Frelsi einstaklingsins tryggir best hagsmuni almennings
Í Viðskiptamogganum í dag er afar gott viðtal við Björn Brynjúlf Björnsson, framkvæmdastjóra Viðskiptaráðs. Þar segir hann m.a.: „Reglusetning á vegum hins opinbera sem gerð er í góðum tilgangi veldur stundum aukaverkunum sem eru verri en sjúkdómurinn. Þess vegna tölum við fyrir því að halda opinberum afskiptum í lágmarki,“. Undir þetta tökum við frjálshyggjufólk, sem trúum einlæglega á það felist lífsgæði í frelsi einstaklingsins og hætta í óþarfa afskiptum hins opinbera.
Skerðing á frelsi einstaklinga er leiðin til sérhagsmuna í stað hagsmuna almennings.
Leiðin er vörðuð góðum ásetningi
Hættan á því að stjórnmálamenn telji það sitt æðsta hlutverk að stjórna okkar daglega lífi liggur í augum uppi. Oft er slíkt varðað góðum ásetningi. Með sístækkandi regluverki eða þrýstingi, verður óhjákvæmilega til samfélag þar sem borgarar þurfa að hlýða boðum og bönnum í stað þess að lifa í samræmi við eigin sannfæringu. Þegar frelsi til tjáningar er takmarkað með lögum eða pólitískri íhlutun, verður samfélagið lokaðra og óttinn við refsingar getur kæft opna umræðu. Á seinustu árum höfum við séð þessa tilhneigingu vaxa.
Dæmin
Fyrrverandi forsætisráðherra vildi senda fólk á námskeið í því hvað sé æskileg orðræða.
Fólk var sett í stofufangelsi í Covid og fékk jafnvel ekki að sækja jarðafarir nákominna.
Lög um náttúruvernd og einkalendur takmarka mjög réttindi landeigenda.
Eingöngu valdir aðilar mega standa fyrir veðlánastarfsemi á Íslandi.
Bara opinberir starfsmenn í opinberum byggingum mega selja áfengi.
Verndartollar á matvæli, byggingarefni, húsgögn og fl. ganga gegn valfrelsi neytenda (og hækka kostnað).
Háir tekjuskattar, virðisaukaskattur, fjármagnstekjuskattur og önnur gjöld svipta hina raunverulegu eigendur fjármagnsins stóran hluta verðmætanna og flytja til annarra.
Atvinnufrelsi er verulega skert. Hárskerar, málarar, bakarar, snyrtifræðingar og fl. geta ekki starfað nema með sérstaka heimild og þjálfun samþykktri af hinu opinbera.
...listinn yfir takmörkin á frelsi einstaklinga er endalaus.
Frelsi einstaklingsins vinnur gegn sérhagsmunastefnu
Þegar farið er að skerða persónufrelsi er afar hætt við því að sérhagsmunir komi til með að ráða í stað almennra hagsmuna samfélagsins – hagsmunir einstaklinga. Sérhagsmunir miða oft að því að tryggja ávinning fyrir afmarkaða hópa – til dæmis, hagsmunasamtök (svo sem Landvernd), þrýstihópa (íþróttafélög) eða stórfyrirtæki – á kostnað almennings. Slík framganga brenglar jafnræði og getur grafið undan trausti fólks á lýðræðinu.
Hagsmunaöflin taka yfir
Stjórnmálamenn, sem nýta vald sitt til að setja lög sem ganga gegn frelsi einstaklinga, skapa ójafnvægi þar sem almennir borgarar eiga erfitt með að keppa á jafnréttisgrundvelli við vel skipulögð hagsmunaöfl sem hafa stuðning löggjafans. Í stað þess að styrkja stöðu almennings með því að auka frelsi þeirra og rétt til að ráða sjálfir sínum hagsmunum og verðmætum, skapast ástand sem einkennist af samtryggingu sérhagsmuna. Það dregur úr trú á réttmæti lagasetninga.
Lausnin er í auknu frelsi almennings
Eins og Björn Brynjúlfur bendir á þá er lausnin við þessu að draga úr óþarfri lagasetningu og auka frelsi almennings til að taka eigin ákvarðanir. Það er mikilvægt að stjórnmálamenn verndi almannahagsmuni og skapi aðstæður þar sem borgarar geta vaxið og dafnað án óþarfa afskipta. Með því að takmarka reglur og binda hendur stjórnmálamanna við það nauðsynlegasta, færist valdið aftur til fólksins. Frelsið styrkir getu einstaklinga til að láta eigin framtak, sköpunarkraft og sjálfstæði blómstra. Það dregur úr hættunni á samtryggingu, eykur sjálfsábyrgð og gerir samfélagið sterkara og sjálfbærara.
Frelsið er yndislegt
Sem fyrr er mikilvægt að stjórnmálafólk haldi sér frá of mikilli íhlutun í daglegt líf almennings og treysti frekar á sjálfsákvörðunarrétt einstaklingsins. Það er þannig sem hagsmunir almennings verða best tryggðir. Frelsið er vörnin gegn sérhagsmunum.