Af týndum þingmönnum og vanda Landeyjahafnar

Vandamál Landeyjahafnar eru þekkt. Höfnin er byggð á sandströnd og dýpi því ekki nægt fyrir djúpristar ferjur. Þetta var vitað. Það vandamál hefur hinsvegar undið upp á sig þar sem ferjan sem valin var til siglinga (Herjólfur) er vægast sagt óheppileg og dýpkunarskipið sem fengið var til verksins hefur ekki staðið undir væntingum. Þar að auki er aðkoma að höfninni erfið í mikilli ölduhæð. Skipstjórar á Herjólfi telja að eftir að hafa fengið umtalsverða reynslu af siglingum þess skips þá sé ekki óhætt...

...að sigla því við meira en 2,5 m. ölduhæð í Landeyjahöfn.  Skipstjórar á Baldri sigldu við 3,6 metra og telja að hægt sé að ábyrgjast að Baldur geti siglt í allt að 3 metrum og stundum meira, eftir aðstæðum. 

Þingmennirnir týndir?
Í Morgunblaðinu á föstudaginn var birt heilsíðuauglýsing þar sem kallað er eftir stuðningi þingmanna í þeim erfiðleikum sem við nú glímum við.  Auglýsingin vakti athygli á slæmri stöðu samgangna okkar Eyjamanna.  Hún hafi yfir að búa hárbeittum húmor og skar því í gegnum dægurþrasið.  Rétt er að taka það fram að sjálfur hef ég notið stuðnings þingmanna í þeim verkum sem ég hef sinnt hvað Landeyjahöfn varðar og þá ekki síst þeirra Eyjamanna sem sitja á þingi, þeirra Eyglóar Harðardóttur, Árna Johnsen og Róberts Marshall.  Hitt er svo annað að vel má vera að þingmennirnir megi hafa sig meira í frammi og vera ötulli við að tjá sig um málefni Vestmannaeyjabæjar.   Slíkt gerir ekkert annað en að styðja við baráttu okkar.  Auglýsinguna skil ég sem mikilvæga brýningu um að þeir styðji okkar í baráttunni og setji þetta verkefni í forgang í störfum sínum.  Samfélagið hér á allt undir.  Ég hef þá trú að þingmennirnir sjái þetta líkum augum.

Hlutverk þingmannanna okkar.
En hver eru verkefni þingmanna nú þegar leit að þeim hefur skilað árangri og ekki þarf að efast um vilja þeirra?  Rétt eins og að vandi Landeyjahafnar er þekktur þá eru leiðirnar að lausn einnig þekktar: 

1. Smíði á nýrri Vestmannaeyjaferju:
Tafarlaust þarf að hefja undirbúning að smíði nýrrar og sérhannaðrar Vestmannaeyjaferju.  Samgöngur um Landeyjahöfn verða ekki í lagi fyrr en slík ferja verður tekin í notkun.  Hlutverk þingmanna okkar er fyrst og fremst að tryggja að þetta gerist svo fljótt sem verða má.  Jafnvel þótt hratt verði unnið þá tekur þetta amk. næstu tvö ár. 

2. Notað skip erlendis frá
Nýtt skip verður í fyrsta lagi komið til þjónustu 2014.  Þangað til þurfum við annað heppilegra skip en Herjólf til að þjónusta, amk. yfir vetrartímann.   Jafnvel þótt dýpi verði nægt þá verða frátafir Herjólfs vegna ölduhæðar (+2,5 metrar) um 40% í desember, janúar og febrúar ef miðað er við meðal veðurfarslegt árferði.  Í nóvember og mars mun Herjólfur geta siglt í um 70% tilfella út frá sömu forsendum.  Á meðan siglt verður á Herjólfi verður ekki hægt að stóla á Landeyjahöfn.    Nú er verið að leita að skipi og vonandi skilar það árangri.  Ef svo verður er það krafa okkar að slíkt skip verði leigt og ef með þarf að því verði breytt til að henta til siglinga í Landeyjahöfn. 

