Mjókurkúin sveltur - Dregið hefur úr innviðafjárfestingum
Á Íslandi er þörf fyrir innviðafjárfestingu. Þörf fyrir að fjárfesta í þeim undirstöðum sem fólgnar eru í bæði efnahagslegum- (samgöngur, orkuveitur, gagnaveitur og fl.) og samfélagslegum innviðum (heilbrigðistofnanir, fræðslustofnanir og fl.). Sérstaklega er mikilvægt að leggja pening í verkefni sem skapa pening. Þegar kreppir að eru þetta gjarnan þær fjárfestingar sem fyrst er dregið úr. Það þarf enda meiri kjark til að ráðast að grunnvandanum í opinberum rekstri, sem er rekstrarkostnaður.
Ber feigðina í sér
Að draga úr innviðafjárfestingu hefur svipuð áhrif og að hætta að fóðra mjókurkúna. Fyrst slappast hún og svo drepst hún. Það á sérstaklega við um efnahagslegar innviðafjárfestingar. Vafalaust er hægt að komast upp með það í einhvern tíma en það ber feigðina í sér að láta slíkt viðgangast.
Nánast allar krónur bundnar í rekstri
Án þess að ætla langt út í þá sálma þá má öllum vera ljóst að það þarf að skapa rekstrarlegt svigrúm til að fjárfesta. Illu heilli erum við sem þjóð með flestar okkar krónur bundnar í rekstri og það gerir svo illt verra að stöðug krafa er um að lagt verði meira fé í kostnaðarfrekustu málaflokkana og lítið pólitískt svigrúm til nokkurra breytinga í kjarnarekstri svo sem aukinnar kostnaðarþátttöku þjónustuþega, aðkomu þriðja aðila að rekstri, hægræðingar og þar fram eftir götunum.
Á þessari mynd má sjá í hvað við verjum tekjum ríkisins:
Of lítil innviðafjárfesting
Almennt er miðað við að opinber fjárfesting í innviðum sé helst ekki lægri en um 4% af landsframleiðslu ef markmiðið er að viðhalda þörfum vexti innviða. Það vekur því ugg að frá 2009 hefur þetta hlutfall verið á bilinu 2,5-3%. Á þessum tíma hefur því byggst upp veruleg þörf fyrir margvíslegar opinberar fjárfestingar. Ekki er ólíklegt að þörf sé á innviðafjárfestingar sem nema a.m.k. 100 milljörðum.
Á þessari mynd má sjá hversu stóru hlutfalli af landsframleiðslu sé varið í innviðafjárfestingu:
Náum ekki að nýta tækifærin
Það er afspyrnu vond staða þegar innviðir eru orðnir það veikir að við sem þjóð náum ekki að nýta þau gríðarmiklu tækifæri sem landið okkar og þjóðin býður upp á. Vegakerfið er víðast hvar of hrörlegt til að hægt sé að höndla fjölgun ferðamanna, orkuflutningar standa iðnaði víða fyrir þrifum, orkuvinnsla er minni en þörf er á, hafnir líða fyrir lítið viðhald og vöntun á vexti, flugvöllum fækkar í öfugu hlutfalli við þörfina fyrir þjónustu þeirra og lengi má áfram telja.
Það þarf kjark
Það þarf að snúa vörn í sókn hvað þetta varðar. Við verðum að hafa kjark til að fóðra mjókurkúna jafnvel þótt það kalli á forgangsröðun og nýja hugsun hvað ríkisrekstur varðar. Þannig sköpum við til lengri tíma svigrúm fyrir aukinnar þjónustu og velmegun.
Einkaðilar sjái um smásölu
Það er að mínu mati löngu tímabært að afnema samkeppnisrekstur ríkisins í smásölu. Rekstur verslanamiðstöðvar við alþjóðaflugvölli á ekki að vera meðal verkefna hins opinbera. Réttast væri því að Fríhöfnin ehf. verði lögð niður og einkaaðilum alfarið eftirlátið að sjá um verslunarþjónustu í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Þá er einnig rétt að komuverslun í flugstöðinni verði lögð niður enda heyra slíkar verslanir til algerrar undantekningar í heiminum þar sem þær keppa með opinberri meðgjöf um sömu neytendur og innlendir smásalar.
Ósanngjarnt
Það er hreinlega allt rangt við þessa ríkisverslun. Ekki hvað síst er það rangt og ósanngjarnt að með fríhöfnum er okkur sem oftar ferðumst og höfum sennilega að jafnaði rýmri fjárráð, gefinn kostur á að versla skattfrjálsan varning á meðan hinir sem sjaldnar ferðast hafa ekki slíkt tækifæri. Neytendur sitja því ekki við sama borð þegar fríhafnarverslun er annars vegar.