Það eru engin lönd rík sem ekki hafa aðgengi að orku

Við Íslendingar höfum val um hvort við viljum lifa við góð lífsgæði. Ólíkt flestum þá höfum við val um hvort við viljum þá velferð sem byggir á hagvexti og efnahagslegri velferð eða ekki. Sú velferð byggir á ábyrgri nýtingu auðlinda. Þar skiptir nýting á orkukostum mestu.

 

Orka jafngildir velferð

Tengsl orku og hagvaxtar eru skýr. Tekjur og orkunotkun eru nátengd í öllum heiminum. Hvergi er auðugt land sem hefur aðgengi að lítilli orku, eða fátækt land sem hefur aðgengi miklli orku. Orkunotkunin ræður velferðinni.

 

Ekki um að villast

Gögnin eru skýr hvað þetta varðar. Myndin hér fyrir neðan sýnir þetta skýrar en flest annað. Hún sýnir aðgengið að rafmagni í ólíkum löndum heimsins og þau verðmæti sem framleidd eru í viðkomandi löndum (GDP). Veruleikinn blasir við; það eru engin lönd rík sem ekki hafa aðgengi að orku.


 

 

Orka er forsenda og drifkraftur

Þetta kemur vart nokkrum á óvart.  Orka er forsenda nánast allrar atvinnustarfsemi. Orkunotkun er einfaldlega nauðsynleg forsenda og drifkraftur hagvaxtar og þar með velferðar.

 

Ætlum við að láta þetta gerast?

Samt látum við Íslendingar -með nánast endalaust aðgengi að orku- það gerast að við stöndum nú frammi fyrir orkuskorti? Ætlum við að láta andstæðinga orkunýtingar læsa velferðina inni í kerfi sem hindrar orkunotkun? Ætlum við að ramma velferðina frá okkur?

 

Elliði Vignisson

Bæjarstjóri Ölfus og framkvæmdastjóri Orkufélagsins Títan

 

(myndin sem fylgir þessari grein er fengin af vefsíðunni Energy for Growth hub)

 

Previous
Previous

Stefnt að byggingu nýrrar hafnar við græna iðngarða í Ölfusi.

Next
Next

Varðar bæjarlækurinn að Hlíðarenda í Ölfusi Þjóðaröryggi?