Þorláksmessa og Þorlákshöfn
Það er eitthvað sérstakt við Þorláksmessu. Dagurinn er milli hverdagsins og hátíðanna. Í loftinu er kyrrð og eftirvænting, ilmur af kæstri skötu og súkkulaðikonfekti. Fasið á fólki er í senn rólegt og á hraðferð. Þorláksmessa er ekki bara dagsetning á dagatali, hún er stemning. Og mér þykir þessi Þorláksmessustemming oft endurspeglast í Þorlákshöfn dagsins í dag.
Nafnið sjálft tengir daginn og staðinn saman á einfaldan en djúpan hátt. Þorlákur helgi, verndardýrlingur Íslands, lifir í menningarminni þjóðarinnar, í kirkjum, sögum og hátíðarhaldi. Við hann kennum við bæði Þorláksmessu og Þorlákshöfn. Það er því sem staðurinn og dagurinn tali saman, ár eftir ár, og minni okkur á samhengi sem er bæði sögulegt og lifandi.
Á Þorláksmessu verður þessi tenging sérstaklega skýr. Dagurinn er hvorki fullur af formlegum athöfnum né mikilli dagskrá, heldur einkennist hann af einföldum venjum og sameiginlegri tilfinningu. Sömu upplifun. Fólk hittist, heilsar, brosir, sendir óskir um komandi gleðistundir. Það er eins og andað sé djúpt áður en jólin ganga í garð. Eins og allir finni að mesti undirbúningurinn sé að baki og nú taki við dagar sem við njótum.
Að mörgu leyti þykir mér Þorlákshöfn hafa yfir sér sama blæ. Í sögu bæjarins erum við á tímamótum. Ef við ljúkum undirbúningnum kemur tími þar sem við uppskerum eftir markvissa vinnu.
Þessi tilfinning birtist ekki bara í dagatalinu í desember heldur líka í þróun bæjarins. Á síðustu árum hefur íbúum hér fjölgað hratt. Fyrirtæki hafa skotið rótum og skapa nú hundruð starfa. Við höfum treyst grunninnviði, aukið þjónustu og samhliða greitt niður skuldir. Höfnin er í veldisvexti og það sem mestu skiptir er að saman höfum við öll gert lífið skemmtilegra, sérstaklega fyrir börnin. Við finnum það í dag að við erum að byrja að njóta ávaxtanna.
Kannski er það einmitt þetta sem gerir tengsl Þorláksmessu og Þorlákshafnar svona sterk. Þessi samfella mikillar vinnu, markviss undirbúnings og þess að njóta erfiðisins. Nafn Þorláks ber með sér sögu, staður sem horfir til framtíðar, og dagur sem sameinar þetta tvennt í mjúku millibilsástandi, rétt áður en ljós jólanna fylla allt.
Á Þorláksmessu er Þorlákshöfn í mínum huga ekki bara staður á korti, heldur hugmynd um samveru, vellíðan og von um betri tíð. Og það er falleg leið til að bjóða jólin, og framtíðina, velkomin.