Frelsi og jafnrétti - Að vera einstaklingshyggjumaður er að vera jafnréttissinni.

Ég gær var ég að mála stofuna heima hjá mér og dóttir mín var að hjálpa mér.  Þar sem hún sat og losaði rafmagnsinnstungur frá veggnum spurði hún mig hvort ég væri feministi.  Ég svaraði að bragði að ég væri jafnréttissinni.  Hún spurði þá þegar hvort mér finndist allir jafnir eða hvort ég væri bara jafnréttissinni þegar rætt er um kyn.  Úr varð hið skemmtilegasta samtal sem varð kveikja að þessum skrifum. 

Jafnrétti - Jafnréttur

Hugtakið jafnrétti er ekki flókið.  Það er meira að segja eins gagnsætt og hugsast getur.  Jafnrétti, jafn réttur.  Oftast er því beitt á hópa og í gegnum það er hópum jafnvel att saman. Konum gegn körlum, hvítum gegn svörtum, fötluðum gegn ófötluðum.   Í eðli sínu er hið endanlega jafnrétti þó einstaklingsmiðað.  Jafn réttur allra óháð sundurgreinandi einkennum.  

Einstaklingurinn er minnsti minnihlutahópurinn

Þeir sem aðhyllast jafnrétti standa með minnihlutahópum.  Allra minnsti minnihlutahópur sem til er hlýtur að vera einstaklingurinn.  Ég er í eðlil mínu einstaklingshyggjumaður, trúi einlæglega á frelsi einstaklingsins.  Ætli það geri mig ekki þar með að jafnréttissinna.

Ég aðhyllist jafnan rétt kynjanna.... 

...og er því á móti kynjakvóta og tel aðrar leiðir oft betri til að ná einstaklingsfrelsinu.  Mér finnst kynjakvóti vond leið að göfugu markmiði.  Mér þætti til dæmis fráleitt að útiloka konur frá háskólanámi þótt þær séu 62% allra háskólanema.  Þegar verið er að ráða starfsmenn þykir mér fráleitt að láta kyn ráða niðurstöðu.  Það hvort pípulagnirnar á fólki eru utan á eða innan á skiptir mig ekki máli þegar kemur að rétti einstaklingsins.  Ég er almennt á móti því að kyn sé grunnur að ákvarðanatöku.  Það er skerðing á frelsi einstaklingsins að láta það vinna gegn honum  -eða með honum- af hvoru kyninu hann er. 

Ég aðhyllist jafnan rétt óháð kynhneigð...

...og er því á móti allri takmörkun á rétti samkynhneigðra.  Mér finnst það fráleitt að yfirhöfuð skuli þurfa að ræða réttindi eins og að ættleiða, ganga í hjónaband eða hvaða önnur einstaklingsréttindi sem um er að ræða.  Fyrir mörgum árum bjuggum við hjónin –þá nýgift- með tveimur hommum, sem einnig voru nýgiftir.  Á þeim tíma fékk ég nokkurn faglegan áhuga á samkynhneigð.  Nýbyrjaður í mastersnámi í sálfræði þótti mér sérstaklega áhugavert hversu erfitt hinar klassísku þroskakenningar áttu með að útskýra þetta litbrigði í mannlegu eðli.  Ég veit því að sennilega hafa samkynhneigiðir ekkert val hvað kynhneigð varðar.  Jafnvel þótt svo væri þá gæti mér ekki verið meira sama um það með hverjum fólk velur að sænga, verður ástfangið af eða hvernig það skilgreinir sig.  Hefur meira að segja stundum dottið í hug hvort að mesta einstaklingshyggjan sé ekki hjá þeim sem eru bi-sexual.

Ég aðhyllist jafnan rétt óháð trú...

...og er því á móti því að gert sé upp á milli fólks eftir hverju það trúir.  Það er skýr réttur einstaklingsins að fylgja þeirri trú sem hann velur eða finnur fyrir.  Rétt eins og að það er skýr réttur fólks að trúa engu.  Það hver trúarleg afstaða fólks er á hvorki að verða til að treysta rétt þeirra né skerða.  

Ég aðhyllist jafnrétti óháð kynþáttum...

... og er á móti hverskyns misjöfnun á slíkum grunni.  Kynþáttafordómar eru andstyggilegt form af skerðingu á einstaklingsfrelsi.  Húðlitur, augnsvipur, hárgerð, líkamsvöxtur og fleiri einkenni kynþátta á aldrei að verða til að skerða eða auka persónufrelsi þeirra.  

Þegar ég svaraði dóttur minni vissi ég ekki endilega hversu víðtækt svarið var.  Hvað það merkti að vera jafnréttissinni.  Eftir stendur svarið – já, ég trúi á frelsi einstaklingins og í því er fólgið að vera jafnréttissinni.  Að vera stuðningsmaður þess að allir hafi jafnan rétt óháð sundurgreinandi þáttum.

Previous
Previous

Skattaspor Vestmannaeyja

Next
Next

Betur má ef duga skal - Fæðingaþjónusta verður ekki gefin eftir