Samgöngur á sjó

Nú þegar komið er fram yfir miðjan október er Landeyjahöfn enn opin, sem betur fer.  Allir þekkja hversu mikilvægt það er fyrir okkur Eyjamenn og gesti okkar enda fylgja þessu ekki bara aukin tækifæri í ferðaþjónustu, viðskiptum með sjávarafurðir og fl. heldur er þetta stór hluti af almennum lífsgæðum íbúa.  Samgöngur skipta okkur hreinlega öllu og því mikilvægt að bæjarbúar hafi á öllum tímum sem mestar og bestar upplýsingar.  Í þessu pistli ætla ég að segja frá stöðunni hvað varðar samgöngur á sjó og reyna svo fljótlega að segja fá stöðunni hvað flug varðar.

Dýpi

Dýpi í og við Landeyjahöfn er nú með besta móti.  Vel hefur gengið að dýpka og sést nú enn og aftur hversu mikilvægt það er að nýta ætíð öflugust tæki sem völ er á til þessara verka.  Neðangreind mynd er af mælingu sem gerð var með mælingarbátnum Geisla í gær.  Eins og þar sést er dýpi milli garða á bilinu 6,4 til 8 metrar.  Þar að auki hefur gengið vel að dýpka utanhafnar bæði að austan og vestan.

Útboð vegna nýrra dýpkunaraðferða

Mikil áhersla hefur á seinustu misserum verið lögð á að þróa nýjar aðferðir til að tryggja dýpi í Landeyjahöfn eftir að nýja ferjan kemur.  Á næstu dögum fara í útboð framkvæmdir sem felast í því að leggja á vegi út á báða garðhausa þannig að hægt verði að koma hjólakrana þangað.  Í útboðinu er einnig fólgið að kaupa öflugar dælur og búnað sem kraninn á að geta stýrt úr landi.  Með þessu er vonast til að hægt verði að tryggja dýpi milli garða en þekkt er að vandinn þar er mestur.  Margir (ég þar á meðal) hafa spurt afhverju slíkt hafi einfaldlega ekki verið gert einnig fyrir þennan Herjólf.  Svörin sem fengist hafa við því eru að það sé einfaldlega mjög erfitt að halda nægu dýpi fyrir þetta skip vegna djúpristu þess.  Þá hefur einnig veirð bent á að dýpið sé bara annar hluti vanda þess skips enda liggur fyrir að frátafir þess eru og verða miklar þar sem miða þarf við að 2,5 metra ölduhæð en yfir veturinn gerist það mjög oft að aldan fer yfir þessi viðmið og þá þarf að sigla í Þorlákshöfn hvort sem dýpið er nægt eða ekki.

Veðrið næstu daga

Veður og sjólag kemur þó til með að trufla samgöngur eitthvað á næstu dögum enda eru almenn viðmið Herjólfs þau að hann sigli ekki þegar alda fer yfir 2,5 metra.  Til að gera illt verra er skipið bilað og það mun einnig hafa einhver áhrif til fækkunar á þeim dögum sem hægt verður að sigla.

Skv. spá fer alda nú hækkandi og gangi þessar spár eftir verður ölduhæð komin yfir 2,5 metra um 19.00 í dag og ekki fara niður fyrir þau viðmið fyrr en eftir miðnætti á fimmtudaginn.  Skv. þessu falla því niður ferðir í kvöld, allan miðvikudaginn og allan fimmtudaginn.  Síðan myndu ferðir aftur leggjast af um hádegi á mánudag.  Það er áhugavert að velta því fyrir sér hver staðan hefði verið ef nýja ferjan væri komin.

Þá myndi skipið, ef spá rætist, sigla án frátafa í allan dag, fara í Þorlákshöfn á morgun og sigla síðan allan fimmtudaginn og án frátafa eins langt og spá nær.  

Staðan á nýsmíðinni

Ég heyrði í gær vangaveltur um að það væri alltaf verið að „slá ryki“ í augu fólks.  Ekkert væri verið að gera og það væri ekki einu sinni byrjað að smíða nýjan Herjólf heldur yrði tilkynnt „eftir kosningar“ að það væri hætt við það.  Sögumaður sagðist hafa sínar heimildir frá „manni sem þekkir þetta vel og vinnur meira að segja við þetta.“   Ég gerði mér satt að segja ekki grein fyrir að búið væri að tala annað eins rugl inn í bæjarbúa og hef þó séð frjálslega farið með sannaleikann. Það er því ánægjulegt að segja frá því að smíði hins nýja Herjólfs er svo til á áætlun og ætti hann að vera kominn til þjónustu fyrri hluta næsta sumars.  Myndirnar hér fyrir neðan voru teknar fyrir nokkrum dögum í smíðastöðunni í Póllandi.

Unnið að yfirtöku á rekstrinum

Að lokum er svo rétt að ítreka það sem áður hefur komið fram um að hjá Vestmannaeyjabæ er einlægur vilji til þess að taka yfir rekstur Herjólfs.  Þetta er gert annarsvegar til að koma í veg fyrir að sífellt sé verið að véla um þessi mikilvægu mál án okkar þátttöku og hinsvegar til að tryggja að eingöngu hagsmunir samfélagsins ráði ferðinni í þessum mikilvæga rekstri. 

Þess mynd sýnir forsendur þeirra viðræða sem við stöndum nú í:

Einhverjir hafa reynt að tortryggja þetta rétt eins og allt annað sem að samgöngum snýr.  Vegna þessa er mikilvægt að hafa hugfast að allt tal um rekstrarlega áhættu er ekki tímbært enda verður þess gætt að lágmarka slíkt.  Allt tal um að þetta verði til mismununar milli bæjarbúa er fráleitt.  Vandséð er hvernig nokkur getur trúað því að bæjarfulltrúar fái einhver fríðindi vegna þessa enda fara börn bæjarfulltrúa alveg jafnt á biðlista eftir leikskólum, bæjarfulltrúar greiða sjálfir sína sundamiða og götur við heimili þeirra eru ekki ruddar af snjó fyrr en hjá öðrum.  Það lýsir mikilli vanþekkingu á eðli starfa bæjarfulltrúa ef einhver heldur að í því sé fólgið aukið aðgengi að almennri þjónustu. Þeir sem hæst tala um slíkt eiga etv. stundum erfitt með að aðskilja eigin hagsmuni og hagsmuni samfélgsins í heild.  Um þetta hefur þegar verið skirfaður ágætis pistill. (sjá hér: Leysum verkefnin með hagsmuni Vestmannaeyja í forgangi)

Samgöngur skipta okkur öllu.  Samfélagið í Eyjum á í raun allt undir og mikilvægt að við tökumst á við þessi mál af hæfilegri blöndu af bjartsýni og raunsæi. 

Að gefast upp er ekki í boði.

Previous
Previous

Breytingar gerðar á Landeyjahöfn

Next
Next

Áherslur Vestmannaeyjabæjar í viðræðum við ríkið um yfirtöku á rekstri Herjólfs