Vangaveltur um áætlun og verðskrá Herjólfs
Það hefur ítrekað pirrað mig hvað það eru gerðar ólíkar kröfur í umfjöllun um þjóðveginn til Vestmannaeyja en aðra hluta þjóðvegakerfisins á Íslandi. Oft minni ég á að skv. upplýsingum frá Vegagerð Íslands er heildarkostnaður við Héðinsfjarðagöng 14,2 milljarðar. Það kostar hinsvegar notendur ekkert að fara þar um. Heildar kostnaður við Bolungarvíkurgöng verða sennilega um 6,5 milljarðar. Það kostar heldur ekkert að fara þar um. Kostnaðurinn við Hvalfjarðargöng var 4,6 milljarðar árið 1996 (uppreikaðnur kostnaður eru tugir milljarða). Það kostar fjögurramanna fjölskyldu 1000 kr. að fara þar um. Kostnaður við Landeyjahöfn er innan við 4 milljarðar. Kostnaður fjögramannafjölskyldu (tveir fullorðnir, einn unglingur og eitt barn) við að fara með sinn einkabíl þessa tæpu 13 kílómetra er hinsvegar 4100 kr. þegar fullt gjald er greitt. Ekki þarf að minna á að engin önnur leið er fyrir bíla milli lands og Eyja.
Í sannleika sagt þá er ég einnig langþreyttur á þeirri orðræðusem felst í því að það eina sem réttlæti ferðir Herjólfs sé há hlutfallsleg nýting. Allt skuli gera til að koma sem flestum í sem fæstar ferðir. Helst að opna skipið á morgnanna og svo siglir það þegar nógu margir eru komnir um borð. Mín skoðun er sú að rétt eins og með aðra hluta þjóðvegarins þá sé þjóðvegurinn til Vestmannaeyja hluti af infrastrúktúr samfélagsins. Ósk mín og sennilega allra heimamanna er að Landeyjahöfn verði nýtt til að auka aðgengið að Vestmannaeyjum og gera sveitarfélögum, fyrirtækjum, íþróttafélögum, einstaklingum og öðrum, beggjavegna hafsins, kleift að vinna saman og sækja saman. Það verður einungis gert með þeirri lágmarksferðatíðni sem lögð hefur verið til og ráðherra hefur nú samþykkt. Fyrir það ber að hrósa honum.
Eimskip hefur á seinustu mánuðum bent á mikilvægi þess að sama gjaldskrá gildi í Landeyjahöfn og í þeim tilvikum sem Herjólfur sigli í Þorlákshöfn. Undir það tek ég með þeim enda það í raun nauðsynlegt til að einfalda þjónustuna þegar svo illa fer að ferðir falla niður í Landeyjahöfn og nauðsynlegt er að sigla í Þorlákshöfn. Ég vil hinsvegar að gjaldið í Þorlákshöfn sé það sama og nú er í Bakka en sé ekki hækkað þegar siglt er í Þorlákshöfn. Þannig hafna ég því að notendum þjónustunar sé mætt með verðhækkun þegar dregið er úr þjónustunni. Slíkt hlyti að vera einsdæmi.
Mér leiðist seint að hrósa Ögmundi vini mínum og vil nota þetta tækifærið og hrósa honum og Vegagerðinni fyrir snaggaraleg viðbrögð þegar svo illa fór að brúin yfir Múlakvísl fór í sundur í sumar og ferðalangar þurftu að keyra lengri og erfiðari leið um Fjallabak. Þá var tafarlaust ákveðið að gera allt sem í mannleguvaldi stóð til að koma eðlilegum samgöngunum á sem fyrst. Á meðan var boðið upp á ferðir fyrir farþega yfir Múlakvísl með rútum og bifreiðar fluttar með sérútbúnum tækjum notendum að kostnaðarlausu. Ekki þarf að efast um að slíkt hið sama verður gert ef svo illa fer að þjóðvegurinn til Vestmannaeyja rofnar.