Fréttatilkynning: Nýtt hótel í Eyjum - Sennilega ein stærsta verklega framkvæmd á landinu í dag
Nú fyrir skömmu sendi ég fjölmiðlum fréttatilkynningu vegna fyrirhugaðrar bygginar á 140 herbergja Hóteli hér í Vestmannayjum. Fréttatilkynningin var svohljóðandi:
Vestmannaeyjabær og Sextíu plús ehf. hafa komist að samkomulagi um að...
...stefnt verði að byggingu allt að 140 herbergja hótels í svonefndri Hásteinsgryfju.
Ákvörðun þar að lútandi byggir á sameiginlegri sýn á þau miklu tækifæri sem ferðaþjónusta í Vestmannaeyjum stendur nú frammi fyrir. Með breyttum samgöngum hefur opnast stóraukið aðgengi að óviðjafnanlegri náttúru og stórbrotnu mannlífi. Vestmannaeyjar eru í raun heimur í hnotskurn þar sem finna má allt það sem prýðir öflugan ferðaþjónustustað. Sameiginlegur vilji beggja aðila er að halda áfram markvissri uppbyggingu þar að lútandi.
Lóðin sem horft er til er ekki á skipulögðu byggingarsvæði og því þarf Vestmannaeyjabær að vinna og auglýsa breytingu á gildandi aðalskipulagi samhliða breytingum á gildandi á deiluskipulagi. Samkomulagið er með fyrirvara um slíkt. Gangi skipulagsvinna hratt og örugglega eftir horfir framkvæmdaaðili til þess að hefja verklegar framkvæmdir á fyrsta ársfjórðungi 2012 og taka hótelið í notkun vorið 2013.
Þetta er sannarlega ánægjulegt fyrir okkur Eyjamenn enda hér um eina stórtækustu uppbyggingu í ferðaþjónustu á landinu öllu og sennilega eina af stærstu byggingaframkvæmdum í landinu í dag. Störfin sem skapast á byggingatíma telja sennilega í hundruðum og síðan í tugum eftir að starfsemi hefst. Tækifæri Vestmannaeyja í ferðaþjónustu eru mikil.
Ólíkt því sem víðast hvar er búa Eyjamenn við þann munað að geta þróað samfélagið í átt að ferðaþjónustu af vilja frekar en þörf enda stendur atvinnulífið í Vestmannaeyjum sterkum fótum nú þegar. Vestmannaeyjar hafa alla burði til að verða ein helsta perlan í íslenskri ferðaþjónustu. Sérstaklega eru sóknarfærin utan hins hefðbundna ferðamannatíma mörg í Vestmannaeyjum þótt vissulega standi þau og falli með samgöngum.
Það er því ástæða er til að fagna sérstaklega áætlun Íslandsstofu sem kynnt var fyrr í dag þar sem stefnt er að því að fjölga ferðamönnum utan háannatíma um 100 þúsund frá september í ár fram í september árið 2014. Í því samhengi er einnig ánægjulegt að segja frá því að farþegum sem ferðust með Herjólfi fjölgaði úr 127.00 seinasta heila árið sem siglt var í Þorlákshöfn í 272.000 fyrsta heila árið sem siglt var í Landeyjahöfn eða um 145.000 manns.