Nokkur leiðinleg hugtök

 Sum hugtök eru leiðinlegri en önnur.  Eitt þeirra allra leiðinlegustu er „Fjármagnshöft“, annað hundleiðinlegt hugtak er bólumyndun.  Önnur leiðinleg hugtök eru „snjóhengja“,  „kerfisáhætta“ og „endurfjármögnunaráhætta“.  Svo leiðinleg sem þessi hugtök eru þá...

...veltur velferð bæði mín og þín á því hvernig tekst til með úrvinnslu þeirra mála sem tengjast þessum hugtökum.  Þess vegna ætla ég að láta það eftir mér að velta aðeins vöngum um þessi mál.

Stjórnarsáttmáli fyrirheitastjórnarinnar

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar (sem gárungar uppnefna fyrirheitastjórnina vegna loforðaflaumsins sem tryggði henni kjör) segir: „Eitt mikilvægasta verkefni ríkisstjórnarinnar verður að vinna að afnámi fjármagnshafta en gjaldeyrishöftin bjaga eignaverð og draga úr samkeppnishæfi þjóðarinnar.“

Flestir eru sennilega sammála þessari greiningu leiðtoganna tveggja.  Flestir eru sennilega einnig sammála því að allar líkur séu til þess að afnám fjármagnshafta leiði til sveiflna í gengi krónunnar, geri fjármögnun ríkissjóðs dýrari og hafi víðtæk áhrif á fjármálamarkað, ekki síst lánasöfn og lausafjárstöðu bankanna. Annað er enda nánast óhugsandi.

Fyrsta leiðinlega hugtakið: Snjóhengjan

Umfangið er gríðarlegt, reyndar svo mjög að því hefur verið líkt við snjóhengju.  Auðseljanlegar krónueignir í höndum erlendra aðila nema nú 367 ma.kr., svonefndar aflandskrónur auk um 85 ma.kr. sem eru lausar eignir innlánsstofnana í slitameðferð í krónum. Þessar eignir – þessi hengja- mun án vafa flæða út við losun hafta. Ef ekki verður staðið að með gát er hættan sú að heimilin og við þar með lendum undir.  Til að koma í veg fyrir að hengjan losni var gripið til þess ráðs að koma í veg fyrir að hægt yrði að flytja þessa eign, þessi verðmæti, úr landi.  Þannig hefur hengjan verið fest og þannig keyptur tími.

Annað leiðinlega hugtakið: „Bólumyndun“

Á móti kemur að höft á fjármagnsmarkað eru landi og þjóð dýr, og gerir ekkert annað en að verða dýrari.  Nú þegar má víða sjá bólumyndun innan hafta enda verður að finna fjármagni verkefni.  Þannig hefur virði hlutabréfa Icelandair meira en fimmfaldast frá útboði, hlutabréf Haga hafa hækkað um 25% og Fasteignafélagið Regin sennilega um 20%.  Svipaða sögu er að segja af fasteignamarkaði.  Síðastliðna mánuði hækkaði vísitalan um 3,8%, 6 mánuði þar áður hækkaði hún um 4% og árið þar á undan hækkaði hún um 6,9%.  Gaman væri ef ástæðan væri sú að raunvirði væri að aukast svona mikið vegna verðmætasköpunar.  Líklegra er þó að skýringin liggi í því að innlent fjármagn (krónu) finni engan frekari farveg í verðmæti.   

Þriðja leiðinlega hugtakið: „Kerfisáhætta“

Skýrasta dæmi er sennilega uppsöfnuð fjárfestingarþörf íslenskra lífeyrissjóða.  Á árunum 2013 til 2015 er fjárfestingaþörf þeirra áætluð vel yfir 400 milljarðar króna. Varlega áætluð fjárfestingarþörf þeirra er á bilinu 130-150 milljarðar króna á ári.  Það eru 356 milljónir á dag.  Líklegt er að vægi innlendra hlutabréfa í eignasafni lífeyrissjóða muni aukast á næstu árum og innlán þeirra fari minnkandi.  Sérfróðir hafa metið sem svo að íslenskir lífeyrissjóðir muni á næstu þremur árum fjárfesta fyrir 100-200 milljarða króna á íslenska hlutabréfamarkaðnum. 

