Latur tekur á móti fólki
Framkvæmdir eru nú hafnar við að flytja hið sögulega bjarg „Lat“ frá núverandi legustað að Ölfusbraut sem er í raun anddyrið af Þorlákshöfn. Með þessum framkvæmdum er í senn verið að hefja Lat til vegs og virðingar á ný og prýða aðkomuna að bænum enn frekar. Þar mun hann taka á móti fólki við heimkomu og kveðja það við brottfört.
Latur er víða
Örnefnið Latur er þekkt víða um land. Þannig veit eg að bæði hér í Þorlákshöfn, í Vestmannaeyjum, í Ögmundarhrauni og á Vestfjörðum sé þetta sama örnefni að finna. Oft á það sér sömu eða svipaða skírskotun. Algengt er að fyrirbærin standi í sjó fram og vísar þá til þess að í þungum straumi gátu ræðarar á gömlu árabátunum virkað latir þegar illa gekk að komast fyrir þessi örnefni. Einnig hefur verið vísað til þess að staðurinn sjálfur væri „latur“ að hverfa sjónum.
Hraðamælir þess tíma
Hér í Þorlákshöfn var talað um að „róa Lat fyrir Geitafell“. Þá voru áraslögin talin í hvert eitt sinn, frá því að Geitafell fór að hverfa bak við Lat þar til það sást allt hinum megin. Þannig var Latur í raun hraðamælir árabátanna.
Stóð austur af urðum
Lengst af stóð Latur austur af urðum og var þar notaður sem viðmið um sjófærð og veður. Þannig segir sagan að það hafi þurft níu til tólf áratog til að róa fyrir Lat í góðu veðri en þegar verra var í sjó hafi áratogin auðveldlega verið níutíu til hundrað.
Skolaðist sem steinvala
Það er magnað til þess að hugsa að þótt Latur sé mikið grettistak, um sextíu tonn, þá hefur hafaldan stundum skolað honum til sem steinvölu. Áður en elstu menn muna hefur einhver voðalda skolað þessu bjargi á land. Árið 1977 tók svo sterk alda hann í faðm sér og skolaði honum um tíu metra á innar á land þar sem hann lá svo marflatur. Árið 2004 var Lat svo fundinn staður sunnan Egilsbrautar þar sem hann hefur legið í leti síðan. Núna mun hann svo skipa nýjan sess sem minnisvarði um mót nýs og gamals tíma.
Djúpar rætur
Þorlákshöfn er sjávarbyggð. Þótt þéttbýlið sem slíkt sé eitt hið yngsta á landinu -réttrúmlega 70 ára- þá eru ræturnar djúpar. Tengslin við hafið, sjósóknina og óblíð náttúruöfl eru sterk og fólkið hér stolt af sinni sögu. Þess vegna höfum við fundið Lat nýjan stað í anddyri Þorlákshafnar í skeifunni við Ölfusbrautina. Þar mun hann bjóða bæjarbúa og gesti velkomna um ókomna tíð, líkt og hann fagnaði sjófarendum í fyrndinni.