Af hverju lúrði blaðamaður DV á upplýsingum um minnisblaðið í lekamálinu í 4 daga?
Engum dylst að DV hefur verið ákaft í fréttaflutningi sínum um hið svokallaða lekamál. Ekki kæmi það mér á óvart þótt enn eigi margt eftir að koma úr skugganum um aðra aðkomu DV að málinu. Ég tók mig til um helgina og rýndi aðeins umfjöllun og gögn þar að lútandi. Ýmislegt kom mér á óvart....
...en þó ekki.
Eftir „krókaleiðum“
Hún hefur þannig ekki farið hátt sú staðreynd að mánudaginn 2. desember sendi Jón Bjarki Magnússon, blaðamaður á DV, tölvupóst undir nafninu [subject]: „Minnisblaðið komið!“. Viðtakandinn var hvorki fréttastjóri, ritstjóri eða nokkur annar starfsmaður DV heldur Katrín Oddsdóttir, lögmaður hælisleitanda sem fjallað var um í minnisblaðinu. Í upphafi póstsins segist Jón Bjarki hafa fengið minnisblaðið „eftir krókaleiðum“.
Beðið í fjóra daga með umfjöllun
Það vekur athygli og undrun að fyrsta frétt DV sem byggir á þessu minnisblaði (sem þangað rataði „eftir krókaleiðum“ ) kemur fjórum dögum seinna eða 6. desember. Þann dag segir Jón Bjarki frá því á vef blaðsins að DV hafi „óformlegt minnisblað um hælisleitendurna Tony Omos og Evelyn Glory Joseph undir höndum.“ Í fréttinni kemur fram að DV hafi fengið minnisblaðið frá „ónafngreindum heimildarmanni.
Ekkert sagt og enginn veit
Ekkert var sagt frá því að blaðamaður DV hafði þá verið með minnisblaðið í 4 daga. Enginn veit hvernig þetta komst til blaðamanns DV. Ekkert var sagt frá því að hann hafði fjórum dögum áður sent minnisblaðið á lögmann hælisleitanda, sem daginn eftir kærði málið til ríkissaksóknara. Ekki hefur verið útskýrt af hverju minnisblaðið var sent frá blaðamanni DV frá vinnunetfangi hans (jonbjarki@dv.is) undir nafninu „Minnisblaðið komið!“. Enginn veit af hverju blaðamaðurinn upplýsti ekki lesendur sína um þetta mikilvæga minnisblað heldur sendi það á lögmann sem ekki tengist blaðinu.
Bandalag
Það vekur líka undrun ef rétt reynist að blaðamaður DV hafi myndað einhvers konar teymi eða bandalag með lögmönnum út í bæ sem áttu hagsmuna að gæta í málinu. DV flutti þannig fréttir af því þegar aðrar kærur voru sendar inn út af sama máli og vissi um þær áður en ráðuneytið, sem kærurnar beindust að, vissi af þeim. Þetta lítur því út fyrir að vera sameiginleg barátta DV og nokkurra lögmanna fyrir ákveðnum málstað.
DV allt umlykjandi
DV virðist hafa verið allt umlykjandi í þessu máli. Jafnvel svo mjög að eins og komið hefur fram þá virðist grunur ríkissaksóknara um aðkomu Gísla Freys Valdórssonar, sem nú hefur verið ákærður, m.a. byggja á framburði blaðamanns DV. Sá ku hafa sagt í skýrslutöku hjá lögreglu að honum hefði „borist það til eyrna“ að aðstoðarmaður ráðherra hefði sent frá sér trúnaðargögn úr tölvupósti (vinnupósti) ráðuneytisins. (sjá; http://www.visir.is/yfirlysing-fra-gisla-frey--segist-fullviss-um-ad-verda-syknadur/article/2014140819270)
Hæstiréttur segir minnisblaðið ekki sent frá ráðuneytinu í póstkerfi þess
Litlu virðist skipta að í dómi hæstaréttar sem tengist þessu máli segir orðrétt: „Jafnframt bendir rannsókn lögreglunnar til þess að hverfandi líkur séu á því að minnisblaðið hafi verið sent frá ráðuneytinu í tölvupóstkerfi þess.“ (sjá: http://www.haestirettur.is/domar?nr=9578&leit=t). Í sama dómi segir reyndar einnig: „Rannsókn lögreglunnar hefur leitt í ljós að umrætt minnisblað var vistað á opnu drifi ráðuneytisins.“
Ósvarað
Um leið og ég óska Hallgrími Thorsteinssyni til hamingju með nýtt starf sem ritstjóri DV vil ég hvetja hann til að upplýsa lesendur um það hvers vegna fjölmiðillinn sem hann tekur nú við stjórn á upplýsti ekki lesendur sína tafarlaust um að hann hefði komist yfir hið örlagaríka minnisblað? Hver eru tengsl blaðsins eða blaðamanna við samtök sem berjast gegn áætlunum og vinnulagi Innanríkisráðuneytisins? Hefur blaðið eða blaðamenn haft áhrif á atburðarrás þessa máls á markvissan máta? Hafa þeir unnið með lögmönnum sem eiga hagsmuna að gæta í málinu?
Rétt er að taka fram að ég er með þessum orðum ekki að hvetja Hallgrím til að stöðva umfjöllun um þetta tiltekna mál, enda væri það með öllu óeðlilegt. Ég er að hvetja hann til að auka umfjöllunina og minna á að hlutverk fjölmiðla er að segja fréttir en ekki að búa til atburðarrás með annarri höndinni og segja fréttir af sömu atburðarrás með hinni. Það ætlast enginn til þess að fjölmiðlar séu hlutlausir, enda eru þeir það ekki og geta ekki verið það. Hins vegar má gera þá kröfu að þeir séu sanngjarnir.
Allt þetta þykir mér mikilvægt. Bæði fyrir trúverðugleika blaðsins sem og til að gera rétt og þola ei órétt.