Kolbrún ráðin sem verkefnastóri Grænna iðngarða
Verkefnastaða Ölfus Cluster er sterk og með vaxandi umsvifum hefur skapast þörf fyrir aðgengi að auknum mannafla. Ekki þarf annað en að líta til þess að á næstu 5 til 7 árum verður hér fjárfest fyrir tvö til þrjúhundruð milljarða, mest í umhverfisvænni matvælafraleiðslu. Með stuðningi Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins auglýstum við eftir starfsmanni og nú er ráðningaferli lokið.
Leiðir uppbyggingu
Það er ánægjulegt fyrir mig sem stjórnarformann Ölfus Cluster að kynna Kolbrún Hrafnkelsdóttir til leiks á þessu sviði en hún hefur nú verið ráðin til að leiða uppbyggingu græns iðngarðs í Ölfusi. Starfið byggir á samstarfsneti fyrirtækja á svæðinu þar sem skipst er á orku og hráefnum í anda nýsköpunar, loftslagsmála og orkuskipta. Verkefnið er styrkt af umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu.
Hringrásarhagkerfið og loftslagssjónarmiðin
Nú þegar eru fjölmörg verkefni farin af stað innan hinna grænu iðngarða og kveður þar mest að landeldisverkefnunum. Kolbrún mun gegna lykilhlutverki í að koma á fót þessum grænu iðngörðum ásamt því að vinna með þeim fyrirtækjum sem eru þegar innan sveitafélagsins og starfa með þessi gildi að leiðarljósi. Mikil atvinnuuppbygging hefur átt sér stað í Ölfusi að undanförnu. Grænn iðngarður er hugsaður sem hvati til að auðveld fyrirtækjum sem byggja á grænum gildum hringrásarhagkerfis og loftslagasjónarmiða að koma hugmyndum sínum í farveg.
Reynsla og þekking
Kolbrún er reyndur stjórnandi með yfirgripsmikla þekkingu á sviði viðskiptaþróunar, fjármögnunar og reksturs. Hún hefur undanfarin 20 ár unnið á alþjóðlegum vettvangi bæði sem stjórnandi í lyfjaiðnaðinum og sem stofnandi lyfjafyrirtækisins Florealis. Ekki spillir fyrir að Kolbrún er fædd og uppalin í Ölfusi og þann stendur því hjarta hennar nærri að fá tækifæri til að vinna að frekari framþróun og atvinnuuppbyggingu á svæðinu.
Við bjóðum Kolbrúnu velkomna til starfa.