Áhersla verður lögð á að finna skip sem hentar betur en Herjólfur
Í dag fundaði samráðshópur um siglingar í Landeyjahöfn. Fundurinn stóð í rúmlega þrjá tíma enda verkefnið ærið.
Ýmislegt var þar rætt og misstór skref tekin í þeim verkefnum sem við blasa. Meðal þess sem var ákveðið var að....
...ekki sé ástæða til að gera breytingar á því sem áður hefur verið ákveðið um að í vetur verði stefnt að því að sigla í Landeyjahöfn eftir því sem aðstæður leyfa. Eftir að reynsla fékkst á siglingar Baldurs núna í september er flestum hinsvegar ljóst að siglingar Herjólfs í höfnina eru og verða vandkvæðum bundnar vegna stærðar skipsins, lögunar og djúpristu.
Stærstu tíðindin eftir fundin er hinsvegar að Vegagerðin mun tafarlaust láta kanna önnur skip sem gætu leyst Herjólf af hólmi. Þannig verður reynt að finna skip sem er betur fallið til siglinga í Landeyjahöfn en Herjólfur. Baldur er sannarlega einn kostur í stöðunni, en ekki sá eini. Mikilvægt er að halda því til haga að höfnin var í upphafi hönnuð fyrir skip með djúpristu upp á 3,2 til 3,5 metra dýpi. Þær áætlanir geru ráð fyrir að dýpið í höfninni yrði um 5 til 5,5 metrar. Herjólfur þarf hinsvegar helst 7 metra dýpi eða meira. Á meðan slíkt dýpi er nauðsyn verða frátafir miklar.
Samráðshópurinn hvetur einnig eindregið til þess að hönnun og smíði nýrrar ferju til siglinga í Landeyjahöfn verði flýtt sem kostur er, enda bendir flest til þess að samgöngur við Landeyjahöfn verði ekki áreiðanlegar fyrr en fengin verður ferja sem fellur að þeim forsendum sem bygging hafnarinnar miðaði við.
Það vissu allir í upphafi að höfnin hentaði illa fyrir núverandi Herjólf. Tilraun til að nota hann samt hefur ekki tekist. Það verður að fá annað skip.