Varðar bæjarlækurinn að Hlíðarenda í Ölfusi Þjóðaröryggi?

Ætli ábúendum að Hlíðarenda í Ölfusi hafi einhvern tíman dottið í hug að ráðherra í ríkisstjórn myndi telja bæjarlækinn þeirra varða þjóðaröryggi? Sú er nú samt staðan núna.  Lilja Alfreðsdóttir, viðskiptaráðherra, geysist nú fram og ræðir kaup og sölu á hlutabréfum í fyrirtæki sem setur vatn á flöskur. Hún telur að það sé möguleg ógn við þjóðaröryggi. (Vill fá að vita hver keypti Icelandic Water Holdings - RÚV.is (ruv.is)).

Ráðherrann sem telur bæjarlækinn að Hlíðarenda varða þjóðaröryggi.


Sjálfsagt að fylgjast vel með

Ráðherrar bera margskonar ábyrgð og starf þeirra er ekki auðvelt. Svo sjálfsagt sem það er að fylgjast með eignarhaldi auðlinda og þróun viðskiptalífsins hér á landi þá má kylfa ekki ráða kasti. Orð bera ábyrgð. Að tala um að bæjarlækur varði þjóðaröryggi ef útlendingar kaupa hlutabréf í fyrirtæki sem nýtir hluta vatnsins á flöskur er langt seilst.

 

Jörðin var auglýst til sölu

Mál þetta er ekki nýtt af nálinni. Jörðin Hlíðarendi var auglýst til sölu í Morgunblaðinu 17. maí 2005. Uppsett verð var 60 milljónir. Í auglýsingunni segir: „Húsakostur er orðinn lélegur en landið er að hluta til vel gróið og gefur mikla möguleika fyrir útivist og skógrækt“.  Uppreiknað þá kostaði jörðin sem sagt um 150 milljónir á verðlagi dagsins í dag.

Þessi auglýsing birtist í Morgunblaðinu 17. maí 2005.

Bæjarlækurinn nýttur til að skapa verðmæti

Svo fór að Sveitarfélagið Ölfus keypti jörðina seldi hana svo aftur talsvert dýrara til Icelandic Water Holdings (IWH) sem þá var í meirihlutaeigu Jóns Ólafssonar á 100 milljónir.  Uppreiknað var söluandvirðið um 240 milljónir á verðlagi dagsins í dag. Þar var stofnað myndarlegt fyrirtæki sem síðan þá hefur nýtt bæjarlækinn á Hlíðarenda, og borholur þar við, til að tapa vatni á flöskur og selja um allan heim.  Áður rann þetta vatn til sjávar.

Þar til IWH keypti jörðina Hlíðarenda hafði þar verið stundaður hefðbundinn búskapur í gegnum aldirnar.

 

Hlutafélag sem gengið hefur kaupum og sölu

IWH er hlutafélag og bréfin í því hafa gengið kaupum og sölum. Án þess að nokkur breyting hafi orðið á starfsemi félagsins telur ráðherra nú að það að Jón Ólafsson fari ekki lengur með ráðandi hluta í fyrirtækinu þá gæti vel verið að bæjarlækurinn á Hlíðarenda varði þjóðaröryggi.

 

Ölfusið nýtur góðs af erlendri fjárfestingu

Í Ölfusi er að eiga sér ævintýraleg uppbygging sem vonandi valda viðskiptaráðherranum ekki svefnleysi. Færeyska fyrirtækið SmyrilLine er að vaxa hér hratt og efla þar með samkeppni í flutningum. Svissneska fyrirtækið Climeworks vinnur náið með Carbfix hér í Ölfusi að hreinsun hreinsun koldíoxíðs úr loftslaginu og bindingu þess. Norðmenn hafa fjárfest hér í seiðaeldi og eiga hluta að máli í öðrum verkefnum.  Fyrirtækið Base Load Power sem haft hefur aðkomu að jarðhita verkefnum á Íslandi vinnur nú að afar áhugaverðum orkuverkefnum hér í Ölfusi. Eignarhald þess fyrirtækis er að hluta sænskt. Ísraelar hafa aðkomu að Vaxa technology sem er að finna þrekvirki í framleiðslu á smáþörungum. Erlendir aðilar koma að fjölþjóðlegu verkefni þar sem unnið er að undirbúningi þess að nýta affall fiskeldis til áburðarframleiðslu. Listinn yfir erlendar fjárfestingar og nýsköpun eru hér endalausar. Ekkert af þessu er þó vonandi „ógn við þjóðaröryggi“.

 

Bæjarlækurinn er ekki ógn við þjóðaröryggi

Ég þori að fullyrða að bæjarlækurinn á Hlíðarenda og vatnstaka þar er ekki ógn við þjóðaröryggi. Þótt lækurinn sé lítill -bara svona hefðbundinn lítill bæjarlækur- þá nýtist hann vel fyrir þá starfsemi sem þar er.  Eftir sem áður nýtir fyrirtækið brotabrot af því vatni sem er í læknum.  Þessi lækur er svo eingöngu brotabrotabrotabrot af því vatni sem er á Hlíðarenda. Hlíðarendi er svo brotabrotabrotabrotabrotabrot af því vatni sem er í Ölfusi.  Ölfusið er svo... þið skiljið hvert ég er að fara með þetta.

Ætli að ráðherrann trúi því í alvöru að það að nýta þetta vatn til átöppunar á flöskur sé ógn við þjóðaröryggi ef hluti eignarhaldsins er erlent?

 

Erlend fjárfesting er forsenda samkeppnisfærni

Eigi Ísland að vera samkeppnisfært þá þurfum við erlenda fjárfestingu. Ekki einu sinni viðskiptaráðherra myndi halda öðru fram. Reyndar ætti það að vera hluti af ábyrgð viðskiptaráðherra að gæta að orðspori Íslands þegar kemur að erlendri fjárfestingu. Vissulega er það sjálfsagt að ráðherrann skoði eignarhald fyrirtækja og fylgi því eftir að um þau gildi skýrt regluverk. Sérstaklega þegar um er að ræða nýtingu á auðlindum. Það er hins vegar ekki til eftirbreytni að ræða bæjarlækinn á Hlíðarenda sem hluta af þjóðaröryggi landsins eingöngu vegna þess að útlendingar eiga hluta af því fyrirtæki sem þar tappar vatni á flöskur. Það skerðir trúverðugleika okkar allra.

Previous
Previous

Það eru engin lönd rík sem ekki hafa aðgengi að orku

Next
Next

Kolbrún ráðin sem verkefnastóri Grænna iðngarða