Baðlón í Ölfusi

Fáum dylst sá mikli uppgangur sem er víða í Ölfusi. Mikið hefur verið fjallað um vöxt hafnarinnar, vinnslu jarðefna, landeldi á laxi og margt fl. Minna hefur farið fyrir umfjöllun um vöxt ferðaþjónustunnar. Þar ber hátt bygging fjögurra stórra hótela í og við Þorlákshöfn, nýr miðbær og fl. Eitt af krúnudjásnunum er svo nýtt baðlón í Hveradölum sem nú hefur lokið umhverfismati.

Hvergi er til sparað í hönnun lónsins. Aðkoman er glæsileg og baðsvæðið fjölbreytt. Glæsileikinn er lagaður fullkomlega að einstakri náttúru svæðisins.

 

Samstarf við Jarðhitagarð ON

Undirbúningur Baðlónsins er unnin í samstarfi Hveradala ehf., sveitarfélagsins Ölfus sem fer með skipulagsvald á svæðinu og Jarðhitagarðs ON en er gert ráð fyrir að baðlónið verði hluti af Jarðhitagarðinum. Áhersla verður lögð á að tengja saman starfsemi lónsins og einstakt útivistarsvæði Hveradala, sem er paradís fyrir göngu- og útivistarunnendur.

Innra og ytra umhverfi lónsins rennur saman á afslappaðan og hlýlegan máta.

 

Hringrásarhagkerfið

Innan Sveitarfélagsins Ölfus höfum við verið að leggja vaxandi áherslu á hringrásarhagkerfið. Hið nýja baðlón mun leika lykilhlutverk í enn frekari hringrás jarðhitastrauma innan jarðahitagarðs ON í Ölfus. Kjarninn í hönnun lónsins byggir þannig á hugmyndum um sjálfbærni, hringrásarhagkerfið og heilnæmi þar sem jarðhitavökvi, sem Orka Náttúrunnar nýtir til orkuframleiðslu, verður áfram nýttur til að hita upp baðlónið og síðan dælt aftur niður í jarðhitageyminn þar sem vökvinn hitnar upp á ný og er endurnýttur með sama hætti í fullkomnu hringrásarferli.

 

 

Vellíðan, heilnæmi og sjálfbærni í forgrunni

Lónið verður staðsett í hjarta Hveradala í Stóradal, sem er forn gígur og tekur hönnun mannvirkja mið að því að fella byggingar og upplifunarsvæði sem best inn í umhverfi og náttúru. Gestir munu njóta stórbrotins útsýnis yfir fjalllendi og jarðhitasvæðið í kringum Hellisheiðavirkjun. Boðið verður uppá fjölbreytt upplifunarsvæði með tilheyrandi baðtengdri upplifun, veitingasvæði og einnig tónleikasvæði fyrir smærri viðburði, en gígurinn skapar frábærar aðstæður fyrir slíka viðburði.

Veitingaaðstaða og önnur þjónusta hnýtir upplifun gesta saman. 

 

 

Umhverfi, sjálfbærni og hönnun

Baðlónsverkefnið hefur farið í gegnum umhverfismat hjá Umhverfisstofnun og er eina baðlónsverkefnið á Íslandi sem farið hefur í gegnum slíkt ferli. Byggingarefni og innviðir verða valdir með sjálfbærni að leiðarljósi og lágmörkun umhverfisáhrifa verður í forgangi. Hveradalir ehf. hafa fengið alþjóðlega hönnunar- og arkitektafyrirtækið Populous til að hanna mannvirki og heildarupplifun gesta, en Guðmundur Bergmann Jónsson, arkitekt og meðeigandi hönnunarfyrirtækisins, hefur leitt þá vinnu.

Glæsileiki, hógværð og virðing er allsráðandi. Hvert rými hefur sín sérkenni en er þó skýrlega hluti af heildarupplifuninni.

 

Veglegt lón sem byggt af virðingu fyrir umhverfinu

Gert er ráð fyrir að lónið verði allt að 6000 fermetrar að stærð en með nokkrum afmörkuðum baðsvæðum til að tryggja sem best hagkvæma nýtingu jarðvarmans. Mannvirki verða samtals um 6000 fermetrar og munu falla vel inn í umhverfið. Ekki spillir svo fyrir -heldur þvert á móti- að fyrir verkefninu fer heimamaðurinn Þórir Garðarsson sem er þessa dagana að byggja sér framtíðarheimili að Lækjarbergi í Ölfusi.

Next
Next

Latur tekur á móti fólki