Það er á dimmasta degi ársins sem ljósið fæðist

Seinustu dagar hafa verið dimmir. Sól rís seint og sest snemma. Dagurinn í dag markaði tímamót. Í dag voru vetrarsólstöður: dagurinn stystur, nóttin lengst. Einmitt þá snýr sólin við. Ekki með látum, heldur varlega. Kannski bara um hænufet, eins og sagt var til forna. En það dugði.

Hér í Ölfusi finnur maður þetta vel. Hér liggur landslagið opið, skuggarnir teygja sig langt og himinninn tekur á sig bláan, bleikan og stundum gullinn lit í örfáa klukkutímum dagsbirtu. Fyrir fólk fyrr á tímum voru þetta ekki bara veðurfar, heldur skilaboð frá náttúrunni.

Hér á Hjalla hefur staðið kristin kirkja í að minnstakosti 1025 ár. Hér sjáum við glöggt þegar ljósið sigrar myrkrið.

 

Ljós, eldar og sögur

Löngu áður en rafmagnið kom til sögunnar voru vetrarsólstöður tími ljósa. Kerti voru kveikt, eldar loguðu lengur og fólk safnaðist saman innanhúss. Ljósið fékk séststakan sess þegar myrkrið var mest. Ekki bara til að halda á sér hita, heldur til að halda í vonina. Halda í drauminn um að hið bjarta og góða sigri það sem illt er. Í hugum margra var sólin veik á þessum tíma. Hún þurfti stuðning til að skína og sú stoð kom úr ljósum mannanna. Allt þetta sjáum við hlutgerast í jólaandanum og hvernig við hjálpum hvert öðru að upplifa vona og trú.

Til forna gengu sögur manna á milli. Sögur um vætti sem væru á ferð í myrkrinu, um huldufólk sem fylgdist með. Tröll sem síðar urðu að jólasveinum, svo ekki sé nú talað um jólaköttinn. Flestar höfðu þessar sögur þann boðskap að fólki bar að bera virðingu fyrir bæði landi, fólki, og góðum siðum.

 

Hjalli og sólin

Í þessu samhengi er Hjalli í Ölfusi, þar sem við fjölskyldan búum, sérstaklega heillandi. Þar má finna örnefni eins og Sólarstíg, Sólarstígsvörðu og Sólarstein. Kannski voru þetta einfaldlega sólríkir staðir, góðar gönguleiðir eða kennileiti í landslagi. Eða kannski stóð fólk þar einhvern tíma, á dimmasta degi ársins, og fylgdist með sólinni skríða upp yfir brúnina, rétt nóg til að minna á að hún kæmi aftur. Engar heimildir segja þetta berum orðum, en ég held að það sé þannig. Stundum er það einmitt fegurð sögunnar: að leyfa hugmyndunum að lifa með landslaginu.

 

Arfur sem heldur áfram

Í dag kveikjum við ljós af öðrum ástæðum, en merkingin er sú sama. Vetrarsólstöður minna okkur á að jafnvel þegar myrkrið er mest, er vonin til staðar. Dagurinn lengist, smátt og smátt. Um hænufet. Og svo aðeins meira á morgun. Við nýtum myrkrið til að kveikja ljósið.

Fyrir mörgum árum heyrði ég hendingu sem mér þykir alltaf kjarna þennan tíma ársins:

„Myrkrið er ekki andstæða ljóssins
heldur staðurinn
þar sem það fæðist.“

Next
Next

Ríkisstjórnin skrifar undir brottflutning starfa úr sjávarbyggðum