Previous

19 umsóknir um starf verkefnastjóra hjá Ölfus Cluster

Next
Next

Fjölþjóðlegu verkefni ýtt af stað í Ölfusi