Allir eru ósáttir, allir þurfa meira
Í kær kynnti ríkisstjórn víðtækar aðgerðir ætluðum að sporna við áhrifum kórónuveirunnar á atvinnulíf og þjóðlíf. Umfang þeirra er metið á 60 milljarða króna og koma til viðbótar þeim aðgerðum sem kynntar voru fyrir um mánuði. Aðgerðarpakkinn er því kominn nálægt 300 milljörðum. Viðbrögðin hafa ekki látið á sér standa. Það er eðlilegt. Margir eru í miklum vanda, allir telja sig þurfa meira og án vafa hafa þeir allir rétt fyrir sér.
Allir þurfa meira
Aðilar í ferðaþjónustu bentu á að aðgerðarpakkinn væri lítil stoð fyrir fyrirtæki sem standa nú frammi fyrir algerum forsendubresti, samtök atvinnulífis vilja aukinn stuðning við stóru fyrirtækin, ASÍ telja vanta aðgerðir fyrir t.d. barnshafandi og fl., lögreglan kvartar undan því að ekki sé meiru varið til að efla löggæslu, sveitarfélögin telja sig þurfa aukin framlög, Samfylkingin vill hundraðfalda listamannalaun og lengi má áfram telja. Enginn er sáttur.
Ríkið getur ekki „bjargað“, halli ríkissjóðs stefnir í að verða 300 milljarðar
Á fyrrgreindum fundi sagði forsætisráðherra að enn væri frekari aðgerðapakka von. Ég tel þó sennilegt að þrátt fyrir viðleitni og jákvæð skref verði fáir sáttir þegar uppi verður staðið. Áfallið fyrir hagkerfið er einfaldlega stærra en svo að ríkið geti „bjargað“ málunum. Það getur mildað stöðuna, flýtt fyrir viðspyrnu og auðveldað ástandið tímabundið. Það getur hins vegar ekki bjargað öllu. Það þarf að horfast í augu við þann veruleika. Þegar fólk veltir fyrir sér hvar ríkið gæti gert meira þarf samhliða að horfa til þess að hallinn af rekstri ríkissjóðs í ár gæti hæglega numið 300 milljörðum.
Almenni markaðurinn er of lítill
Íslenskur vinnumarkaður telur um 210 þúsund manns. Nú í dag er staðan sú að af þessum fjölda eru 60 þúsund opinberir starfsmenn (29%), 50 þúsund eru atvinnulausir eða í hlutastarfaleið ( 24%), 20 þúsund eru öryrkjar (10%). Á almennum vinnumarkaði -þar sem mestu verðmætin verða til sem standa undir hinu- eru þá eftir um 80 þúsund manns (38%). Það verður erfitt að halda hjólunum gangandi á þessum forsendum.
Liðka fyrir og hvetja til
Af þessu leiðir að nú þarf að leita allra leiða til að beina fjármagni að arðbærum verkefnum. Sem aldrei fyrr þarf að liðka fyrir og hvetja til. Auðvitað þarf að koma ferðaþjónustufyrirtækjum í skjól og vernda þá framtíðarverðmætasköpun sem í þeim býr. Það skiptir samt ekki minna máli að efla aðrar stoðir hagkerfisins. Það þarf að stórlækka tryggingagjald, draga tímabundið úr mótgreiðslu í lífeyrissjóð, koma í veg fyrir launaskrið og svo margt annað sem hægt er að gera til að efla almennan vinnumarkað.
Hið opinbera má ekki þvælast fyrir
Það þarf samhliða að tappa sírópinu af gangverki samfélagsins. Þótt ekki sé nema tímabundið. Það verður að tryggja að eftirlitsstofnanir, bæði hjá ríki og sveitarfélögum, hafi ekki það rúman tíma til ráðagerða og umsagna að það dragi úr framkvæmdahug. Sjálfur myndi ég vilja horfa til þess að opinberir aðilar fengju einfaldlega takmarkaðan tímafrest til að svara erindum (3 til 5 vikur) og sé þeim ekki svarað á þeim tíma sé það túlkað sem samþykki. Ég þori að lofa að störfin sem yrðu til hratt og örugglega myndu telja í þúsundum.
Endurskoða þarf verðlagningu Landsvirkjunar
Skoða þarf verðlagningarstefnu Landsvirkjunar. Nú þarf að nýta íslenska orku til að efla íslenska framleiðslu og fjölga störfum. Niður með verðið.
Arðbærni verkefna
Ráðast þarf í arðbærar opinberar framkvæmdir, þá ekki síst þær sem eru mannfrekar á framkvæmdartíma og vinna þar með tafarlaust gegn atvinnuleysi. Samgöngumannvirki eru sérstaklega til þess fallinn. Hafnarframkvæmdir, vegaframkvæmdir, stækkun flugstöðva og fl. eru nærtæk.
Almenni markaðurinn er forsenda velferðar
Það er ýmislegt hægt að gera. Mestu skiptir þó að ætlast ekki til þess að ríkissjóður geti mætt skaðanum. Hann getur það ekki nú, og hann mun aldrei geta það. Hann, og stjórnendur hans, geta hinsvegar nýtt sjóðinn og það vald sem þeim er falið til að örva hagkerfið og efla vinnumarkaðinn. Það er hann sem er forsenda framfara og velferðar í landinu.
Allt þetta og miklu meira þekkja okkar hæfu leiðtogar, Bjarni, Katrín, Sigurður Ingi og fl. Það léttir mér svefn.