Betur má ef duga skal - Fæðingaþjónusta verður ekki gefin eftir

Í seinustu viku kom upp beinbrot hjá ungri konu í Vestmannaeyjum.  Konan var flutt til röntgenmyndatöku í Reykjavík þar sem ekki var hægt að framkvæma slíkt hér í Vestmannaeyjum.  Auðvitað olli þetta bæði auknum sársauka og margskonar óþægindum fyrir konuna og fjölskyldu hennar.   Upp komu vangaveltur um að ekki hafi verið hægt að veita fulla þjónustu hér í Vestmannaeyjum vegna niðurskurðar eða einhverskonar yfirvinnubanns vegna fjárskorts.  Ég leitaði til framkvæmdastjóra lækninga eftir upplýsingum.

Ekkert yfirvinnubann hjá geislafræðingum

Þær upplýsingar sem ég fékk voru að því færi fjarri að um væri að ræða yfirvinnubann væri hjá geislafræðingum og að úrvinnsla og ákvarðanir í þessu máli hafi ekkert haft með fjármögnun eða slíka hluti að gera.   Staðan er einfaldlega sú að ekki hefur enn tekist að fá afleysingu geislafræðings í hér Vestmannaeyjum vegna sumarleyfa. Hjá HSU í Vestmannaeyjum starfa tveir geislafræðingar og þeir eru (eins og skiljanlegt er) ekki tilbúnir til að standa bakvakt einir vikum saman þegar annar þeirra er í fríi. Það þýðir að það er ekki hægt að manna allar vaktir. Hins vegar hafa þeir lýst yfir að ef um neyðartilfelli sé að ræða þá muni þeir ekki neita að koma.

Allt gert til að fá geislafræðinga í afleysingar

Verið er af fullum hug að reyna að leysa úr þessu ástandi. M.a. hefur verið sendur tölvupóstur á alla félagsmenn í félagi geislafræðinga og haft hefur verið samband við aðrar heilbrigðisstofnanir. Góð laun fyrir afleysingamanneskju eru í boði og það er því ekki fyrirstaða.

Eðlileg tortryggni 

Það er skiljanlegt að Eyjamenn séu tortryggnir þegar kemur að heilbrigðisþjónustu og túlki hluti eins og þessa á versta veg þar sem heilbrigðisþjónusta hér, eins og víða á landsbyggðinni, hefur átt í vök að verjast og skerðing orðið á ýmsum þjónustuþáttum og þjónustustigi undanfarin ár. 

Það er verk að vinna þótt margt hafi færst til betri vegar

Þrátt fyrir að staðan sé ekki sú sem við vildum og þrátt fyrir að við verðum aldrei sátt á meðan hér er ekki full fæðingaþjónusta þá er vert að horfa til þess sem færst hefur til betri vegar.

Aftur boðið upp á ómskoðanir

Í langan tíma var ekki boðið upp á ómskoðun hér í Eyjum.  Nú hefur aftur ræst úr hvað það varðar og ómskoðanir á meðgöngu eru aftur í boði. Þjónustuleysið hvað þennan þátt varðar hafði ekkert með fjármögnun, yfirvinnubann eða annað slíkt að gera, en skapaðist af óviðráðanlegum aðstæðum vegna veikinda starfsmanns. 

Búsettum læknum fjölgar

Um tíma höfðum við Eyjamenn miklar áhyggjur af læknamönnun hér í Vestmannaeyjum og bentum á að eingöngu einn læknir væri búsettur í Vestmannaeyjum.  Með átaki hefur tekist að tryggja að nú eru þrir fastir læknar við heilsugæsluna í Vestmannaeyjum.  

Þá má geta þess að lítið álag hefur verið á sjúkradeildinni síðustu vikur og þar eru nokkur laus rúm þrátt fyrir sumarlokun (fækkun opinna sjúkrarúma á sumarleyfistíma).

Enn er verk að vinna - Fæðingaþjónusta verður ekki gefin eftir

Nú sem fyrr er mikilvægast að tryggja öryggi sjúklinga og annarra skjólstæðinga heilbrigðisþjónustunnar.  Upp geta komið óviðræðanlegar aðstæður sem því miður valda oft óþægindum og óhagræði fyrir fólk og að sjálfsögðu ber að harma slíkt.  Flestum ber saman um að við fæðingarþjónustuna liggi sársaukamörk heilbrigðisþjónustunnar í Vestmannaeyjum.  Þar er verk að vinna og fráleitt að ætlast til að við sættum okkur við núverandi ástand.

Previous
Previous

Frelsi og jafnrétti - Að vera einstaklingshyggjumaður er að vera jafnréttissinni.

Next
Next

Mjókurkúin sveltur - Dregið hefur úr innviðafjárfestingum