Enn styrkist staða Þorlákshafnar

Þorlákshöfn hefur sannað gildi sitt sem lykilhöfn Íslands í Evrópusiglingum.  Sigling þaðan syttir enda siglingatímann til og frá Evrópu um hátt í sólarhring og munar um minna bæði hvað varðar tíma, fjármagn og kolefnisspor.  Nú er enn eitt skrefið tekið í átt að frekari sókn þar sem Smyril Line hefur nú bætt skipi númer sex við flotann. 

Hinu nýja skipi er bætt við í þeim tilgangi að þróa nýja siglingaleið milli Noregs og Rotterdam og tengja hana við aðrar flutningsleiðir Smyril Line, þar með talið héðan frá Þorlákshöfn.   Með það fyrir augum mun Smyril Line taka upp vikulegar siglingar milli vestur-strandar Noregs og Rotterdam frá og með 17 ágúst. 

Nýja skipið heitir Mistral og þykir í senn öflugt og gott.  Um er að ræða 153 metra langt skip og 21 m breitt, byggt 1998.  Djúprista þess er 7 metrar.  Skipið er því heldur stærra en Akranesið.  Mistral mun leysa Akranes af í siglingum milli Hirtshals og þorlákshafnar og Akranes fer í nýju siglingaleiðina.

Það er ómetanlegt fyrir okkur hér í Ölfusi að finna þann kraft, það þor og þá fagmennsku sem Smyril Line býr yfir.  Samstarfið við þau er orkan sem kyndir ofninn sem knýr sóknina.  Ekki þarf að efast um að þessi viðbót mun skapa enn frekari tækifæri fyrir okkur hér í Þorlákshöfn þar sem siglingaleiðin hér tengist nú beint við flutninga milli Noregs og Rotterdam og öfugt. Við erum sannfærð um að enn stærri sóknar skref eru innan seilingar.  

Previous
Previous

Við verðum að framleiða okkur út kreppunni sem er að koma

Next
Next

Allir eru ósáttir, allir þurfa meira