3. Plan B - Baldur
Ef ekki finnst heppilegt skip erlendis þarf að bíta í það súra epli og leita annarra leiða.  Ferjan Baldur sigldi til Vestmannaeyja í september og þótti nokkuð hentug.  Ef tekið er mið af reynslusiglingum Baldurs liggur fyrir að skipið sigldi við 3,5 metra ölduhæð og mat skipstjóra ferjunar er að siglingin hafi gengið vel.  Með tilliti til þessa getur Baldur siglt í 90 til 95% tilvika í vetur (miðað við meðalárferði).  Vera má að færa þurfi viðmið siglinga eitthvað neðar en í öllu falli verða frátafir umtalsvert minni en hvað Herjólf varðar.  Þar við bætist að frátafir vegna dýpis verða langtum minni enda skipið mun grunnristara.  Eðlilegt er að kannað verði hvort Baldur geti leyst þetta verkefni og annað heppilegt skip leyst af í Breiðafirðinum (enginn vill leysa vandamál Eyjamanna á kostnað annarra á landsbyggðinni).  Í ljósi þess að Baldur er frekar lítill og óheppilegur til siglinga í Þorlákshöfn er eðlilegt að skoða hvort Herjólfur geti ekki sinnt siglingum í Þorlákshöfn þegar ekki gefur til siglinga í Landeyjahöfn.  Slíkt væri náttúrulega háð því að hægt væri að nota sömu áhöfn á bæði skip.  Hafa þarf hugfast að Herjólfur er ekkert að fara enda dytti engum í hug að hægt væri að nota Baldur yfir sumartímann.  Hann er of lítill á veturna og þar af leiðandi alltof lítill fyrir sumarálagið.

4. Dýpkun
Bæta þarf allt það sem snýr að dýpkun.  Dýpkunarskip verða að vera áreiðanlegri en nú er og afkastagetan meiri.  Sérstaklega þarf að horfa til þess að koma upp föstum dælubúnaði um leið og tryggt verður að dæluskip sé áreiðanlegt og með nægilega afkastagetu.

5. Breytingar á höfninni
Ná þarf sátt um hvort hægt sé að breyta Landeyjahöfn og sníða af henni vanda við innsiglingu í slæmum veðrum.  Ef verkfræðilega er hægt er að gera breytingar þarf að kostnaðarmeta slíka framkvæmd.  Slíkt verður einungis gert með því að fá til verksins óháða aðila. 

Samráðshópur ráðherra
Samráðshópur ráðherra undir minni forystu hefur lagt ofangreint til.  Mikilvægt er að halda því til haga að samráðshópnum er ætlað að „vera vettvangur fyrir hagsmunaaðila til að viðra sjónarmið, afla, greina og miðla upplýsingum á milli aðila um málefni hafnarinnar og siglinga um hana og einnig að upplýsa innanríkisráðherra um stöðu mála á hverjum tíma eins og þurfa þykir.“  Hópurinn hefur ekki heimild til neinnar ákvörðunartöku eða framkvæmda.

Vilji Vestmannaeyinga er að samgöngur á sjó séu um Landeyjahöfn.  Við hvorki megum né ætlum að leggja árar í bát fyrr en samgöngur okkar eru orðnar í takt við það sem okkur var lofað þegar ákvörðun var tekin um að byggja Landeyjahöfn.  Til að svo megi verða verða allir sem að málinu koma að vinna sem ein heild.  Bæjarfulltrúar, áhöfnin á Herjólfi, þingmenn, Eimskip, Vegagerð, Siglingastofnun og allir hinir sem um þetta véla.  Markmiðið er einfalt – að tryggja öruggar og áreiðanlegar ferðir í Landeyjahöfn.

Previous
Previous

Hver miði á Sinfóníuna er niðurgreiddur um 9400 krónur af skattgreiðendum

Next
Next

Málefni aldraðra