Breytt þörf fyrir ríkisfjölmiðil - Til varnar Vigdísi Hauksdóttur

Vigdís Hauksdóttir er skelegg þingkona.  Hún segir meiningar sínar umbúðalaust og hefur lítið fyrir því að sykurhúða skoðanir sínar.  Hún gefur lítið fyrir pólitískan rétttrúnað og lætur sér í léttu rúmi liggja kröfuna um að viðkvæm mál séu rædd í froðusnakki –„ a la Samfylking“.  Þetta þykir mér til kosta hennar þótt oft verði þetta til þess að...

...á henni standa oft öll spjót.

Fórnarkostnaður

Spjótin sem standa á Vigdísi eru oftar en borin uppi af fjölmiðlamönnum og einhverri óskilgreindri  mennta- og menningarelítu sem á stundum hefur fengið yfir sig gusurnar af tannsteinum þingkonunnar.  Að mínu viti er umfjöllunin um Vigdísi oft ósanngjörn og ekki sjaldan sem hjólað er í persónu hennar frekar en málin sem hún fjallar um.  Það er fórnarkostnaður þess að hún taki ekki þátt í pólitískum rétttrúnaði.

Sammála

Í mögum veigamiklum málum er ég sammála Vigdísi Hauksdóttur, í öðrum er ég henni ósammála.  Ég er í grunninn sammála skoðunum hennar þegar kemur að aðild okkar að ESB.  Þangað inn eigum við ekki erindi.  Ég er líka sammála því að RÚV hefur haft mikla vinstri slagsíðu á seinustu árum og óhikað tekið sér stöðu með aðild að ESB, með fyrrverandi ríkisstjórn, með óhóflegum gjöldum á sjávarútveg og fl.  Það er óviðeigandi.  Svo er ég hjartanlega sammála Vigdísi í því að að ríkið á ekki að vera með sterka stöðu á neytendamarkaði hvorki í fjölmiðlum né annarstaðar.  Einkaframtakið getur vel séð um fjölmiðlun.

Ekki sammála

Ég heyrði viðtalið við Vigdísi í „Íslandi í býtið“ í morgun og brá í brún.  Þótt ég hafi oft dálæti á Vigdísi þá á ég erfitt með að réttlæta þegar hún blandar saman málflutningi RÚV og störfum niðurskurðarnefndarinnar.  Það er að mínu mati rangt að hóta niðurskurði sem lið í að múlbinda fréttamenn.  Slíkt verður sínu alvarlegra þegar þau orð koma frá formanni fjárlaganefndar.  RÚV á að mæta niðurskurði en það á að gerast á öðrum forsendum. 

Breytt þörf fyrir ríkisfjölmiðil

Mergur málsins er sá að á seinustu árum hefur tilkoma og vöxtur Internetsins gjörbreytt þörfinni fyrir ríkisfjölmiðil.  Samfélagsmiðlar hafa síðan haft mikil áhrif.  Tæki og tól sem þarf til útvarpssendinga er nánast hægt að fá í næsta kaupfélagi og prentari sem fylgir fermingatölvu er svipað öflugur og öll prentsmiðja Alþýðublaðisins sáluga.  Við þessu þurfa stjórnvöld að bregðast.  Tafarlaust þarf að  ráðast í þá vinnu að endurskilgreina þörf samfélagsins fyrir ríkisfjölmiðil.  Grunur minn er sá að í framhald af slíkri vinnu komi í ljós að ekki sé ástæða til að starfrækja Ríkisútvarpið ohf. í þeirri mynd sem nú er.  Stór þáttur í slíkri vinnu þarf að vera að endurskilgreina hvaða menningarfræðslu og dagskrárgerð á að styrkja opinberlega og tryggja fjármagn til þeirra verkefna en ekki annarra.  

Kemur fyrir besta fólk

Ég treysti Vigdísis Haukdóttur og félögum hennar í þingflokkum ríkisstjórnarinnar vel til að taka þátt í slíkri vinnu.  Þess vegna trúi ég því að henni hafi hlaupið full mikið kapp í kinn í morgun.  Það kemur jú fyrir besta fólk.

Previous
Previous

Meint vinstrislagsíða á fjölmiðlum og í skemmtanaiðnaðnum

Next
Next

Nokkur leiðinleg hugtök