Þessi aukna bólumyndun innan hafta eykur auðvitað kerfisáhættu og grefur undan stöðugleika fjármálakerfisins ef ekkert er að gert.  Þeir félagar Bjarni og Sigmundur hljóta að óttast að ef ekki verður komið í veg fyrir þennan bóluþrýsting þá springi blaðran í andlit þeirra og þar með okkar allra.

Fjórða leiðinlega hugtakið: „Endurfjármögnunaráhætta“

Til að dekkja myndina enn frekar og sýna þrýstinginn á gjaldmiðlinn þá liggur fyrir að áætlaðar afborganir af erlendum lánum innlendra aðila fram til ársins 2018 eru þungar.  Svo dæmi sé tekið þá eru rúmlega 40% skulda íslenskra sveitarfélaga í erlendri mynt.  Samkvæmt afborgunarferlinum er útlit fyrir að árið 2013 verði sveitarfélögunum stærsta fyrirsjáanlega afborgunarbrekkan.  Samtals nema samningsbundnar afborganir 28 stærstu sveitarfélaga landsins (samstæða) um 47 milljarða á yfirstandandi ári. Það samsvarar því að um 20% af heildartekjum sveitarfélaganna á síðasta ári fari í afborganir af langtímaskuldum á árinu 2013. Víða er sömu sögu að segja og þunginn að aukast.  Áætlaðar afborganir innlendra aðila fara úr 87 milljörðum árið 2014 í 128 ma.kr. árið 2015 þegar afborganir af skuldabréfum milli gamla og nýja Landsbankans hefjast af fullum þunga. Til samanburðar er áætlað að undirliggjandi viðskiptaafgangur ársins 2012 hafi verið 52 milljarðar. Verði viðskiptaafgangur á næstu árum svipaður og hann hefur verið á síðastliðnum árum, um 3-3,5% af landsframleiðslu, þurfa aðrir aðilar en ríkissjóður og Seðlabanki að endurfjármagna sem nemur um 265 ma.kr. fram til ársins 2018. Endurfjármögnunaráhættan í erlendum gjaldmiðlum er því gríðarleg.

 ...og hvað með það

Staða gjaldmiðilsins er erfið og í raun þjóðarbúsins alls.  Nú þegar er verulegur þrýstingur á lækkun krónunnar.  Mig grunar að innan skamms sjáum við krónuna okkar byrja að veikjast á ný.  Sjaldan hefur verið ríkari ástæða til að rifa segl ríkisins. Ekki er ólíklegt að einhverjir reyni að ræða inngöngu í ESB og upptöku Evru sem lausn á þessum vanda.  Þeir hinir sömu eru í besta falli eins og snákaolíusölumenn.  Slíkt verður ekki til bóta enda mörg ár í slíkt – jafnvel þótt öllu yrði til tjaldað.  Auðvitað er sennilegt að eitthvað sé hægt að semja við kröfuhafa og þá sem kallaðir hafa verið hrægammar.  Lausnin er hinsvegar sú ein að ná tökum á ríkisfjármálum. Auka tekjur þjóðarbúsins og skera niður kostnað þess.  Óraunhæf loforð stjórnmálaflokka í aðdraganda seinustu kosninga verða að víkja.  Auka verður frelsi til framkvæmda hjá einkageiranum, fækka hindrunum og rétt eins og ef um væri að ræða fyrirtæki þá þarf að hugsa út í arðsemi fjárfestinga ríkisins.  Snotur verkefni eins og „hús íslenskra fræða“, „hátæknisjúkrahús“ og margt fleira verður að bíða.  Þá er og mikilvægt að létta þrýstingi af katlinum. Afborgunarferill skuldabréfa Landsbankans er allt of þungur fyrir okkar veika hagkerfi.  Semja verður um að lengja í bréfunum að hluta og endurfjármagna þau að hluta.  Án lengingar eða umtalsverðrar endurfjármögnunar er ljóst að ekkert svigrúm er til þess að nýta viðskiptaafgang í því skyni að hleypa út krónueignum erlendra aðila á næstu árum.

Ergo: Auka þarf tekjur og lækka útgjöld og nota allt svigrúm til að létta á snjóhengjunni. 

Previous
Previous

Breytt þörf fyrir ríkisfjölmiðil - Til varnar Vigdísi Hauksdóttur

Next
Next

Þar er erfitt að spá, og sérstaklega um framtíðina