ÍBV hefur hafnað 27 milljóna aðkomu Vestmannaeyjabæjar

Í dag hef ég mikið verið spurður út í viðtal við framkvæmdastjóra ÍBV í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær.  Sannast sagna þá kom viðtalið mér verurulega á óvart.  Ég geri ráð fyrir að hann mæli fyrir hönd stjórnar í þessu máli og velti óneitanlega fyrir mér á hvaða vegferð félagið er.  Í mínum huga strandar nákvæmlega ekkert á Vestmannaeyjabæ í því sem snýr að kröfum KSÍ á hendur ÍBV.

Hér fyrir neðan er að finna svör við spurningum sem blaðamaður Frétta sendi mér: 

(á myndinni hér til hliðar er ég að taka við viðurkenningu sem formaður KSÍ veitti Vestmannaeyjabæ fyrir uppbyggingu á aðstöðu til knattspyrnuiðkunar þegar knattspyrnuhúsið var vígt fyrir rétt um 8 mánuðum).

„Við höfum enga aðkomu að þessum kröfum og það voru ekki fulltrúar frá Vestmannaeyjabæ sem samþykktu innleiðingu á leyfiskerfinu. Ef einhverjir hafa samþykkt slíkt hljóta það að vera þáverandi fulltrúar ÍBV. Ég hreinlega skil ekki að stjórnendur ÍBV láti sér detta í hug að fyrst sé hægt að taka þátt í stórkallalegum hugmyndum á KSÍ þingi um aðstöðu fyrir áhorfendur á knattspyrunleikjum og þegar til kastanna kemur að láta þá eins og ekkert sé sjálfsagðara en að bæjarbúar allir borgi fyrir þessar hugmyndir. Ég var líka mjög hissa á því þegar framkvæmdastjórinn tilkynnti nánast að æfingagjöld á börn og unglinga verði hækkuð til að byggja stúkuna ef Vestmannaeyjabær gengst ekki við kröfum klúbbsins. Það skyldi enginn halda að svona hótanir hjálpi til.“

Krafan er 300-400 yfirbyggð sæti

Skortir stuðning frá bæjaryfirvöldum vegna stúkumálsins eins og segir í inngangi fréttarinnar?

„Það fer náttúrulega eftir því hvernig á málið er litið. Það liggur fyrir að ÍBV hefur samþykkt leyfiskerfið og þarf að vinna eftir því. KSÍ gerir kröfu um 300 til 400 yfirbyggð sæti í viðbót við núverandi stúku. Ef stjórnendum ÍBV hefur á einhverjum tímapunkti dottið í hug að þeir gætu bara teiknað upp mannvirki sem tekur 800 manns í yfirbyggð sæti, með búningsklefum undir (þrátt fyrir að það séu búningsklefar í 50 mera fjarlægð), lyfjaprófunarherbergi, aðstöðu fyrir dómara, tækjageymslu og ýmislegt fleira, og sent okkur kveðju í gegnum kvöldfréttir Stöðvar 2 um að hinn sameiginlegi sjóður allra bæjarbúa eigi að greiða stóran hluta þessa kostnaðar, þá er ljóst í mínum huga að þeir hafa að minnsta kosti ekki stuðning minn til þess. ÍBV eru frjáls af því að stjórna sínum innri málum og byggja eins og þeir telja sig hafa getu til. Þeir stjórna hinsvegar ekki Vestmannaeyjabæ. Ef hugmynd Tryggva eða annarra er að skilgreina stuðning Vestmannaeyjabæjar á þennan máta þá gengst ég alla vega við því að slíkan vilja skort.“

Hvað með minni stúku?

„Án þess að ég sé neinn sérfærðingur í leyfiskerfi KSÍ hef ég skilið málið þannig að það dugi að byggja 300 til 400 manna stúku og nota áfram alla aðstöðu í Týsheimilinu. Sem bæjarstjóri skipti ég mér ekki af því ef ÍBV vill byggja 800 manna stúku. Sem ÍBVari sem alla tíð hef unnið fyrir klúbbinn minn og aldrei þegið tekjur fyrir vil ég frekar byggja færri og ódýrari sæti undir áhorfendur en að missa heimaleikjaréttinn. Hvað þá að ganga þannig fram að æfingagjöld á börn verði hækkuð til að mæta kostnaði við aðstöðu fyrir áhorfendur meistaraflokka. Slíku er ég ekki sammála og lái mér það hver sem vill.“

15 milljónir fyrir sviðið og 12 milljónir í stúku

Hefur komið til greina að Vestmannaeyjabær kaupi hluta í sviðinu í Herjólfsdal með því skilyrði að félagið noti þá peninga í stúkubyggingu?

