Ríkisstjórnin skrifar undir brottflutning starfa úr sjávarbyggðum

Pólitísk ákvörðun með raunverulegar afleiðingar

Það ætlar að reynast okkur dýrt, þetta blessaða verðmætasköpunarhaust.

Nýundirritaður makrílsamningur Íslands við Noreg, Bretland og Færeyjar er ekki bara tæknilegt samkomulag um aflaheimildir. Hann er enn ein pólitísk ákvörðun þessarar ríkisstjórnar sem grefur undan samkeppnisstöðu íslensks sjávarútvegs og setur atvinnulíf í sjávarbyggðum í uppnám. Þessum skaða verður ekki bjargað með einvherjum enn einum frasanum frá ríkisstjórnar flokkunum og klappliði þeirra.

Verðmætin sett á uppboð - erlendis

Furðu vekur að fólki sem falið er að gæta hagsmuna okkar hafi samþykkt að allt að tveir þriðju hlutar makríls sem veiddur er í norskri lögsögu fari á uppboðsmarkað í Noregi, allt að 60% af heildarafla. Með þessu er aðgengi íslenskra fyrirtækja að hráefni skert, innlend vinnsla veikt og verðmætasköpun flutt úr landi. Þetta er ekki frjáls markaður heldur skipulögð tilfærsla verðmæta frá Íslandi. Þetta er markviss flutningur starfa af landsbyggðum Íslands til Noregs.

Þegar hráefnið hverfur, hverfa störfin

Afleiðingarnar eru ekki fræðilegar. Þær eru ekki ófyrirséðar. Þær eru staðbundnar og raunverulegar. Þjónustufyrirtæki í sjávarbyggðum þessa lands hafa fjárfest í innviðum og sérhæfðri starfsemi tengdri sjávarútvegi. Þau geta hvorki flutt sig né snúið við blaðinu á einni nóttu. Þegar hráefnið hverfur, hverfa störfin í kjölfarið. Fyrirtækjunum mun blæða, íbúum mun blæða, sjávarbyggðunum mun blæða.

Tekjur samfélaganna skornar niður

Samningurinn hefur þau fyrirséðu áhrif að hann mun draga úr umsvifum fiskvinnslu og hafnarstarfsemi. Þetta mun auðvitað hafa mikil áhrif á störf landverkafólks en einnig á td. tekjum hafnarsjóða, sem eru alfarið í eigu íbúa þessara samfélaga. Þetta bætist ofan á boðaðan samdrátt í greininni og auknar álögur á sjávarútveg. Útkoman er aukin óvissa, meiri hætta á atvinnuleysi og enn frekari tekjusamdráttur í sjávarbyggðum – allt í nafni „verðmætasköpunarhaustsins“.

Um þetta sagði Arnar Hjaltalín, formaður stéttarfélgasins Drífanda í morgun:

Fyrirsjáanlegt er að afleiðingar samningsins munu koma illa við landverkafólk, þar sem mun minni makrílafli kemur til vinnslu hér á landi, bæði vegna þess að veiðiheimildir munu dragast verulega saman frá því sem verið hefur, en einnig vegna hins að líklegt er að hluti þess makrílafla sem veiddur verður í norskri lögsögu muni fara til vinnslu þar í landi.
— Arnar Hjaltalín, formaður stéttafélasins Drífanda

Spurning sem kjósendur verða að svara

Hér er verið að stofna velferð heilla samfélaga í hættu. Ef stjórnvöld ætla að nýta vald sitt til að skrifa undir samninga sem færa verðmæti og störf úr landi, þá verða kjósendur sem studdu þessa flokka að spyrja sig einnar spurningar: „Gerði ég rétt í að styðja þetta fólk til valda?“

Next
Next

Nýtt tákn framtíðarsýnar okkar á Óseyrartanganum