Það erum við Eyjamenn sjálfir sem sköpum okkar eigin gæfu
Að afloknum erfiðum kafla í þróun byggðar í Vestmanneyjum virðist samfélagið nú vera að ná nokkuð stöðugum vexti. Herkostnaður nauðsynlegrar hagræðingar í sjávarútvegi varð til þess að íbúum í Vestmannaeyjum fækkaði nánast stöðug frá 1991 til 2007. Útgerðir í Vestmannaeyjum voru á þessum tíma að kaupa til sín aflaheimildir af útgerðum sem væntanlega töldu ekki arðbært að gera út. Til að mæta þeim kostnaði og standa undir fjárbindingu reyndist svo nauðsynlegt að auka hagkvæmni veiða og vinnslu. Bátar stækkuðu og þeim fækkaði. Vinnsla í landi varð sjálfvirkari og kallaði á færri vinnandi hendur. Þegar upp var staðið var niðurstaðan næstum 20% íbúafækkun. Úr tæplega 5000 niður í rúmlega 4000. Nú virðist hinsvegar varanlegri viðspyrnu vera náð.
Fáum dylst nú að í Eyjum er velsæld. Atvinnuleysi er hér hverfandi, íbúum fjölgar, stórstígar samgöngubætur gefa fyrirheit um bætt lífsskilyrði, fyrirtækin standa vel og Vestmannaeyjabær stendur fjárhagslega betur en nokkuð annað sveitarfélag á Íslandi.
Ég hef nú verið bæjarstjóri í á sjötta ár og sannarlega finn ég muninn á hverjum degi. Ég man það vel að eitt af mínum fyrstu verkum eftir að ég tók við starfinu var að skrifa undir lánabeiðni til að við gætum greitt laun. Samfélagið logaði í deilum og fátt virtist benda til þess að innan skamms yrði hér blómlegasta bæjarfélag á landinu öllu. Bæjarfélag með óþrjótandi tækifæri og möguleika sem á eiga enga sína líka.
Ég hef oft velt því fyrir mér hvað hafi skipt mestu skipti í þessum mikla viðsnúningi. Ég held að þar ráði ekkert eitt. Í mínum huga er þó ljóst að brýnasta verkefni eftir kosningar 2006 var að breytta stjórnarháttum. Að stjórna bæjarfélagi er bara rétt eins og að stjórna fjölskyldu, það er ekki hægt nema að allir standi saman og það verður að ríkja friður um sameiginleg hagsmunamál. Það skiptir einnig miklu að þeir sem tala máli bæjarfélags horfi til þess sem er jákvætt en dragi ekki kjarkinn úr samfélaginu með eilífum barlómi – jafnvel þótt slíkt kunni að skila einhverjum bótum frá ríkinu. Við ákváðum því að einbeita okkur að öllu því sem var jákvætt og tala frekar kjark í bæjarbúa en standa á útopnu grenjinu yfir því hvað allt væri vonlaust. Þetta er aðferð sem við notum enn og látum okkur í léttu rúmi liggja að vera sökuðu um ofurbjartsýni. Sagan hefur nú sýnt að það var innistæða fyrir bjartsýninni. Það er færri núna sem gera grín að „bjartsýna bæjarstjóranum“ fyrir óraunsæja draumsýn á samfélagið.
Verk okkar sem tímabundið fengum umboð til að strjóna bæjarfélaginu hefðu nú hinsvegar mátt sín lítils ef ekki hefði komið til röð af hagstæðum skilyrðum. Mestu skipti vilji samfélagsins til að standa saman. Vilji fyrirtækja í Vestmannaeyjum til að vaxa. Kraftur og áræðni útgerða, sjómanna, landverkafólks og fleirri sem snéru vörn í sókn á ógnar skömmum tíma. Hvað sem hver segir þá trúi ég lítið á hugtakið heppni. Heppni er orðið sem notað er yfir þann árangur sem þeir sem leggja sig fram ná. Ástandið í Vestmannaeyjum datt nefnilega ekki af himnum ofan. Það var hinn almenni bæjarbúi sem bjó það til með þúsundum lítilla og stórra ákvarðana. Ákvarðanir útgerðamanna um að kaupa kvóta þegar aðrir seldu, ákvarðanir sjómanna um að sækja nýjar tegundir þegar hinar hefðbundnu gáfu sig ekki, ákvarðanir ferðaþjónustuaðila um að þreyja þorrann í von um betri tíð, ákvarðanir bæjaryfirvalda um snúa verðmætum eignum í peninga og nota þá til að greiða niður skuldir, ákvarðanir framkvæmdaaðila um að byggja og þannig má lengi telja. Þannig er það nú og þannig mun það alltaf verða.
Það erum við Eyjamenn sjálfir sem sköpum okkar eigin gæfu. Það erum líka við Eyjamenn sjálfir sem verðum að standa vörð um Vestmannaeyjar.