„Nei slíkt hefur ekki verið rætt og sjálfur væri ég á móti slíkum kvöðum. Vestmannaeyjabær hefur lýst mikilli ánægju með mannvirkið í Herjólfsdal og viðrað þá hugmynd að bærinn kaupi hluta af byggingunni til að tryggja hagsmuni samfélagsins. Slíkri aðkomu myndu ekki fylgja nein skilyrði af okkar hálfu um það í hvað fjármunirnir yrðu notaðir. Enn og aftur minni ég á að ÍBV stjórnar sínum málum sjálft og er sjálft ábyrgt fyrir sínum ákvörðunum. Við hjá Vestmannaeyjabæ erum hinsvegar stolt af klúbbnum okkar og vitum sem er að hann skipir okkur öll miklu. Til marks um þennan vilja til að styðja við bakið á klúbbnum ræddum við þessa hugmynd við fulltrúa ÍBV og buðum þeim að kaupa hluta í mannvirkinu í Herjólfsdal fyrir um 15 milljónir. Ef þeir myndu nota þessa upphæð til að byggja stúku myndu þessar 15 milljónir bætast við þær 12 milljónir sem við höfum sagst vera tilbúin til að leggja í stúkubygginguna og mæta þannig framlagi KSÍ. Þar með værum við að koma með 27 milljónir inn í rekstur ÍBV. Þessu var svarað í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær af framkvæmdastjóranum og ég lít þannig á að þessari aðkomu hafi verið hafnað án frekari viðræðna. Það þarf því sérstaka ákvörðun til að slíkt verði áfram rætt af okkar hálfu.“ 

Hálfur milljarður í knattspyrnuhús

En hefði Vestmannaeyjabæ ekki mátt vera ljóst að þessi krafa yrði gerð?

„Jú okkur var það ljóst að þessi krafa yrði gerð á ÍBV. Þess vegna óskuðum við eftir skýrri forgangsröðun frá ÍBV áður en knattspyrnuhúsið var byggt. Svörin hjá þeim var að knattspyrnuhús væri í forgangi. Nú þegar við höfum varið 500.000.000 króna (hálfum milljarði) til uppbyggingar á aðstöðu fyrir knattspyrnufólk kemur framkvæmdastjórinn og kvartar yfir því að við getum bara alveg gert meira af því að Vestmannaeyjabær er vel rekinn. Ég get fullyrt að ekkert annað íþróttafélag í Vestmannaeyjum myndi standa svona að verkum ef Vestmannaeyjabær færi með hálfan milljarð í uppbyggingu hjá þeim.“

Tónninn hjá þér er óvenjuhvass í garð ÍBV.

„Já það er hann enda slær nú við nýjan tón í samvinnu Vestmannaeyjabæjar og ÍBV. Við höfum gert allt sem í okkar valdi stendur til að standa með ÍBV í þeirra frábæra starfi. Við höfum ekki bara varið hálfum milljarði í knattspyrnuhús, hjálpað þeim að byggja upp aðstöðu í Herjólfsdal, stutt við bakið á íþróttaakdemíu og ýmislegt fleira. Við höfum einnig á seinustu dögum boðist til að fara með 27 milljónir inn í félagið til að hjálpa þeim í núverandi stöðu. Því var svarað með viðtali í kvöldfréttum í gær þar sem því var haldið fram að aðkoma okkar væri ekki nægileg. Ég hlýt að spyrja: Hvenær er nóg nóg?“

Áfram ÍBV!

Að lokum – hvernig fer leikurinn í kvöld?

„Ég er viss um að við vinnum Stjörnuna í kvöld, jafnvel þótt leikurinn fari fram við fordæmalausar aðstæður á tennisvellinum í Garðabænum. Úrslitaleikurinn verður því gegn KR hér heima og hver einasta fruma í mínum líkama þráir sigur í þeim leik. Áfram ÍBV!“

Previous
Previous

Stuðningur úr óvæntri átt

Next
Next

Það erum við Eyjamenn sjálfir sem sköpum okkar eigin gæfu